06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

1. mál, fjárlög 1937

*Guðbrandur Ísberg:

Ég á nokkrar brtt. við fjárlfrv. við þessa umr. Hin fyrsta er á þskj. 547. XIX, og er við brtt. fjvn. á þskj. 5112, 73, þar sem lagt er til, að nokkrum fyrrv. ljósmæðrum verði veitt 200 kr. eftirlaun hverri fyrir sig. Í viðbót við þær ljósmæður, sem þar eru taldir, legg ég til, að tekin verðin upp eftirlaun til Ólínu Sigurðardóttur frá Skagaströnd, en kona sú lét af starfi síðastliðið vor eftir 33 ára þjónustu í erfiðu héraði. Af einhverjum ástæðum, sem mér eru ekki kunnar, hefir ljósmóðir þessi ekki verið tekin upp með öðrum ljósmæðrum, sem látið hafa af störfum sínum; lá þó fyrir bréf um hana í stjórnarráðinu. Í þessu sambandi vil ég benda á, að samkvæmt 5. nr. laga um laun ljósmæðra, frá 1927, er skylt að greiða ljósmæðrum eftirlaun, ef sýslunefndir ákveða að greiða þeim eftirlaun fyrir sitt leyti, og sé hluti ríkissjóðs 2 á móti 1 frá sýslusjóði. Nú er það svo, að á síðasta sýslufundi Húnavatnssýsla var ákveðið, að sýslan greiddi konu þessari að sínu leyti 150 kr. í eftirlaun, og fannst það sanngjarnt miðað við þjónustutíma, og erfiði. Ég hefi þó ekki lagt til, að hún fengi meira en 200 kr. úr ríkissjóði, því að ég hefi ekki viljað fara hærra með eftirlaun hennar en hinna annara ljósmæðra, sem taldar eru upp brtt. hv. fjvn., enda þótt hún hafi lengri starfstíma en sumar þeirra að minnsta kosti. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta atriði, því að það hlýtur að hafa verið fyrir gleymsku, að kona þessi var ekki tekin upp með hinum.

Þá á ég brtt. á þskj. 519, XXVI, við 15. gr. Þar er lagt til að orða um 41. lið gr., sem felur í sér 1000 kr. fjárveit. til Bjarna Björnssonar gamanleikara. Þetta vil ég orða á þann veg, að fé þetta sé veitt þessum manni til listiðkana, enda mæli menntamálaráð með styrkveitingunni. Eins og kunnugt er, þá lá till. þessi fyrir við 2. umr., og gerði ég þá fyrirspurn um það, hvort maður þessi væri skáld eða listamaður eða þá hvorttveggja. Ég hafði ekki heyrt, að hann væri neitt af þessu, og hefi ekki heldur fengið neinar upplýsingar um þetta, þrátt fyrir fyrirspurn mína, og því er það, að ég legg það til, að fé þetta sé því aðeins veitt, að menntamálaráð mæli með því. Aftur á móti er mér tjáð, að maður þessi sé á bezta aldri og með öllu ómagalaus, svo að þeirra hluta vegna er ekki þörf á að veita honum þennan styrk. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég taka það fram, að till. þessi er ekki borin fram af rætni til mannsins eða til þess að henda gaman að þessu. Ég þekki manninn ekki neitt og ber því till. fram í fyllstu alvöru, og krefst þess meira að segja að fá nafnakall um hana. Það hefir þótt við brenna að komið væri inn í fjárlögin ýmsum vafasömum persónulegum styrkjum, en ég get þó ekki fundið, að nokkur styrkur hafi komizt inn í þau, sem jafnlítið mælir með sem þessum. Hér fyrirfinnst bókstaflega ekki neitt, sem geti heitið rök með þessum styrk, og lítur því helzt út fyrir, að hér hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða.

