06.05.1936
Sameinað þing: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1937

*Eiríkur Einarsson:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 519 og 547, og vil ég gera stutta grein fyrir þeim.

Það er þá í fyrsta lagi till. á þskj. 519,l, sem er endurvakning frá síðasta þingi, um það, að ætla 5500 kr. til nýrrar símalínu frá Ásum í Gnúpverjahreppi að Ásólfsstöðum. Ég gerði þá fulla grein fyrir þessari till. og þykir því leitt að þurfa að endurtaka orð mín öll, og, mun heldur ekki gera það nema að litlu leyti. Ég gat þess þá, hvað þessi símalína væri nauðsynleg vegna gistihússins á Ásólfsstöðum og vegna fjallasveitarinnar, sem ekki er svo fábyggð. Það hefir dregizt ár frá ári að leggja þennan síma, og oft verið gefið vilyrði fyrir því, en nú er drátturinn orðinn svo langur og bagalegur, að ekki verður lengur við unað. Það vildi svo óheppilega til, að samskonar till. og þetta var felld á síðasta þingi með jöfnum atkv., 24:24, þar sem þar með var útilokað að heimild fengist til þess að framkvæma þessa símalagningu á árinu 1936, þá vona ég því fremur, að það bregðist ekki, að til framkvæma geti komið á árinu 1935 því lengur má þetta ekki bíða. — Ég hjó eftir því í ræðu hv. frsm. fyrri kafla, þar sem hann gat um símalínur þær, sem ákveðið væri að leggja á árinu 1937 samkv. skrá fjvn., að Ásólfsstaðalínan var ein af þeim. Og ef þetta er jafngott og gilt og lögfesting minnar till., þá get ég tekið hana aftur. (JG: Ég álít, að svo sé). Þá tek ég þessa till. mína hér með aftur.

Næsta till. mín á sama þskj., undir lið XI, er um framlag til Gnúpverjahreppsvegar. Í fjárlfrv. er ætlað til þessa vegar 2 þús. kr. Þarna er svo háttað, að þessi vegur hefir ekki náð sem þjóðvegur nema fram í miðja sveitina. Á síðasta þingi bar ég fram brtt. um nokkra hækkun á framlagi til þessa vegna, en hún var felld á sama hátt og sú brtt., sem ég gat um áðan, þ. e. a. s. með hér um bil jöfnum atkv. Og nú vil ég gefa hv. þm., sem í fyrra greiddu atkv. á móti svona sanngjörnu máli, tækifæri til þess að flikka upp á samvizkuna og hjálpa þessari sanngjörnu viðleitni minni í höfn.

Þá er næsta till. mín á sama þskj. undir lið XVIII, um hækkað framlag til Snepilrásarinnar við Stokkseyri. Í frv., eins og það nú liggur fyrir, er framlagið ákveðið 3 þús. kr., en ég fer fram á, að það verði hækkað upp í 5500 kr. Samskonar till. og þetta var felld fyrir mér á síðasta þingi á sama hátt og hinar tvær, sem ég hefi nú getið um, og þótti mér það hart, því að þarna er um verulega þörf að ræða. — Ég verð að geta um það í þessu sambandi, að eins og málið nú liggur fyrir í fjárlfrv., þá er veitt nokkuð til bryggjugerða og lendingarbóta, og þar er þessari hjálp til Stokkseyrar tvískipt. Annarsvegar eru veittar 2 þús. kr. gegn 2/3 annarsstaðar að, og svo er sérstakur liður seinna gegn jöfnu framlagi annarsstaðar að, 3 þús. kr., til breikkunar og dýpkunar á brimgarðinum við Stokkseyri. Þessa sundurliðun skil ég ekki. Maður sér það ekki á þessum fyrri lið, sem er 2 þús. kr., hvort hann er til þess að fullgera bryggjuna eða til lendingarbóta. Sé hann til þess að fullgera bryggjuna, þá heyrir það undir byggingarfélag á Stokkseyri, sem er fjárdeild út af fyrir sig og alveg óháð lendingarbótunum. En ef á að skipta þessu framlagi milli bryggjugerðarinnar og lendingarbótanna, þá er þar um að ræða tvo aðilja, sem ekkert koma hvor öðrum við, því að lendingarbæturnar og Snepilrásin eru í höndum fiskifélagsdeildar á Stokkseyri, sem er óháð bryggjugerðinni. Mér þætti því gaman að fá skýringu á þessari sundurliðun hjá hv. fjvn. Ef það er meiningin að verja 2 þús. kr. til bryggjunnar, þá þykir mér náttúrlega vænt um það, en þá er líka framlagið til lendingarbótum og Snepilrásarinnar allt of lágt ákveðið 3 þús. kr., og þess vegna ber ég fram þessa hækkun. — Ég tók eftir því í blaði núna nýlega, að bátur hefði verið mjög hætt kominn í Stokkseyrarsundi einmitt þar sem lendingarbætur á að gera, og hefði engu mátt muna, að honum ekki hvolfdi. Þetta hefir oft komið fyrir áður, stundum hafa menn bjargazt, en stundum hafa orðið slys. En til þess að forða slíkum slysum sem verða má í framtíðinni, þá getur Alþingi ekki gert annað betra en að veita þessa fjárupphæð til þessarar nauðsynlegu og aðkallandi aðgerðar, ekki hvað sízt fyrir það, að nú er bátum að fjölga þarna mikið frá ári til árs, og að Stokkseyri er nú ein af þeim fáu veiðistöðvum, þar sem veiði hefir ekki brugðizt.

