07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég þarf ekki að svara þessu miklu. Því er haldið fram, að hér sé brotin venja, sem ríkt hafi í 30 ár. En það er hætt að halda því fram, að stjórnarskrárbrot sé á ferð.

Þessu er fljótsvarað. Þegar lagaákvæði eru fyrir hendi, kemur venja vitanlega ekki til greina til að afnema þau. Ég sé ekki heldur, að neitt sé á móti því að taka upp þá venju, að þegar frv. er flutt að tilhlutun stj., bæði þegar bráðabirgðal. hafa verið getin út og án þess, þá sé það flutt án þess að leita samþ. konungs til þess að leggja það fyrir þingið.

Þá tel ég rétt að leiðrétta misskilning nokkurn, sem ég hygg ég hafi ekki gefið minnsta tilefni til. Ég sagði, að það væri álitið heimilt á Norðurlöndum að leggja frv. þannig fyrir, að þm. gerði það fyrir ráðh. En hv. 1. þm. Skagf. kallaði það enn meiri fjarstæðu og ennþá meira brot á venju og jafnvel brot á stjskr., að slíkt frv. væri flutt breytt frá upphaflegu bráðabirgðal. Það er það, sem ég sagði sérstaklega, að hefði átt sér stað á Norðurlöndum; og ef óskað er, skal ég koma með fræðibækur, sem vísa til þess. En þetta fullnægir ákvæðum stjskr., vegna þess að þar segir ekkert um víti fyrir stj. út af því, þó að l. séu ekki samþ., bara ef þau eru lögð fyrir og tekin fyrir við eina umr. Þau falla þá bara úr gildi. Enda eru góð dæmi um það m. a. frá síðasta þingi, að lög eru samþ. mjög breytt frá bráðabirgðal. Það er þá ekkert annað en þetta, að konungsvaldið er ekki spurt, hvort megi leggja frv. fyrir þingið. Réttur þingsins og stjskr. er ekki skert að neinu, og það er aðalatriðið. Eða getur hv. þm. bent á það, þó að þessari reglu sé fylgt ?

Því hefir nú verið haldið fram, að l., sem hér voru gefin út, hafi óþörf verið, með því að heimild sé fyrir hendi til að rannsaka skeytasendingar án þess að ný lagaákvæði kæmu til. Þessi lagaákvæði, sem vísað er til í umr. um þetta mál, og sérstaklega í blöðum, sem hafa tekið málið til athugunar, eru að mínu áliti a. m. k. ekki vafalaus; það er langt frá því í vafalaust, að hægt sé að gera slíkar rannsóknir á símskeytum, sem gerðar hafa verið, ef ekki liggur fyrir rökstuddur grunur um, að brot hafi átt sér stað.

Þegar svipað frv. kom fram fyrir nokkrum árum, var því haldið fram og staðfest af landssímastjóra, að þetta væri heimilt. Það bréf liggur fyrir í dómsmálaráðuneytinu. Þegar ég gerði þessa athugun, skrifaði ég landssímastjóra og tók upp úr þessu bréfi; sagðist hafa útnefnt menn til að gera þessa rannsókn. En hann skrifaði aftur og mótmælti, og kvaðst ekki geta lagt þann skilning í l., að þetta væri heimilt. Óskaði hann í bréfinu, að málinu yrði vísað til lögreglustjórans í Rvík, og hann látinn úrskurða, hvort rannsóknina mætti framkvæma samkvæmt gildandi l. Ég sendi nú ekkert frá mér í 3–4 daga. En á meðan höfðu þeir menn, sem ég fól rannsóknina, byrjað að skoða nokkur skeyti, og kom þegar fram, að óhreint mjöl myndi vera í pokanum. Þá gekk landssímastjóri ekki eftir, að þetta yrði lagt undir úrskurð lögreglustjóra. Var þegar auðsjáanlega upplýst mál, að 2–3 menn voru við njósnir riðnir. En hefðu ekki slíkar upplýsingar þegar komið fram, að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða, þá hefði ég orðið að beygja mig undir þau mótmæli landssímastjóra, sem fram voru komin. Og ennþá liggur ekki fyrir frá landssímastjóra og lögreglustjóra, að þessi rannsókn sé leyfileg. Ef hv. d. óskar eftir að sjá þessi bréf, er það velkomið.

Ég sagði í viðtali við landssímastjóra, að mér væri illa við að skapa fordæmi með því að vísa þessu máli til dómstóla. Hinsvegar kvað ég það eins hægt að gera, þó að málið væri komið nokkuð áleiðis; varð að samkomulagi, þegar upplýsingar voru komnar, að vísa málinu til lögreglustjóra; en hann skapaði ekki fordæmi fyrir sig, því að það yrði að gefa út bráðabirgðalög, sem næsta þing afgr., svo að ekki þyrfti að vísa því til dómstóla, þó að skeytin yrðu rannsökuð.

En það sjá allir, að þegar landssímastjóri hefir þessa skoðun og næsti landssímastjóri getur haft hana líka, þá hefði orðið að bíða eftir dómsúrskurði, sem getur gersamlega eyðilagt alla rannsókn á milli. Það er þess vegna alls ekki ástæðulaust, að þessi bráðabirgðal. voru gefin út. Vænti ég, að hv. d. fallist á það, að fengnum þessum upplýsingum, — þeir, sem annars fallast á rök.