15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Allshn. hefir tekið þetta mál til nýrrar yfirvegunar og orðið ásátt um að bera fram þær brtt., sem eru á þskj. 327. Sú fyrsta er um kjördaginn, og er við 4. gr. Það er ákveðið þar, að allar bæjarstjórnar- og hreppsnefndarkosningar í þeim hreppum, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru búsettir í kaupstað, fari fram síðasta sunnudag í janúar, en aðrar hreppsnefndarkosningar síðasta sunnudag í júní. Ég vil geta þess, að það hefir misritazt maí- í stað júnímánuður, og er verið að prenta þær upp. Eins og öllum hv. dm. er kunnugt, komst sú breyt. inn við 2. umr., að svo var ákveðið í 17. gr., að bæjarstjórnir og hreppsnefndir í þeim kauptúnum, sem eru sérstakt hreppsfélag, skyldi kjósa hlutfallskosningum. Við teljum ekki þessi takmörk eðlileg, þar sem slíkt mundi leiða til þess, að hlutfallskosningar yrðu viðhafðar í sumum hinna minni kauptúna, sem eru sérstakt hreppsfélag, en hinsvegar ekki í stærri kauptúnunum, sem engu síður er í rauninni ástæða til að viðhafa hlutfallskosningu i, þar sem svo er ástatt, að í allflestum hinna stærri kauptúna er flokkaskiptingin orðin greinileg í hreppsmálefnum engu síður en landsmálefnum almennt. Fyrir því viljum við láta breyta 17. gr. í það horf, að hlutfallskosningar verði viðhafðar í öllum þeim hreppum, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru búsettir í kaupstað, en láta svo ennfremur haldast heimildina fyrir 1/10 hl. kjósendanna til þess að krefjast hlutfallskosninga. Við viljum þó takmarka heimildina við það, að það sé nóg, að 25 kjósendur krefjist þess. Það stendur í brtt. 20, en það hefir misprentazt og verður leiðrétt í endurprentuninni. — Þá er 3. brtt. n., sem er um það, að 21 dagur eigi að vera nægilegur framboðsfrestur, en ekki 28, eins og gert er ráð fyrir nú í frv. Þar sem kosningarnar fara fram síðasta sunnudag í janúar, teljum við nægilegt, að listum sé skilað eftir áramót, en þurfi ekki að ganga frá þeim fyrir áramót. — 4. brtt. er nánast leiðrétting, því að frv. var upphaflega þannig samið, að það var gengið út frá því, að það yrðu allsstaðar hlutfallskosningar, og því talað almennt um umboðsmenn við kosningar, en það er vitanlegt, að þegar kosningin er óhlutbundin, er ekki hægt að koma við að hafa umboðsmenn, því að þá eru í rauninni allir kjósendurnir í kjöri, en enginn sérstakur. — 5. brtt. er einnig leiðrétting. Það hafði gleymzt hjá þeim, sem samið hafa frv., að vitna til breyt. á l. nr. 59 frá 1929, síðari málsgr., og hefir n. nú gert það. — Ég ætla ekki að svo stöddu að ræða hinar aðrar brtt., sem fram eru komnar, að undantekinni brtt. á þskj. 260, sem 1. flm. hefir gert nokkra grein fyrir. Ég sé ekki betur en að eftir þessum brtt. n. um hlutfallskosningar og kjördag þá geti þeir flm. tekið aftur sínar fyrstu brtt. En um hinar vil ég segja það, að ég tel þær óþarfar og aðeins röskun á kaflaskiptingu og niðurröðun efnisins.