Þá á ég hér enn ásamt hv. 1. þm. Skagf. brtt. á þessu sama þskj. undir lið XXVII, sem fer fram á það, að þeim Jóni Jónssyni frá Laug, Guðmundi Gíslasyni lækni og Trausta Einarssyni efnafræðingi verði veittar 1 þús. kr. hverjum í viðurkenningarskyni fyrir endurvakningu Geysis. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa till. Það verður ekki um það deilt, að þetta eru mennirnir, sem með elju sinni og hugviti hafa komið Geysi til að gjósa, og ég sé ekki betur en að þjóðin standi þeim í þakkarskuld

fyrir það. Það er nú nýbúið að gera gagngerðar ráðstafanir her á Alþingi til þess að laða ferðamenn hingað til landsins, og stofna til útgjalda og embætta til þess að standa fyrir þeim ferðamannastraum. En hvað skyldi það nú vera, sem erlendir ferðamenn kysu helzt að sjá hér á Íslandi? Ekkert frekar heldur en hinn heimsfræga Geysi í Haukadal. Og þegar þetta er tekið með í reikninginn, þá sé ég ekki betur en að þessir menn eigi viðurkenningu skilið fyrir að hafa velt steininum frá gröfinni og endurvakið Geysi, því að vitanlega hefir þetta kostað þá talsverða fyrirhöfn og fé.

Þá kem ég að lokum að síðustu brtt. minni, XI á þskj. 547, sem fer fram á 300 kr. styrk til Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti til örnefnasöfnunar og ritstarfa. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. kannist mikið við þennan mann. Hann er orðinn gamall maður, kominn á sjötugsaldur, og er fyrir nokkrum árum látinn af búskap. Hann hefir búið við fátækt og basl og komið upp stórum hóp barna, og er nú orðinn lítt vinnufær, en það eina, sem hann dugar nú til er að framfylgja þessum áhuga sínum til örnefnasöfnunar og þjóðlegra ritstarfa. Hann er mjög fróður um örnefni, sérstaklega í afréttum Árnessýslu. Það er vitanlegt, að mörg af þessum örnefnum voru að týnast, en hann býr yfir miklum fróðleik í þessum efnum, sem hætta er á að fari forgörðum, ef hann á ekki kost á að halda þessari starfsemi sinni áfram. Ég veit til þess, að menn, sem hafa verið hér af hálfu herforingjararáðsins danska, hafa leitað til Þorsteins Bjarnasonar í þessu efni, og hann hefir veitt þeim aðstoð. Hann hefir skrifað ritgerð um örnefni í árbók fornleifafélagsins, og þykir fróðleikur hans allsstaðar góður fengur, en hann hefir ekki ráð á að ferðast um á sumrum, og þess vegna fer ég nú fram á þetta lítilræði handa honum, og vænti ég þess, að hv. þm. taki því vel.

Þá langar mig til þess að minnast á brtt., sem er á þskj. 502, sú fimmtugasta í röðinni; hún er um styrk til Guðmundar Jónssonar í Nesi í Selvogi. Ég er kunnugur hvernig til hagar hjá honum, og virðist mér sú upphæð, sem hann hefir farið fram á, of lítil, enda þótt ekki sé farið fram á meira.

Að síðustu vil ég svo minnast á till., sem fram kom á síðasta þingi frá mér og hv. þm. Rang. um það, að varið yrði einhverju at atvinnubótafénu til aðgerða á suðurlandsbrautinni; sú till. var ekki samþ. af þinginu, en hún fékk yfirlýsingu hæstv. ráðh. um, að þeir væru málinu hlynntir og myndu verja einhverju af atvinnubótafénu til þessara aðgerða, eftir því sem unnt væri, þegar þar að kæmi. Í þeim fjárl., sem nú liggja fyrir, er ákveðin upphæð til atvinnubóta í landinu, og vil ég í því sambandi vænta þess, að hæstv. stj. sjái sér fært að verja fé eftir því, sem við verður komið, til áframhaldandi aðgerða á þessari braut sem á að verða til þess að tengja saman suðurlandsundirlendið og höfuðstaðinn.