04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég gat þess í minni fyrri ræðu, að við þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., vildi kenna ósamræmis í ýmsum ákvæðum frv. Við því var ekki gott að gera, því að þegar frv. var lagt fram í hv. Nd., var gengið út frá því, að allsstaðar væru hafðar hlutfallskosningar. En við þá breyt. að heimila óhlutbundnar kosningar í hreppum utan kaupstaða komu í ljós ýms ákvæði, sem þurfti að setja inn til samræmis. En við athugun á frv. í n., þá hygg ég samt sem áður, að þetta þurfi ekki að valda neinum sérstökum vandræðum.

Að því er snertir varamennina, þá segi ég ekkert um það. Það kann að vera, að það sé ekki þörf á að hafa varamenn þar, sem óhlutbundnar kosningar eru, en sem sagt, þetta stafar eins og svo margt annað af þeim breyt., sem gerðar voru á frv. í hv. Nd. Þetta verður þó athugað nánar til 3. umr., en ég álít varasamt að breyta frv. í verulegum atriðum, vegna þess að þá er því stefnt í nokkra hættu, en ég tel mikla nauðsyn á að samræma eins og verða má kosningar til bæjarstjórna og hreppsnefnda við kosningar til Alþingis, einkum vegna þess að það er slæmt fyrir kjósendur að þurfa í öðru tilfellinu að nota allt aðrar reglur við kosningarnar heldur en í hinu. Við höfum orðið vör við það í kosningum til Alþingis, meðan kosið var á tvennan hátt, þannig, að kosið var við landskjör og við kjördæmakosningar, að þar var kosningaaðferðin sitt með hvoru móti. Þetta vildi valda í sumum tilfellum miklum glundroða. Það kom fyrir í heilum hreppi, jafnvel fleiri hreppum í sama kjördæmi við kjördæmakosningar, að menn settu kross við nafn þess, sem þeir kusu, í staðinn fyrir að nota stimpil, og þar með urðu atkvæðin ónýt. Þess vegna er það mikill kostur að getu samræmt þessi tvenn kosningalög.

Ég verð því að vænta þess, að málið gangi fram, þó að ég játi það, að frv. væri miklu heilsteyptara eins og það var lagt fyrir þingið heldur en nú. Þó tel ég, að þeir gallar, sem koma fram í lítilsháttar ósamræmi milli ýmsra ákvæða frv., ættu ekki að valda neinum sérstökum vandræðum.