27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

*Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Hv. frsm. meiri hl. heldur því fram, að afleiðing þessarar löggjafar muni verða sú, að menn verði betur búnir undir illt árferði en nú. En fyrst er nú óvíst, að þessi löggjöf verði notuð, og margt hendir til þess, að svo verði ekki nærri allsstaðar. Má að vísu segja, að minni hætta sé en áður á almennum felli, þar sem hægt verði að forða honum með korngjöf á þennan hátt. En hinsvegar gerir þessi löggjöf ekkert til þess, að einstaklingarnir verði betur undirbúnir en áður, nema síður sé, þar sem á þennan hátt er dregið úr ábyrgðartilfinningu þeirra, þar sem þeir vita, að ef að kreppir, er ávallt hægt að leita til fóðurtryggingarfélaganna. Þetta hlýtur því að draga úr tilhneigingu manna til að kenna sér upp forðabúrum.

Hv. þm. sagði, að með þessum hætti væri safnað forða á góðu árunum. En gæti nú ekki farið svo, að sá forði yrði gefinn upp í miðlungsárunum, svo að ekkert yrði til er verulega vond ár koma? — Hann sagði ennfremur, að ástæðan til þess, að fóðurbirgðafélög hefðu ekki verið stofnuð eftir búfjárræktarlögunum, væri einkum tómlæti og ófélagslyndi. En ég held, að orsökin sé sú, að bændur hafi yfirleitt vanið sig við þá hugsun, að þeir eigi sjálfir að hafa nóg handa búpeningi sínum. Ég held, að mér sé óhætt að segja það að hér á Suðurlandi hafi það verið algerð undantekning síðustu l6 árin, að nokkur maður hafi komizt í fóðurþrot. Það er að vísu svo, að á þessum síðustu 16 árum hafa ekki komið harðæri, en sumir veturnir hafa þó verið meira en í meðallagi gjaffelldir. Þegar málinu er svona komið, er miklu síður ástæða til þess að koma upp kornforðabúrum. Það er enginn vafi á því, að í þessu efni hafa orðið miklar breytingar á þeim tíma sem við munum, sem nú erum orðnir miðaldra. Fóðurskortur var fyrir aldarfjórðungi miklu algengari heldur en hann hefir verið á síðustu árum.

Þá sagði hv. þm. að ég hefði gleymt því, að sum ákvæði fóðurtryggingarlaganna ættu að vera, í gildi, þó að þetta frv. yrði að lögum, og að forðagæzlan ætti að hafa sömu þýðingu, þó að fóðurtryggingarsjóðirnir væru bundnir við heil sýslufélög. En þetta er að mínu áliti ekki rétt hjá honum. Hv. þm. verður að gæta þess að aðhaldið minnkar jafnt fyrir sveitarfélögin og einstaklingana, og því meira sem ábyrgðinni er dreift meira. Það er minna aðhald fyrir forðagæzlumennina að ganga hart eftir því, að hver einstakur hafi nægilegt fóður handa skepnum sínum, þegar þeir vita, að hægt er að leita til fóðurtryggingarsjóðanna ef fóðurskort ber að höndum. Þeir mundu vissulega ekki beita því harðræði, sem lög heimila þeim eða hreppsnefndum, ef þessi vissa lægi á bak við að það þyrfti ekki annað en að leita til fóðurtryggingarsjóðanna.

Þá sagði hv. þm., að það stæði eftir sem áður opin leið til þess, að stofna fóðurbirgðafélög fyrir hvern einstakan hrepp. Það er dálítið einkennileg staðhæfing frá hans sjónarmiði, að þessi löggjöf verði einmitt til þess að hvetja menn til að stofna fóðurbirgðafélög fyrir einstaka hreppa af hræðslu við það að lenda annars í stóra félaginu. Það er nú náttúrlega svona og sona, að setja löggjöf sem menn reyna að flýja undan af hræðslu við hana, þó að þeir eigi að njót, fríðindanna af löggjöfinni. En ég skil ekki lögin þannig að eftir að búið er að stofna sameiginlegt félag yfir heila sýslu, þá sé heimilt að stofna fóðurbirgðafélög innan hvers einstaka hrepps.

Í 5. gr. frv. er ákvæði um það, að hreppum, þar sem starfandi eru fóðurbirgðafélög, sé heimilt að vera utan þátttöku í stofnun fóðurtryggingarsjóðs, „enda tilkynni þau oddvita sýslunefndar ákvörðun sína eigi síðar en 4 vikum frá því, að sýslunefnd hefir samþ. stofnun fóðurtryggingarsjóðs.“

Þetta sýnist mér taka af öll tvímæli um það, að eftir að búið er að stofna sameiginlegt félag sem nær yfir heila sýslu, sé óheimilt að stofna félög fyrir hvern hrepp. Er hv. þm. í nokkrum vafa um það? (PHerm: Ég er í dálitlum vafa um það). Ég held, að það sé vafalaust. Það er eingöngu þar, sem fóðurbirgðafélög eru starfandi, sem hreppar geta skorazt undan. Ég sé þess vegna ekki, að hrepparnir hafi þarna neina smugu til þess að komast undan þessari löggjöf, svo framarlega sem sýslufélögin ákveða að stofna til fóðurtryggingarsjóða.

Hv. þm. sagði að síðustu í því, sem hann talaði til mín, að sér þætti eðlilegt, að menn notuðu góðu árin til þess að búa sig undir vondu árin. Við erum vitanlega á sama máli um þetta, en við erum bara ekki sammála um það, á hvern hátt það eigi að gerast. En þó erum við líklega í höfuðatriðum sammála um það. Ég býst við, að við séum sammála um það, að æskilegt væri, að góðu árin væru notuð á þann veg, að hver einstakur kvikfjáreigandi reyndi þá að koma sér upp fyrningum og koma þannig upp fóðurtryggingu fyrir vondu árin. En það, sem okkur greinir á um, er eingöngu það, hvernig eigi að bæta úr þeirri vöntun, sem verður hjá einstaklingunum í þessu efni. Það er það, sem okkur greinir á um, en ekki hitt, hvort góðu árin eigi að notast til þess að koma í veg fyrir skakkaföll í lakari árum. Við höfum náttúrlega hvor um sig fært rök fyrir því, hvor leiðin er heppilegri, sú, sem farin hefir verið, eða sú, sem hér er lögð til, og verða einstakir þm. að gera það upp við sig, hvor líklegri sé til þess að koma í veg fyrir, að einstaka kvikfjáreigendur þrjóti fóður í erfiðum árum.

Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að það er ákaflega mikil hætta á því, ef frv. verður að lögum og verður notað, sem ég efast meira um að það verði til þess, að menn setji djarfara á og verði þess vegna verr undir búin að taka á móti vondum árum.