23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jónas Guðmundsson:

Það voru fáein atriði, sérstaklega í ræðu hv. þm. Snæf., sem ég vil minnast á. Hann sagði, að við sósíalistar værum þess aðallega hvetjandi að innleiða hlutfallskosningar sem allra víðast. Það er alveg rétt. En hann sagði jafnframt, að við hefðum aldrei fært fyrir því nægilega skýr rök, hvers vegna við vildum þetta, og það er algerlega rangt. Við höfum fært skýr rök fyrir því, hvers vegna við viljum hafa hlutfallskosningar sem víðast, og þau eru í fáum orðum þessi:

Í fyrsta lagi fæst æfinlega miklu meiri þátttaka í hlutfallskosningum heldur en í öðrum kosningum, þar sem margir eiga að kjósa. Það er eðlilegt vegna þess, að langtum meiri agitation er, þegar stillt er upp ákveðnum mönnum, heldur en þegar enginn veit, hverja kjósa á, fyrr en komið er á kjörstað, og jafnvel ekki þá.

Í öðru lagi eru hlutfallskosningarnar réttlátasta kosningaraðferðin, sem við þekkjum og getum viðhaft.

Og í þriðja lagi er, að því er hreppsnefndar- og sýslunefndarkosningarnar snertir, langeðlilegast, að þessar tvær tegundir opinberra stofnana séu skipaðar á sem svipaðastan hátt og Alþingi er skipað, því þessar n. hafa með höndum svipað starf og sjálft Alþingi, aðeins á miklu takmarkaðra svæði. Þetta er aðalorsökin til þess, að við viljum viðhafa hlutfallskosningar alstaðar þar, sem hægt er að koma þeim við. Ég er á þeirri skoðun, að nota eigi hlutfallskosningu í öllum hreppum og kauptúnum landsins, og því felldi ég mig bezt við að fá frv. samþ. óbreytt. Þá fyrst mundi fást verulegt samræmi í allar kosningar í landinu. Náttúrlega yrði þetta dálítið kátlegt í ákaflega litlum hreppsfélögum, að stilla upp listum og viðhafa hlutfallskosningu, en ekki kátlegra heldur en opinberu kosningarnar eru sumstaðar orðnar. Hvað, kosning er það, þó 10 til 20 bændur komi saman og kjósi 6 til 7 menn í hreppsnefnd fyrir 200 til 300 hreppsbúa? Það er enginn almennur kjósendavilji á bak við slíka hreppsnefnd, og kosningin yrði varla hlægilegri í minnstu hreppunum, þar sem kjósa á þrjá fulltrúa, þó stillt væri upp mönnum og viðhöfð listakosning. Flest l. verða þannig við yztu takmörk dálítið undarleg.

Ég er sammála hv. meiri hl. um það, að opinberar kosningar er sjálfsagt að banna með öllu og hafa allar kosningar leynilegar. En þeir hafa ekki leyst þau vandræði, sem hv. þm. A.-Húnv. benti á, að með þeirri kosningatilhögun, sem gert er ráð fyrir í till. á þskj. 192, er tæplega hægt að hugsa sér, að réttir varamenn komi í staðinn fyrir þá aðalmenn, sem forfallast kunna. Eða þar sem ekki er kosið eftir flokkum, heldur eingöngu eftir mönnum, hvaða varamaður á þá að koma í staðinn fyrir þennan og hinn aðalmann? Hv. 2. þm. N.-M. vili láta varamennina koma inn eftir atkvæðamagni, og virðist það liggja næst, þegar ekkert mark er hægt að setja á menn. Þetta er allt annað heldur en þegar hlutfallskosningar eru viðhafðar og hver listi fær sína varamenn. En það kemur alltaf betur og betur í ljós, að það það að hafa varamenn í hreppsnefndum. Á fjórum árum verða það miklar breyt., að nauðsynlegt er, að ekki þurfi að efna til kosninga í hvert sinn, er hreppsnefndarmaður flytur burt, deyr eða forfallast á annan hátt. Ef hv. meiri hl. allshn. gæti bent mér á möguleika á því að setja inn varamenn af einhverju viti með þessari kosningaraðferð, sem hann vill viðhafa og leyfileg hefir verið undanfarandi ár, væri ég ekki fjarri því, að þetta væri sem millibilsástand sæmilega heppileg lausn á málinu, þótt ég hinsvegar sé sannfærður um, að ekki líða mörg ár, ef flokkaskiptingin heldur áfram að vera grundvöllur kosninga í landinu, þangað til krafa kemur um það, að eingöngu hlutfallskosningar séu viðhafðar við sveitarstjórnarkosningar.

