15.04.1936
Neðri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Hannes Jónsson:

Mér finnst koma æ betur og betur í ljós, hversu mjög er hér flanað að breyt. á þessum lögum, án þess að nokkur nauðsyn reki til.

Eins og nú háttar, er trygging fyrir því, að í hreppsnefndum sitji ávallt kunnugir menn, sem geta leiðbeint þeim nýju. Þessu öryggi er nú kippt burtu með því að láta kjósa alla hreppsnefndarmenn í einu. Þetta getur orðið til þess, að hreppsnefnd verði næstum eingöngu eða eingöngu skipuð ókunnugum og óvönum mönnum. Þessi breyting ein út af fyrir sig getur því orðið til mikils spillis.

Það sést bezt á þeim mörgu brtt., sem fram eru komnar, hve mjög vantar á það, að málið sé komið í viðunanlegan búning á þessu millistigi frá því fyrirkomulagi, sem nú er, og til algerðra hlutfallskosninga, eins og sósíalistar vilja. Mér finnst með frv. óhjákvæmilega stefnt í þá átt, sem hv. 6. landsk. ætlast til, enda sér það á, að hann er ánægður, því að hann tekur sínar brtt. aftur, er brtt. allshn. koma fram. Vera má þó, að allshn. stigi það spor, sem hún er að stíga með brtt. sínum, óviljandi og sjái ekki fyrir afleiðingarnar.

Mér þykir það miður, að hv. þm. A.-Húnv. skuli hafa með 1. brtt. sinni kippt því burtu úr frv., sem var til bóta, að kjósandi geti neytt kosningarréttar síns í hvaða kjördeild hreppsins sem er, þegar um fleiri en eina er að ræða, til þess að aðgangur að kosningunni verði greiðari en ella. Það er í anda lýðræðisins að gera mönnum sem léttast fyrir um að neyta kosningarréttar síns. En þessi brtt. fer í öfuga átt.

Þá sýnist mér, að ákvæði 5. brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. komi í bága við ákvæði XVI. kafla, um sýslunefndarkosningar. Þar er sagt, að kosning skuli fara fram á sama tíma og kosið er til hreppsnefndar og vera stjórnað af sömu kjörstjórn. Það getur þó varla verið meining hv. þm. A.-Húnv., að sýslunefnd sé kosin á einum stað, en hreppsnefnd ef til vill á þremur undir sömu kjörstjórn. Og hvernig á að lesa upp nöfn aðalmanna og kjósa varamenn þegar á eftir, ef kosið er í mörgum kjördeildum? Það er auðséð, að hv. þm. A.-Húnv. hefir hér ekki hugsað sér nema eina kjördeild.

Þetta og fleira sýnir, að það er ekki ástæðulaust að fresta málinu, svo að hægt sé að gera kosninguna sjálfa svo úr garði með þessu viðrinisfyrirkomulagi, að hún sé framkvæmanleg. En ef það tekst ekki, held ég væri eins gott fyrir þá góðu menn, sem að frv. standa, að stíga sporið fullt og gangast inn á stefnu sósíalista um algerðar hlutfallskosningar. Ég vil þó taka það fram, að ég er gersamlega andvígur þeirri aðferð, og svo veit ég, að er um flest eða öll sveitarfélög. Áhugi fyrir breyt. í þessu efni er ekki til í sveitunum; hann er kominn annarsstaðar frá og stefnir ekki að því að gera kosningarnar eðlilegri eða réttlátari. Þetta er „fabrikerað“ í pólitískum tilgangi í bæjunum, til þess að sósíalistar geti fengið fylgi sitt úti um landið „konstaterað“. En ég álít, að Alþingi ætti ekki að vera að hlaupa eftir slíkum goluþyt. Ég legg því til, að málinu sé frestað og það fái að hvíla sig milli þinga, svo að tækifæri gefist til að koma með rækilegar till. um breytingar. Ættu þær að geta verið stuðningur fyrir næsta Alþingi til þess að byggja á álit sitt.