Þá á ég enn brtt. á þessu sama þskj. XXVIII, þar sem ég fer fram á, að skógræktarfélagi Eyfirðinga verði veittar 1500 kr., en til vara 1000, kr. við 2. umr. fjárlaganna bar ég fram brtt. sama efnis, að öðru leyti en því, að þar var farið fram á 3000 kr. eða helmingi hærri upphæð en ég fer fram á nú, en till. sú var felld. Þegar ég talaði fyrir þeirri till., benti ég á hversu mikið starf félag þetta hefði unnið fyrir skógræktina á Norðurlandi, og að það hefði í hyggju að koma upp stórri girðingu kringum Leynishóla í Eyjafirði, sem eru um 10 hekt. að flatarmáli, og myndi því kosta nokkuð mikið fé. Þar sem nú fer er farið fram á miklu lægri upphæð en við síðustu umræðu, vænti ég, að hv. dm. samþ. hana og viðurkenni þar með að félag þetta eigi skilið að fá styrk.

Þá á ég og enn brtt. á þessu sama þskj., en hún er við 18. gr., XLI, þar sem ég legg til, að Jóhanni Ragúelssyni á Akureyri verði veittur 600 kr. styrkur, en til vara 500 kr. við 2. umr. bar ég fram svipaða till., en tók hana þá aftur fyrir tilmæli eins hv. þm., og ber hana því fram nú í sömu mynd að öðru leyti en því, að ég, hefi lækkað hana nokkuð. Þegar ég talaði fyrir till. þessari, gerði ég grein fyrir því, hvernig á því stæði, að maður þessi væri svo mjög styrks þurfi. Að maður þessi væri nær blindur og hefði verið það um langt skeið, en haft ofan af fyrir sér og fjölskyldu sinni með verzlun, en með viðskiptahömlunum hefði hann verið sviptur þeim möguleika. Ég benti ennfremur á það, að þar sem maður þessi væri blindur, væri ekki hægt að segja við hann eins og aðra, sem heilir væru heilsu, að fara út og vinna fyrir sér og sínum. Einnig sýndi ég fram á það, og vil undirstrika það enn, að þó að manni þessum væri veittur nokkur styrkur af hinu opinbera til framfærslu sér og fjölskyldu sinni, gæti það ekki skapað nokkurt fordæmi sakir hinna sérstöku ástæðna, sem fyrir hendi eru í þessu tilfelli.

Þá á ég brtt. við 22. gr., XLVIII þar sem ég fer fram á, að stj. sé heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast vegna Akureyrarbæjar allt að 1.3 millj. kr. lán til rafvirkjunar. Fyrir rúmum áratug var byggð rafstöð fyrir Akureyrarbæ, sem kostaði 600 þús. kr., en hafði þó ekki nema 300 hestöfl, eða rúmlega til ljósa fyrir bæinn. En nú hefir á seinni árum risið upp töluverður iðnaður á Akureyri, sem þarfnast mikillar raforku. Fullnægir rafstöð sú, sem nú er, því á engan hátt raforkuþörf bæjarins. Þessi litla stöð varð svo dýr, að hestaflið kostaði um 2000 krónur.

