15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Gísli Guðmundsson:

Ég þykist nú sjá á undirtektum hv. þm. A.-Húnv., að sennilega getur orðið samkomulag um brtt. á þskj. 282 og brtt. á þskj. 326 viðvíkjandi fyrirkomulagi kjörseðlanna. En það eru náttúrlega þar atriði, sem hefðu þurft nánari athugunar við, og fyrir mitt leyti hefði ég helzt viljað óska, að málinu verði frestað til næsta dags. Annars er þetta spursmál um kosningu varamannanna talsvert erfitt viðfangs. Við flutningsmenn brtt. 282 létum það fyrirkomulag haldast, sem samþykkt var við 2. umr., að kjósa aðalmenn sér og varamenn út af fyrir sig í einu, en þó í sama kjörseðli. En ég viðurkenni, að það er alveg rétt, sem hv. þm. A.-Húnv. segir og hv. 2. þm. N.-M. benti hér á við 2. umr., að þetta er dálítið andkannalegt að því leyti, að vitanlega getur farið svo, að sami maður verði kosinn bæði sem aðalmaður og varamaður, og verði menn í nokkrum vanda um það, hverja þeir eigi að kjósa sem aðalmenn og hverja sem varamenn. Auðvitað kemur ekki til greina um árekstur við sjálf úrslitin, vegna þess að ákveðið er í frv., að aðalmenn skuli taldir fyrst, og úrskurðar það um aðalmennina. Hinir koma ekki til greina, sem kosnir eru sem varamenn; en þetta er þó dálítið erfitt viðfangs, og það hefir enginn viljað koma fram með till. um það, að varamenn yrðu þeir, sem næstflest fengju atkv., en náttúrlega væri það hugsanlegt fyrirkomulag. Ég get ekki í sjálfu sér séð, að það myndi þurfa að verða verulega til tjóns, eða hafa í för með sér úrslit, sem færu í bága við það, sem lögin stefna að, vegna þess að þessi kosningaaðferð, að kjósa óhlutbundið, myndi aðallega og líklega eingöngu koma til greina í þeim hreppum, þar sem tiltölulega lítill ágreiningur væri um flokka, en kosið eftir persónulegu trausti á mönnum. (GSv: Kom brtt. við 2. umr. um þetta?). Ég man nú ekki eftir því.

Annars vildi ég óska, að forseti sæi sér fært að fresta málinu um einn dag, til þess að þeir, sem að till. standa, geti rætt um þetta. Till. á þskj. 326 kom ekki fram fyrr en nú á fundinum, og þess vegna var ekki tækifæri til þess að ræða um þetta á undan. En sé nú ekki um að ræða að fresta málinu, tel ég aðgengilegra að samþykkja till. okkar á þskj. 282, vegna þess að hún er ýtarlegar orðuð. Því að það er ekki gerlegt fyrirkomulag, að skrifa nöfn mannanna einungis. Heimilisfangið verður að fylgja.