24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Pétur Ottesen:

Það var leiðinlegt, að hv. þm. Snæf. skyldi ekki geta náð til mín með öðru móti en því að reyna að kasta hjúp yfir sína eigin till., sem ég hefi haldið fram, að sé rétt, nfl. að eftir hans till. ættu kosningarnar að fara fram á hreppaskilaþingi. Nú ætlast hann til með sinni brtt., að hreppsnefndarkosningar fari fram á öðrum tíma en löglegt er og tiltækilegt, að vorhreppaskil fari fram á, og auk þess er það tekið fram í löggjöfinni, að hreppaskilaþing eigi að fara fram á rúmhelgum degi, en hann vill láta þær fara fram á helgum degi. Okkur ber þarna á milli um það, að ég tel rétt að láta kosningarnar fara fram einmitt á þeim tilkjörna vorhreppaskilaþingdegi, en hann vill velja til þess annan dag eftir vorhreppaskilaþing. En það er vitanlega ekkert vit í því. Eigi á annað borð að fara að breyta eitthvað til, þá er nær að fara eftir þeirri till., sem ég flutti í fyrra ásamt öðrum hv. þm., um að hreppsnefndarkosningar skuli fara fram hæfilegum tíma fyrir vorhreppaskilaþing. Hv. þm. hefir nú ekki einu sinni hitt á að haga þessu svo með tilliti til vorhreppaskilaþinganna og þýðingu þeirra að öðru leyti.