23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vildi mega biðja þá n., sem ég býst við, að verði hv. landbn., sem fær frv. til athugunar, að athuga sérstaklega það hlutfall, sem er á milli framlags ríkissjóðs til þessara sjóða, og þess framlags, sem kemur annarsstaðar frá, en þetta er nú ákveðið í 6. gr. frv. þannig, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi jafnmikið fram eins og tekjur sjóðanna verða annarsstaðar frá.

Það af núgildandi lögum, sem stendur þessu frv. næst til samanburðar, eru lög um avinnuleysistryggingar, en þar er hlutfallið þannig, að þeir tryggðu leggja fram 2 hluta, ríkissjóður 1 hluta og hlutaðeigandi bæjarsjóðir 1 hluta, en hér er ætlazt til, að ríkissjóður leggi fram helming af öllum tekjum sjóðanna. — Ég vildi mega mælast til þess við hv. landbn., að hún í sambandi við þetta frv. taki þetta atriði sérstaklega til athugunar.