27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. hefir hlotið afgreiðslu í Nd. og er nú búið að liggja alllangan tíma hjá landbn. þessarar hv. d. Eins og sjá má á nál. hefir n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Tveir nm., ég og hv. 4. landsk., leggjum það til, að frv. verði samþ., jafnvel þó að hv. 4. landsk. áskilji sér rétt til að vera með brtt. Þriðji nm., hv. 2. þm. Rang., hefir viljað, að frv. verði fellt, og gerir grein fyrir því í nál. á þskj. 408. og býst ég við að hann geri nánari grein fyrir því hér við umr. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að sýslu- og bæjarfélög fái heimild til að stofna fóðurtryggingarsjóði fyrir einstök sýslu- og bæjarfélög. Það gerir jafnframt ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram töluvert fé til þessara sjóða, eða í mesta lagi 45 þús. kr. á ári. Þessum sjóðum er síðan ætlað að fá tekjur hjá búfjáreigendum í sínu umdæmi, sem ásamt ríkissjóðsstyrknum verður varið til þess að koma í veg fyrir fóðurskort. Frv. ætlast til, að heima fyrir verði alltaf lögð í sjóðinn a. m. k. jafnhá upphæð og kemur frá ríkissjóði. Sem sagt er það meiningin, að starfsemi þessara sjóða nái yfir eitt sýslufélag eða bæjarfélag. Þó er ætlazt til, að þeir hreppar sem hafa stofnað til fóðurtrygginga samkv. búfjárræktarlögunum, geti verið undanþegnir þessum samtökum, ef þeir vilja. Í frv. eru svo ýmsar nánari reglur um starfsemi og fyrirkomulag þessara sjóða.

Það ber öllum saman um það, að það sé rétt af Alþingi að hvetja til skynsamlegra ráða um fóðurtryggingar.

Það er alveg óþarft að fara hér að lýsa þessum gamla fjanda Íslendinga, fóðurskortinum, og afurðamissi búfjáreigenda í sambandi við hann. Það er svo oft búið, að ég býst við, að þing og þjóð viti full deili á því. Ætla ég ekki að orða þá hluti hér. Hitt ætla ég að mönnum sé ekki sízt kunnugt nú, að þrátt fyrir allar bollaleggingar og allar prédikanir, og jafnvel oft góðan vilja Íslendinga til að komast hjá fóðurskorti og afleiðingum hans, þá hefir þetta ekki lánazt. Sjálfsagt er eitthvert gleggstu dæmi þess nú hinn almenni fóðurskortur, sem má segja, að nú vofi yfir á norðausturlandi. Og þá ímynda ég mér að flestum komi saman um það að betur má ef duga skal, til að bæta úr ástandinu sem verið hefir og er í þessu efni og að ekki tjáir að halda að sér höndum. Vitnlega væri æskilegast ef hver einstakur búfjáreigandi væri það forsjáll og hefði mannrænu og getu til þess að forðast þennan vanda sjálfur fyrir sig. En slíkt ástand er bara ekki fyrir hendi. Og það verður að taka hlutina eins og þeir eru.

Það er á það bent hér í áliti minni hl landbn á þskj. 408, að ýmislegt sé búið að gera af hendi löggjafans til þess að bæta úr þessum ömurlegu kringumstæðum, t. d. bæði með löggjöf um forðagæzlu og með ákvæðum búfjárræktarl. En það ber að sama brunni, að þó að þessar tilraunir til umbóta hafi verið gerðar, þá er það sjáanlegt, að enn hafa þær ekki náð tilgangi sínum. Þess vegna er það, að við, sem erum í meiri hl. landbn., leggjum til, að sú aðferð sem hér er till. um í frv., verði reynd.

Ýmsar raddir hafa heyrzt um það, og þar á meðal frá hv. minni hl. landbn., að það sé hætta á því, að menn setji kannske enn verr á þegar menn vita um það, að bak við þá stendur sjóður, sem hefir skyldu til að hjálpa eitthvað upp á sakir, ef út af ber um öryggi fyrir nægu fóðri. Ég fyrir mitt leyti vil ekki slá því föstu, nema þetta kunni í einstökum tilfellum að geta átt sér stað. En ég óttast samt þetta ekki mikið. Mér finnst ég hafa séð nægilega mikið af því, að menn hafi selt ógætilega á og orðið sjálfum sér og öðrum til tjóns, þó að þessu hafi ekki verið til að dreifa. Ég býst við að þetta liggi nokkuð í skapferli manna, og í öðru lagi í kringumstæðum þeirra. En í raun og veru munu menn ekki fá tilhneigingu til þess að setja illa á vegna þessara ráðstafana. En þegar þessi hugsunarháttur er fyrir hendi, án tillits til þess, lagafrv., þá vita menn alltaf um, að það stendur einhver á bak við þá. Fyrst og fremst hjálpa nágrannarnir, meðan þeir geta. Þó að menn séu ekki eftir l. skyldir til að gera það, þá horfa þeir ekki á að t. d. kýr nágrannans falli af fóðurskorti, ef möguleikar eru til að bjarga. Og í áliti minni hl. n. er sagt, að ríkisvaldið hlaupi í stærri tilfellum undir baggann. Og ég held, að slík hjálp frá því opinbera sé sjálfsögð, þegar eins stendur á og nú á harðindasvæðunum á Norður- og Austurlandi. En ég álít, að heppilegt væri, að á milli einstaklinga og ríkisvaldsins stæði aðili, sem bæri af þeim blakið, svo að byrðin þyrfti ekki að koma beint og óvænt til ríkisvaldsins, m. a. vegna þess, að ég hygg að mönnum sé ekki óljúfara að fá hjálpina beint frá því opinbera, ef það kemst í móð, að hana sé þar að fá.

Ég játa, að hér getur verið um að ræða tvíeggjað vopn. Það getur viljað til. En ég álít svo mikla þörf á umbótum í þessum efnum frá því, sem nú er, að ég fyrir mitt leyti hika ekki við að legga til að frv. þetta verði samþ. Þar er að vísu um að ræða allveruleg útgjöld fyrir ríkissjóð. En ríkissjóður má eiga yfir höfði sér mikil útgjöld, ef óvænt og mikil harðindi ber að höndum. Og ég hygg skynsamlegra fyrir ríkissjóðs hönd, að hann leggi fram framlög, gegn ákveðnum framlögum frá búfjáreigendum sjálfum, heldur en að hann eigi alltaf yfir höfði sér að þurfa að leggja fram fé, ef eitthvað ber út af til muna.

Ef hægt væri að koma því við að örva einstaklingana hvern út af fyrir sig til þess að standa sjálfir straum af sjálfum sér í þessu efni, hvernig sem viðrar og árar, þá væri það vitanlega bezt. En af því að ég sé engin ráð til þess að rétta þeim hjálparbönd, svo að gagni verði, öðruvísi en með því að gera ráð fyrir, að menn standi saman í félagsskap, þá vil ég ekki leggja út í að bera fram brtt. við þetta frv. heldur lofa atkv. að sýna, hvaða fylgi það hefir eins og það er.