Svo er eitt atriði, sem mér finnst, að ætti að taka alveg skarið af um í þessum l., og það er, eins og hv. þm. Snæf. minntist á í fyrstu ræðu sinni, hvað átt er við með hugtakinu „kauptún, sem er sérstakt hreppsfélag“. Mega vera einn til tveir bæir utan kauptúnsins, eða mega þeir vera 10? Þetta atriði þarf að taka af skarið um í einhverjum lögum, svo við hugtakið sé hægt að miða annarsstaðar, og finnst mér, að annað verði ekki lagt til grundvallar en fólksfjöldinn. Ef við skulum segja 2/3 hl. hreppsbúa eru búsettir í kauptúni, þá sé hreppsfélagið talið kauptún, þó því fylgi nokkrar jarðir, þar sem landbúnaður er rekinn. Ég held, að t. d. Akranesi fylgi ein eða tvær sveitajarðir. Dettur nokkrum í hug, að Akranes sé ekki þrátt fyrir það kauptún? En eftir till. hv. 2. þm. N.-M. skilst mér, að það mætti líta svo á, af því ekkert er tiltekið um hvernig þarf að haga til til þess, að kauptún teljist sérstakur hreppur. Aftur virðast þeir, sem flytja brtt. á þskj. 192, líta svo á, að það sé kauptún, þar sem 3/4 af hreppsbúum búa í kauptúninu; a. m. k. ætlast þeir til, að þau hreppsfélög þurfi ekki að koma undir ákvæðið um kjördag síðasta sunnudag í júní. Ég vildi skjóta því bæði til meiri og minni hl. hv. allshn., hvort þeir telja ekki rétt að setja eitthvað ákveðið um þetta í l. sjálf, hvað margir mega vera búsettir utan sjálfs kauptúnsins til þess, að hreppsfélagið í heild teljist kauptún, en ekki hreppur. Þessu atriði er nauðsynlegt að slá föstu í einhverjum lögum, og ætti þá vel við, að það væri einmitt í þessum, þar sem gert er ráð fyrir mismunandi kosningafyrirkomulagi eftir því, hvort sveitarfélagið er talið hreppur eða kauptún. Ég gæti bezt fellt mig við að binda þetta við 2/3 íbúa. Þá mundu flestöll hreppsfélög á landinu, þar sem á annað borð eru stærri kauptún, teljast til kauptúna, og þar ætti að vera skilyrðislaus skylda að viðhafa hlutfallskosningar, en ekki þurfa að sækja um lyfi til þess í hvert skipti, en leynileg kosning að vera fyrirskipuð í sveitunum, eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 192. Þó finnst mér þá vanta á að finna leið til þess, að varamennirnir komi inn á réttan hátt. Það er ekki sama, hvaða varamaður kemur fyrir hvern aðalmann; a. m. k. væri það ekki tekið gilt í kaupstöðunum, að fyrir aðalfulltrúa í bæjarstjórn kæmi varamaður úr allt öðrum flokki og með allt aðra afstöðu í málefnum bæjarfélagsins.

Sýslunefndarmennina finnst mér sjálfsagt, að hreppsnefndirnar kjósi, en ekki almennir hreppsfundir, sem e. t. v. koma ekki á nema fáeinar sálir. Ég veit um eitt tilfelli, þar sem komu 35 menn til að kjósa sýslunefndarmann, en sá, sem hlaut löglega kosningu, fékk ekki nema 5 atkv.; hin atkv. dreifðust á hina og þessa. Það er komin svo mikil ringulreið á þessar opinberu kosningar, að það á að hætta við þær; þar eru orðnar gamlar og úreltar. Og ég sé ekki annan aðilja heppilegri til að velja sýslunefndarmann heldur en hreppsnefndina; hann fer oftast með hennar umboð og fjallar um mál, sem hana snerta.