05.05.1936
Sameinað þing: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1937

*Jóhann Jósefsson:

Það eru ekki mjög margar brtt., sem ég er við riðinn, en ég ætla að víkja að þeim með fáeinum orðum.

Sú fyrsta er á þskj. 519, XII. um 5000 kr. framlag til. malbikunar vega í Vestmannaeyjum, og er sú till. flutt til samræmis við það ákvæði, sem í hv. Nd. var sett inn í frv. til laga um tekjuöflun ríkissjóðs, þar sem hinum nýja benzínskatti er skipt niður til vegabóta á ýmsum svæðum landsins. Ég skal geta þess, að þetta ákvæði um að þessari upphæð verði varið til malbikunar í Vestmannaeyjum af benzínskattinum, er sem stendur í frv., sem fyrir þinginu liggur, um tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Þá hefi ég ásamt hv. þm. N.-Ísf. og hv. 6. þm. Reykv. flutt brtt. við 22. gr., þar sem farið er fram á, að ríkið stuðli að fisksölu í útlöndum með því að ábyrgjast þá, sem selja fiskinn, gegn gengissveiflum, en þar sem ég er ekki 1.flm. þeirrar till., skal ég ekki fjölyrða frekar um hana.

Ennfremur er ég meðflm. að till. um, að stj. sé heimilt að efla skuldlaskilasjóð vélbátaeigenda með nýju framlagi úr ríkissjóði, allt að 200 þús. kr., til hjálpar eigendum línuveiðagufuskipa, en fyrir þeirri till. ætla ég ekki að færa rök frekar en þeirri, sem ég síðast nefndi, því að hv. 6. þm. Reykv. er þar í fararbroddi.

Þá er till. við 22. gr., LII, um það, að stj. sé heimilt að ábyrgjast allt að 10 þús. kr. lán fyrir Vestmannaeyjakaupstað, til þess að eignast hús fyrir gagnfræðaskólann. gegn þeim tryggingum, sem stj. metur gildar. Mér finnst ekki verða hjá því komizt, að Vestmannaeyjarkaupstaður verði eins og aðrir kaupstaðir eitthvað studdur til þess að koma upp húsi yfir gagnfræðaskólann. Skólinn hefir starfað í nokkur ár. Honum háir það allmikið, að hann hefir ekki viðunandi húsakynni. Bærinn á nú kost á að kaupa hús, sem er nú í eign Útvegsbankans þar í Eyjum. Húsið er að mörgu leyti mjög glæsilegt, en þarf talsvert að breyta því til þess, að það sé hæft fyrir skólahús, en þá gæti það líka orðið ágætt. Ég held, að eins og sakir standa, þá væri það heppilegri leið til þess að koma upp gagnfræðaskóla á þessum stað að hlaupið væri undir bagga með þessu bæjarfélagi með því að ábyrgjast lán í þessu skyni, svo að bærinn geti komizt yfir þetta hús, frekar en að verja fé í nýja byggingu.

Það eru nú tvær brtt. frá mér í prentun, en þar sem þær hafa ekki verið lagðar fram enn, þá læt ég bíða þar til síðar að minnast á þær.