24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Ég ætlaði eiginlega að svara hv. þm. V.-Húnv., en ég sé ekki, hvar hann er, en vel má vera, að stólarnir skyggi á hann. Ætla ég að svara einu efnisatriði í ræðu hans. Honum fannst hjákátlegt, að kjörskrá, sem er samin í febr., skyldi eiga að gilda fyrir kosningar, sem fram eiga að fara í janúar. Ég hefi áður bent á, að þetta er gert til þess að spara vinnuafl. Það á að semja kjörskrá til Alþingis í febr. Hv. þm. hefir gleymt því, að kjörskrá, sem samin er í jan., gildir við kosningar í júní, og það er vitanlega hægðarleikur að leiðrétta kjörskrá á þessu tímabili í kaupstöðunum. Hv. þm. sagði, að hann hefði aðeins komið með sjálfsagða aths. Ræða hans var að mestu leyti gorgeir og órökstuddar dylgjur. Hann leyfði sér, þessi stubbur, að bera á meiri hl. allshn., að hann bæri fram brtt. gegn betri vitund. Hv. þm. sagði, að við værum með hlutfallskosningum, en þyrðum ekki vegna kjósendanna að koma fram með þær. Þetta kallar hv. þm. sjálfsagða aths., en svo verður hann svo reiður, að hann tútnar, þegar honum er bent á, hvernig hann hagar orðum sínum. Hv. þm. talaði um uppskafningshátt. Ég ætla að minna hann á, þennan hv. þm., sem þykist vera kosinn á þing til þess að flytja áhugamál bænda, hvernig hann hefir reynzt þeim hér á þingi í einu stærsta hagsmunamáli fyrir sveitirnar, nfl. að sporna við því, að teknar væru upp atvinnuleysistryggingar í kaupstöðum. Hv. þm. hefir gleymt, að fyrir einn lítinn vegarspotta í sínu kjördæmi seldi hann sig sósíalistum og kom fram atvinnuleysistryggingunum. Þannig gleymdi hann gersamlega skyldum sínum. Ég vil segja þessum hv. þm., að hann ætti aldrei að minnast á uppskafningshátt. Hann segist vera að flytja málefni Bændafl. Hann gerði það laglega við þetta tækifæri. Þessi hv. þm. er kominn á þing fyrir velvild sjálfstæðismanna í héraði, en kom með „doríu“ aftan í sér, sem var svo þung, að hún sökkti sjálfu „móðurskipinu“. Kjarninn í ræðu hv. þm. var í rauninni ekki annar en sá, að hann vildi stíga sporið til fulls, sem sé að falla alveg í faðm sósíalista og taka upp þeirra áhugamál. — Ég þykist svo hafa gengið frá þessum hv. þm.

Mér þykir leiðinlegra að þurfa að deila við hv. þm. Borgf., enda hefir hv. 6. landsk. svarað honum að mestu leyti. Hv. þm. sagði, að þetta fyrirkomulag með opinberar kosningar hefði reynzt vel í sveitum. Það getur verið, að reynsla þessa hv. þm. hafi bent til þess, en ég hefi margar fregnir af því, og hefi meira að segja verið viðstaddur slíka kosningu, og ég gat ekki betur séð en að hún væri hreinasti skrípaleikur, og fyrst þessi hv. þm. hefir verið samþykkur leynilegum kosningum til Alþingis og í bæjarstjórnir, því vill hann þá ekki einnig hafa þær við kosningar í hreppsnefndir? (PO: Það er heimilt). Já það er heimilt, en erfitt að koma því í framkvæmd. Út af því, að hv. þm. Borgf. er að álasa okkur í meiri hl. allshn. fyrir að við höfum breytt um stefnu síðan í fyrra, vil ég í allri vinsemd vekja athygli hv. þm. á því, að það er hann, en ekki við, sem hefir breytt um stefnu í þessu máli, því að á síðasta þingi bar þessi hv. þm. ásamt hv. 2. þm. N.-M. fram brtt. á þskj. 241, um það, að hreppsnefndarkosningar skyldu fara fram síðasta sunnudag í maí, en nú ræðst hann á okkur með óbótaskömmum, af því að við viljum ekki láta kosningarnar fara fram á vor hreppaskilaþingi. Þannig hefir hv. þm. breytt um stefnu síðan í fyrra. Ég vil benda hv. þm. á, að í 8. gr. gildandi laga um kosningar í málefnum sveitar- og bæjarfélaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Kosningar í hreppsnefnd skulu fara fram á vorhreppaskilaþingi.“ Þessu vildi hv. þm. breyta í fyrra, en nú ekki. Þess vegna hefir hann haft skoðanaskipti. Situr því illa á honum að ásaka aðra um stefnubreytingu, þegar um enga stefnubreytingu er að ræða.

Þessar umr. eru orðnar langar og ekki allar uppbyggilegar. En það er þegar ljóst orðið, hvaða stefnur koma fram í þessu máli. Á einu leitinu er stefna afturhaldsins, eins og hjá hv. þm. V.-Húnv., sem engu vill breyta, á öðru leitinu er stefna sósíalista, sem öllu vilja breyta, og á þriðja leitinu er stefna allshn., sem vill breyta því, sem illa hefir reynzt, en ekki hinu.