05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. frsm. minntist þess ekki, svo að ég tæki eftir, að mín afstaða til fyrstu brtt. er sú, að ég get ekki fylgt henni, og hafði um það fyrirvara. Ég tel ekki rétt að hafa ekki varamenn, þótt kosning sé óhlutbundin. Reynslan hefir sýnt það, að þar sem kjörtímabilið er 4 ár, er nauðsynlegt að hafa varamenn. Á þetta löngu tímabili geta komið fyrir allskonar forföll, menn geta dáið, flutt burt úr hreppnum o. fl., og þarf þá að efna til nýrra kosninga, ef ekki eru til varamenn, og er með því stofnað til óþarfa kostnaðar. Þess vegna vil ég halda þeirri reglu, sem er gegnum allt frv., að hafa varamenn. Að vísu er það heimilt, þótt brtt.samþ., en ég tel ekki tryggt, að sú heimild verði notuð.

Um aðrar brtt. n. þarf ég ekki að tala, en hinsvegar vil ég taka það fram um brtt. hv. 10. landsk. að ég get ekki fallizt á að þrengja leiðina að því að koma á hlutfallskosningum. Ég held, að það sé hóflega í sakir farið að ætla 1/10 kjósenda að segja um, hvort hlutfallskosningar séu viðhafðar, og að þar sem hreppar eru fjölmennir nægi að 25 kjósendur krefjist þess.

Það verður að teljast réttlátt, að minnihl.flokkar geti fengið sinn rétt, og atkvæði þeirra geti komið til greina. Ég get ekki fallizt á það, sem hv. 10. landsk. flutti sem aðalrök fyrir till. sinni, að hlutfallskosningar mundu auka flokkadrætti í sveitum. Hinsvegar getur hrein hending ráðið því, hvernig kosning fer, og er þá aðeins sá meiri hl., sem þannig verður til, ráðandi um 4 ára skeið, án þess að áhrifaréttur hinna komist nokkuð að.

Ég vil ekki þrengja eða torvelda leiðina að hlutfallskosningum meira en orðið er. Auk þess má geta þess, að um þetta atriði urðu allmikil átök í hv. Nd., og ef þessu væri breytt hér, þá gæti það orðið frv. að falli.

Ég vil mælast til, að hv. d. tefli ekki þannig á tvær hættur að samþ. þessa brtt.