Þegar byrjuð var að byggja þessa stöð, þá var því hreyft, að hentugra mundi vera að byggja aðra stærri stöð, og voru margir sem héldu því fram, að það ætti að virkja Goðafoss, en ekki Glerá, en það þótti í fullmikið ráðizt í byrjun. Nú er svo komið, að auka verður rafmagnið vegna aðkallandi þarfa bæjarfélagsins, og snýr þá margra hugur aftur að Goðafossi. Hafa nú verið gerðar áætlanir umkostnað við virkjunina. Hafa áætlanir þessar verið gerðar í skrifstofu vegamálastjóra af Árna Pálssyni verkfræðingi, og eru þær þrjár. Á einni þeirra er kostnaður virkjunarinnar áætlaður 1455 þús. kr. Er þar gert ráð fyrir að Barnafoss í Skjálfanda verði virkjaður. Þá er önnur áætlun um virkjun vestan fljótsins, og er gert ráð fyrir að hún muni kosta 1421 þús. Loks er svo nýr staður austan við fljótið og þar má, með því að þar sparast mikið stíflur, færa kostnaðinn niður í 1300 þús. kr. Er þar gert ráð fyrir stöð, sem í byrjun hafi 2000 hestöfl, en mætti auka upp í 10000 hestöfl. Með öðrum orðum, stöð sem mundi nægja um ófyrirsjáanlega langan tíma fyrir Akureyri og mikinn hluta lands þar í grennd, svo sem Húsavík, Grenivík og Svalbarðseyri að austan og að vestan Dalvík, með um 600 mílna, Hrísey með 500 íbúa og Ólafsfjörð, sem hefir um 900 íbúa. Einnig kom svo smásaman til greina allar þær sveitir,sem á þessu svæði eru. Ég vil benda á að hér er um sogsvirkjun Norðurlands að ræða. Kröfur hafa komið fram um. að þessari virkjun verði hrundið í framkvæmd, og hvort sem það getur orðið nú eða ekki, þá verður það að gerast áður en langt um líður. Ég vil sérstaklega benda á það, að gert er ráð fyrir, að það efni, sem þarf að flytja frá útlöndum til þessarar virkjunar, verði um 464 þús. kr., en hitt er allt framleiðsla innanlands, og aðallega vinna. Nú vil ég einnig benda á það að um leið og ódýrt rafmagn er leitt frá Goðafossi til Akureyrar þá verður það notað þar til suðu og hitunar, og í Akureyrarbæ sparast við það um 3000 tonn af kolum á ári, en það er sama sem að spara 80 þús. kr. af erlendum gjaldeyri. Með öðrum orðum, hér mundi árlega sparast í innflutningi um 20% af því, sem allt það efni kostar, sem keypt væri til virkjunarinnar frá útlöndum. Stöðin mundi á þann hátt endurgreiðast á 5 árum. Nú er þetta aðeins þessi eini liður, en auk þess er margt fleira, sem kemur til greina.

Nú er það að athuga, að á Akureyri er rafmagn of líið notað til iðnaðar en sú notkun mundi að sjálfsögðu aukast, og auk þess eru á Akureyri góð skilyrði til iðnaðar, og mundi það mjög ýta undir framfarir á því sviði. ef þar fengist nægilegt og ódýrt rafmagn. En það er nú af svo skornum skammti að algerlega er ónógt. — Ég vænti að menn sjái, hve þetta er geysimikið hagsmunamál fyrir Akureyrarkaupstað og þau héruð sem eru í kring og geta notið góðs af, og ég vona það að engum finnist það óverjandi, jafnvel á þeim krepputímum, sem nú eru að leggja í þetta fyrirtæki, þegar það er sýnt að allt innflutt efni til virkjunarinnar endurgreiðist á 5 árum eingöngu með því, sem við þetta sparast í minnkuðum innflutningi af kolum. — Ég vil ennfremur benda á það að gerð hefir verið áætlun um væntanlegar tekjur stöðvarinnar. Þá áætlun hefir gert Steingrímur Jónsson raffræðingur, og hefir hann aflað sér allra upplýsinga þar að lútandi og telur hann að stöðin eigi þegar í byrjun að gefa nægilegt fé til afborgana og hirðingar, svo að því leyti er þetta fyrirtæki tryggt.

Ég hirði ekki um að fjölyrða um þetta mál. Ég vænti að hv. þm. taki því með skilningi og velvilja. Ég vil að lokum aðeins benda á það, að í þessum orðum mínum hefi ég miðað við þann tíma, sem nú er, en á árunum 1919–l920 var þannig ástatt hér, að við urðum að greiða 300 kr. fyrir hvert kolatonn. Slíkir tímar geta komið aftur, og eins og nú lítur út í heiminum. verður að telja það mjög líklegt, að þeir komi aftur, og þá er það lífsnauðsyn fyrir alla stóra bæi þessa lands að hafa tryggt sér ljós og eldsneyti að minnsta kosti svo, að þeir geti soðið mat sinn að hætti síðaðra manna.