27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Jón Baldvinsson:

Í nál. á þskj. 293 get ég þess, að ég sé ekki fyllilega samþykkur frv., og er það einkum með tilliti til framlags ríkissjóðs. Ég vil til samanburðar geta þess að framlag ríkissjóðs til alþýðutrygginganna er ekki ákveðið nema 25% en hér er gert ráð fyrir, að framlagið nemi 50%. Þetta getur numið 75 þús. kr., og er það ekki lítil upphæð árleg., þótt svo stórfelldar greiðslur komi að líkindum ekki til greina strax, þótt búast megi við því, að þær verði teknar á fjárlög bráðlega. Ég vil í þessu efni taka kreppulánasjóðinn til samanburðar. Til hans var að vísu ríflega ætlað, en menn bjuggust alls ekki við því, að hann yrði svo fljótt og ört notaður sem raun var á og ríkissjóður yrði að inna greiðslur sínar svo fljótlega af hendi.

Ég mun bera hér fram skriflega brtt. við 6. gr. um framlag ríkissjóðs. Ég hafði ætlað mér að bera hana fram í tæka tíð, en hún hefir á einhvern hátt misfarizt í meðförunum. Efni þessarar brtt. er það, að framlag ríkissjóðs fari ekki fram úr 1/3 á móti öðrum framlögum.

Þótt ég fylgi þessu frv., hefi ég þó ýmislegt við það að athuga, eins og hv. 2. þm. Rang., einkum þó ákvæði 9. gr. Það er ákaflega hætt við því, að margir hugsi sem svo, að þeim sé óhætt að setja á eins og þeir vilji, þar sem fóðurtryggingarsjóður býður þeim upp á hjálp þegar á haustin. Mér finnst þetta ákvæði athugavert og vona, að landbn. athugi það til 3. umr., hvort ekki er hægt að koma að öðru orðalagi, þar sem mönnum er ekki með eins beinum orðum boðið upp á hjálp fyrirfram. Brtt. mín skerðir ekki þá aðalupphæð, sem sjóðunum er ætluð, heldur leiðir af henni, að aðrir aðiljar en ríkissjóður verða að leggja fram 2/3 í stað helmings, eins og frv. ætlast til.