24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jónas Guðmundsson:

Í umr., sem fóru fram um þetta mál hér í d. í gær, var talsvert beinzt að mér og því, sem ég hafði sagt, sérstaklega af hv. 7. landsk. og hv. þm. V.-Sk., og skal ég nú víkja nokkrum orðum að þeim til andsvara.

Hv. 7. landsk. taldi það hlutfallskosningum til foráttu, að þær mundu skapa meiri óvild á milli þeirra manna, sem ættu að vinna saman í sveitarstjórn, og leiða til flokkadráttar í sveitamálum. En þetta er hinn mesti misskilningur. Það er alls ekki meiri óvild ríkjandi á meðal andstæðra flokksmanna í bæjarstjórnum, þar sem fulltrúar eru kosnir samkvæmt hlutfallskosningu, heldur en í hreppsnefndum, þar sem fulltrúar eru kosnir eftir núverandi fyrirkomulagi. Og hlutfallskosningar hafa þann stóra kost, að kjósendur bera ábyrgð á þeim fulltrúum, sem þeir hafa sjálfir valið samkvæmt listakosningu og standa því á bak við þá.

En um hina er það að segja, sem kosnir eru í þessar stj. án þess að þeir tilheyri neinum ákveðnum flokki í bæjar- eða þjóðfélaginu, að á þeim ber enginn ábyrgð og enginn tekur málstað þeirra af flokkslegri þörf. En flestöll mál í bæjar- og sveitarfélógum eru einmitt rædd eftir hinum flokkslegu sjónarmiðum á hverjum tíma. Þess vegna er það alveg rangt að mínu áliti, að hlutfallskosning skapi meiri óvild en aðrar kosningaraðferðir.

Þá minntust báðir hv. þm. á það, að ég, sem vildi flagga með því, að ég væri lýðræðismaður, skyldi vilja afnema það skipulag að kjósa sýslun. eins og nú, að fólkið veldi sjálft; en ég vil, að hreppsnefndir kjósi. Þeir töldu slíkt ekki geta samrýmzt skoðun minni og míns flokks, að einhver slík klíka veldi þessa menn. Ég er í sjálfu sér ekki á móti því, að fólkið kjósi mennina í sýslun. En það er ekki fólkið almennt, sem kýs þá nú. Þeir eru kosnir á mjög fámennum fundum, þar sem ekki er nándar nærri helmingur kjósenda viðstaddur. Það koma nokkrir bændur, sem eiga heimangengt, þegar fundurinn er, en allur þorri fólksins situr heima.

Hv. þm. tóku alþingiskosningar til samanburðar, eins og þar sé nokkuð líku saman að jafna. Að þeim standa fyrst og fremst ákveðnir frambjóðendur, og má ekki um aðra velja. Við sýslunefndarkosningar má kjósa hvern, sem hefir kosningarrétt, og engum þarf upp að stilla. Í öðru lagi er það, að að hverjum einasta frambjóðanda — a. m. k. oftastnær — stendur ákveðinn stjórnmálaflokkur, stór eða lítill, sem meira eða minna vinnur að kosningu frambjóðandans. Í þriðja lagi er kosning á þm. leynileg, en kosning þessara fulltrúa opinber, þannig að hver segir upphátt, hvern hann kjósi. Munurinn á þessum tvennum kosningum er svo mikill, að þeim er á engan hátt saman jafnandi.

Ég tel hinsvegar, að starfssvið sýslunefnda sé svo nátengt starfssviði hreppsnefnda, þar sem sýslunefndir eru í flestum greinum einskonar yfirstjórnir hreppsnefnda, að það ætti blátt áfram að skipa sýslunefndir oddvitum hreppanna og engum öðrum. Væru þeir sjálfkjörnir sýslunefndarmenn, álít ég að mörgu leyti miklu heppilegri skipun á þessum málum en nú er. Sýslunefndarmaður getur verið mjög svo á móti hreppsnefndinni í sínum eigin hreppi og blátt áfram unnið hreppnum tjón af þeim orsökum. En hreppsnefndum er vitanlega mjög nauðsynlegt, að sýslunefndarmenn séu fyrst og fremst fulltrúar þeirra í sýslunefnd. Fjármál sveitarinnar byggist í flestum tilfellum aðallega á því fé, sem hreppsnefnd er gert að jafna niður, innheimta og standa skil á til sýslunefndar. Önnur mál sýslunefndar snerta hvert hreppsfélag, og því er mjög nauðsynlegt, að samvinna á milli sýslunefndar og hreppsnefndar sé góð.

Þá hefir hv. þm. V.-Sk. sennilega misskilið það, sem ég sagði um kauptún sem sérstakt hreppsfélag. Ég sagði, að mjög nauðsynlegt væri að slá föstu í l., hvernig ætti að fara um þessi kauptún yfirleitt, hvað ætti að telja kauptún og hvað hrepp. Það er alveg rétt, að þetta er skýrt afmarkað hugtak í íslenzkri löggjöf: kauptún, sem er sérstakt hreppsfélag. Það er það, sem hefir náð 300 íbúum og skilið sig frá hrepp. En hér á landi eru mörg kauptún, sem eru ekki sérstakt hreppsfélag á þennan hátt, en þar sem svo yfirgnæfandi meiri hl. fólksins er í kauptúninu, að það er ekki lengur hreppur í venjulegum skilningi, heldur kauptún. Ef t. d. till. hv. 2. þm. N.-M., sem útbýtt var áðan, yrði samþ., þar sem stendur, að bæjarstjórnir í bæjum og hreppsnefndir í kauptúnum, sem eru sérstök hreppsfélög, skuli kjósa hlutfallskosningu, þá þýðir það, að í þeim kauptúnum, sem hafa skilið sig frá hreppnum og eru því kauptún sem sérstakt hreppsfélag, þar skal kjósa á þennan hátt, en í þeim kauptúnum, sem ekki hafa enn skilið sig frá og eru ennþá hreppar, en þar sem yfirgnæfandi meiri hl. hreppsbúa er í sjálfu kauptúninu, þar á ekki að kjósa á þennan hátt.

