27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

8. mál, fóðurtryggingarsjóðir

Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Ég er alls ekki viss um, nema það geti komið fyrir, að lagasetning sem þessi kunni í einstökum tilfellum að draga úr hvöt hjá einstaklingum til þess að sjá sjálfum sér farborða. En ég býst bara við, að það verði undantekningar, og geri ráð fyrir, að það verði meiri ávinningur að þessari lagasetningu í heild heldur en það tjón, sem kann að stafa af þessum undantekningum. Ég býst við því, að það mundu fleiri gefast upp við að ala önn fyrir sjálfum sér heldur en gera það, ef ekki væru lög um það að þeir, sem örbjarga væru, skyldu framfærðir af almenningi.

Hv. þm. sagði, að ef sjóðurinn yrði notaður meira og minna og kannske upp í meðalári, eins og hann var hræddur um, að kynni að verða, þá safnaðist ekkert fé. Ég held, að það sé dálítill misskilningur, vegna þess, að í frv. er gert ráð fyrir að árlega sé greitt fé í sjóðinn. (PM: Ég kalla það ekki að safna). Hv. þm. sagði líka að fóðurskortur væri óalgengari nú heldur en hefði verið áður, og býst ég við, að það sé rétt. En það er líka á hitt að líta, að nú um hálfan annan áratug, eða frá 1920, hafa yfirleitt verið góðæri, bæði góð sumur og góðir vetur. Ég játa, að ég er ekki svo kunnugur á þessu landi öllu, að ég geti lagt dóma, hvernig það hefir verið yfirleitt, en ég þekki mörg dæmi um það, að á þessum góðu árum hefir staðið almennur fóðurskortur fyrir dyrum.

Hv. þm. þótti það einkennilegt, að ég skyldi benda á það, að það kynni að verða stofnað til fóðurtrygginga fyrir einstaka hreppa af einskonar ótta við það að lenda inn í heildarfóðurtryggingum sýslufélaganna. Það er ekki einkennilegt, vegna þess að ég veit, að það eru ýmsir, sem líta líkt á þetta eins og hv. 2. þm. Rang., að þeir vilja heldur hafa fóðurtryggingarnar í smærri stíl, fyrir eitt sveitarfélag, heldur en fyrir heila sýslu. Ég veit, að þessi skoðun er til, og ég er ekki að leggja á metaskálarnar, hvort hún er réttari heldur en hin. En ef þessi heildarlöggjöf verður til þess að ýta áfram fóðurtryggingum heima í einstökum sveitum, þá álít ég hana að því leyti líka til bóta. Það er rétt, sem hv. þm. sagði í lok sinnar ræðu, að við erum sammála um, að æskilegt væri, að hver einstakur gæti í þessum efnum séð sér farborða, en ég tek bara hlutina eins og þeir eru; ég sé, að þetta er ekki svona, og þess vegna vil ég gera þessa tilraun, sem hér er á ferðinni, til þess að reyna að bæta úr ágöllunum.