23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Pétur Ottesen:

Það er virðingarvert, að meiri hl. allshn. hefir komið fram með þær brtt. við þetta frv. að rígbinda ekki hendur manna úti um byggðir landsins við eitt ákveðið fyrirkomulag á kosningu til hreppsnefnda og á kosningu sýslunefndarmanna. Ég álít heppilegt enda má segja, að það sé yfirleitt lítið svo á úti um byggðir landsins — að láta hreppsbúa hafa óbundnar hendur um það, með hvaða hætti kosningar fara fram. Nú er það svo í gildandi l. um þetta, að hrepparnir geta valið um það, hvort þeir viðhafa hlutfallskosningu, leynileg kosningu eða að kjósa opinberlega, eins og algengt er úti um sveitir landsins. Ég held, að það uppfylli bezt þá hugsjón, að láta borgara þjóðfélagsins hafa sem frjálsastar hendur um umráð mála sinna innan þess sviðs, sem takmarkast af löggjöfinni í þessu efni. Það liggja ekki fyrir Alþingi neinar óskir utan af landsbyggðinni um það, að farið sé að þrengja kosti þeirra um það, með hvaða hætti þeir eiga að kjósa. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er verið að apa eftir því fyrirkomulagi, sem búið er að lögfesta í kaupstöðum landsins og byggist á því, að engin kosning megi fara fram, nema eftir þeirri mælisnúru sem pólitíkin leggur á skoðanir manna og breytni í þeim efnum á hverjum tíma. Úti um sveitir landsins horfir þetta allt öðruvísi við. Þó að menn séu þar pólitískir eins og annarsstaðar, þá er það svo í mörgum stöðum, að menn leggja pólitíkina alveg til hliðar, þegar um það er að ræða að kjósa í hreppsnefnd eða að kjósa sýslunefndarmann, og velja menn með tilliti til þess, að sem bezt sé séð fyrir hagsmunum hvers hreppfélags, og kjósa því þá menn í hreppsnefnd, sem óhætt er að treysta til þess að bera uppi hagsmunamál hvers hrepps. Og það er ekki heppilegt að vera nokkuð að slá á það góða samkomulag, sem víða er í hreppum landsins um að miða kosningu slíkra manna einmitt við það, hvernig hagsmunum sveitarfélagsins sé á hverjum tíma bezt borgið, því það er vitanlega grundvöllurinn undir sjálfstæði hvers hreppsfélags, að sem tryggilegast sé búið um þá hnúta og að sem bezt sé farið með fjármál hvers hreppsfélags.

Ég er að því leyti ekki fyllilega sammála meiri hl. allshn., að hann hefir viljað einskorða þetta við það, að allar slíkar kosningar fari fram leynilega. Mér finnst engin ástæða til þess að svipta þau hreppsfélög, sem vilja viðhafa opinbera kosningu, réttinum til þess að hafa hana, og það því fremur, sem engar óskir liggja fyrir um það frá hreppunum að binda hendur þeirra í þessu efni. Ég verð að segja það, að ég er sammála meiri hl. allshn. um, að það sé þá ekki mikill vilji fyrir því að viðhafa hlutfallskosningu, ef ekki fæst 1/10 hluti kjósenda til þess að óska eftir slíkri kosningu, og þess vegna sé með því sæmilega séð fyrir því, að menn geti valið þessa aðferð, ef þeir annars álíta rétt að láta kosningu fara fram með þeim hætti.

Í till. n. er ákvæði, sem mér finnst ákaflega lítil ástæða fyrir, og það er að vera að breyta til um það, að kosning í hreppsnefnd skuli fara fram á sama degi og alþingiskosningar, síðasta sunnudag í júnímánuði. Eins og kunnugt er, þá hafa farið fram kosningar í hreppum landsins á hreppskilaþingum að vorlagi, en þau þing eru haldin í júní, 12.–21. júní, einhverntíma á því tímabili. Það er almennur samkomudagur hreppsbúa, og þá ræða þeir um sín mál, og er venjulega fjölmennt eftir kringumstæðum á slíkum fundum, og er þess vegna alveg tilvalið að láta hreppsnefndarkosningar fara fram við slík tækifæri. Þetta er því ekki annað en að stofna til erfiðleika í hreppunum, þar sem kosning á að fara fram hér um bil á sama tíma og hún fer fram nú. Það er því ekkert annað en að stofna til erfiðleika og fyrirhafnar fyrir menn, að fyrirmuna þeim að nota hinn almenna samkomudag í hreppunum til kosninga, og í stað þess að binda þetta þannig, að þeir verði að koma saman skömmu síðar til þess að láta fara fram hreppsnefndarkosningar. Ég vænti þess að það verði hægt að ná samkomulagi um að leyfa þessu ákvæði um að kosningar fari fram á hreppskilaþingi að haldast eins og verið hefir, af því að það er töluvert hagsmunaatriði, að það fái að haldast. Það er svo, að þetta ber upp á annatímann í sveitum landsins, og þar er vinnukraftur af svo skornum skammti, að það er ekki ástæða til þess að vera að þarflausu að gera mönnum erfiðara fyrir, eins og gert er með því að breyta út af gamalli venju í þessu efni.

Í till. n. er gert ráð fyrir því, að kosning á sýslunefndarmönnum fari fram á sama tíma og hreppsnefndarkosningar. Hér er því verið að breyta til með gamla venju, því að kosningar á sýslunefndarmönnum hafa farið fram á manntalsþingum, og er það gamla fyrirkomulagið, og ég held, að það liggi ekki fyrir neinar óskir um að breyta til í þessu efni, og þess vegna ástæðulaust í sjálfu sér að vera að gera nokkrar breyt. á þessu. En hinsvegar veldur það ekki litlum erfiðleikum fyrir sveitarfélögin, eins og t. d. breyt. á því, að nú skuli tekinn upp þessi nýi kjördagur, þar sem á að fara fram kosning í hreppsnefndir. Mér finnst það ástæðulaust að breyta til frá þessari gömlu venju, sem er komin á og engin óánægja er með. Mér finnst ástæðulaust, að löggjafinn rjúki upp til handa og fóta og breyti þessu þvert á móti vilja fólksins, þegar það liggur engin nauðsyn til grundvallar fyrir því.

Þá er tekið upp í 311. gr. frv. ákvæði um það, að sáttanefndarmenn skuli hér eftir kosnir af bæjarstjórnum og hreppsnefndum. Nú er það svo, að sáttanefndarmenn eru skipaðir, og auk þess er það svo, að sama sáttanefnd er fyrir fleiri en einn hrepp, og þess vegna á þetta ekki við um það fyrirkomulag, sem nú gildir í þessu efni. En hinsvegar er í hinni nýju löggjöf, sem hér liggur fyrir og hefir ekki náð lögfestingu enn, breyt. á þessu. Í frv. um meðferð einkamála í héraði er gert ráð fyrir, að hver hreppur og kaupstaður verði sáttaumdæmi út af fyrir sig, og er þetta þá miðað við þá löggjöf og getur átt við, eftir að hún hefir fengið lögfestingu. En á núv. fyrirkomulagi er tæplega hægt að byggja þetta um kosningu sáttanefndarmanna, nema sett séu sérstök ákvæði um það, að fleiri en ein hreppsnefnd geti tekið þátt í kosningu þessara manna.