Ég vil taka tvö dæmi, Borgarnes og Keflavík. Í Keflavík eru 1154 íbúar, en ekki er þar um sérstakt hreppsfélag að ræða, því að auk þorpsins eru 17 jarðir í hreppnum. Keflavík fellur því ekki undir þetta, eitt allra stærsta kauptún landsins. En Borgarnes með sína 488 íbúa er kauptún sem sérstakur hreppur, og þess vegna ætti þar að vera hlutfallskosning. (GSv: Þeir geta alltaf mynduð hreppsfélag í Keflavík). Keflavík fer ekki að mynda hreppsfélag til þess að komast undir þessi ákvæði.

Ég held fram, að í kauptúnum, þar sem allur þorri hreppsbúa er búsettur, þó að fylgi nokkrar jarðir, eigi að gilda sama regla og í kauptúnum, sem eru sérstakt hreppsfélag. (BÁ: Það fylgir ein jörð Borgarnesi). Fylgir ein jörð? Ekki er þó í jarðamatinu talað nema um kauptúnið.

Sama gildir um mörg fleiri kauptún en Keflavík, t. d. Ólafsfjörð og Stykkishólm. Í þeirri brtt., sem hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv. flytja á þskj. 203, er nú alveg skýrt tekið til, að þar sem fullir 2/3 kjósenda eru í kauptúni, skuli viðhafa hlutfallskosningu. Ég er sannfærður um, að kauptúnin, enda þótt ekki séu sérstakt hreppsfélag, óska eftir þessari breyt. Enda eru þau langt um líkari í öllu eðli sínu kaupstöðum en sveitum.

Í danskri löggjöf er greinileg, tekið tillit til þessa, sem ég veit, að hv. þm. V.-Sk. er kunnugt, því að bæði í kosningalögum og öðrum 1. er talað um „Köbstæder og bymæssige Bebyggelser paa Landet“. Þetta er eins og í Keflavík, Ólafsfirði og Stykkishólmi og víðar, þar sem langflest fólkið býr á mjög litlum stað. Þennan greinarmun er því nauðsynlegt að gera einnig hjá okkur. Þess vegna vil ég skjóta því til hv. þdm.samþ. brtt. á þskj. 203.

Þá er ennfremur nauðsynlegt að ná því með þessum l. að dómi meiri hl. n., að í sveit geti haldið áfram að fara fram kosningar aðrar en hlutfallskosningar, ef fólkið vill; þó að ég fyrir mitt leyti sé alveg sammála hv. þm. V.-Húnv., þar sem við viljum báðir — skildist mér á hans ágætu ræðu — stefna að því að gera allt að tómum hlutfallskosningum, og vænti ég, að hann styðji það rækilega. (HannJ: Þvert á móti!). Ég get verið svo lítilþægur að leyfa, að ennþá sé reynt um nokkur ár í sveit að kjósa leynilegri kosningu til hreppsnefndar á miða, eins og gert hefir verið. Og ákaflega geri ég lítið úr því, sem þm. sagði, að ómögulegt sé að fá svo stóra miða, að hægt sé að kjósa alla þessa menn. Hann ætti að sjá miðana hér í Rvík, þeir eru ekkert smásmíði. Enginn vandi er að fá þessa miða. — Ég skildi nú alla ræðu hv. þm. svo, að hann liti á eins og ég, að um það eitt væri að gera að koma á hlutfallskosningu allsstaðar á landinu, og ég er honum alveg sammála um það.

Stefna þessa frv. er nú alveg greinileg. Sú í fyrsta lagi að afnema hinar opinberu kosningar, því að þær eru heldur ekkert annað en skrípaleikur, þegar litið er á það, hvað kosning á að þýða. Og um það er öll allshn. sammála, að hér eftir skuli ekki fara fram opinberar kosningar til hreppsnefnda, heldur skuli þær leynilegar vera; okkur greinir aðeins á um, hvar takmörkin milli hlutfallskosninga og annara leynilegra kosninga skuli liggja. Hinsvegar er í till. tryggt, að hreppar úti á landsbyggð, þar sem ekki er kauptún, geti haft hlutfallskosningar, ef þeir vilja, og þarf ekki nema 1/10 af kjósendum til þess að heimta slíkt. Er það mjög svo frjálslegt ákvæði, og að mínum dómi rétt, fyrst ekki getur þegar í stað fengizt allsherjar samkomulag um að breyta öllu í hlutfallskosningar. Í öðru lagi tel ég það bragarbót, að eftir frv. má kjósa alla hreppsnefnd í einu, eins og á sér stað um kosning til bæjarstj. og Alþingis.

Í þriðja lagi miðar frv. að því — eins og það liggur fyrir — að meira samstarf verði milli hinna einstöku nefnd, og fulltrúa en átt hefir sér stað hingað til. Þessi þrjú atriði eru aðalatriði frv., og þau stefna öll í lýðræðisátt, og mjög til bóta frá því, sem verið hefir.

Ég man ekki eftir, að það sé fleira, sem ég þarf að segja. Ég tel ekki rétt að fara að deila nú við hv. þm. Snæf. um hlutfallskosningar og hvernig Alþfl. hefir í einstökum tilfellum notað þær. Ég mun geyma mér það.