07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Jónas Jónsson:

Af því að hv. 1. þm. Reykv. bætti nokkrum orðum við um efni þessa frv., vildi ég segja fáein orð.

Ég er honum og hans ágæta blaði, Morgunblaðinu, ákaflega þakklátur fyrir að krefjast jafnan hins mesta heiðurs fyrir mína hönd og geta aldrei sætt sig við annað en að ég hafi sem mest völd. Og þó að ég sé svona kröfulægri en andstæðingar mínir, þá get ég engu að síður verið mjög þakklátur fyrir það einlæga hugarfar, sem skín út úr þessum velvildaryfirlýsingum þeirra. — Aftur á móti finnst mér hv. 1. þm. Reykv. vera dálítið meir á villigötum, þegar hann kemur að dagskrármálinu sjálfu. En sorglegast hans vegna þótti mér það, að ég sé ekki betur en það vofi yfir honum — og kannske einhverjum af hans flokkssystkinum í hv. d. —, að afstaða hans til þessara ólánsmanna, sem hafa verið staðnir að föðurlandssvikum, verði ekki dæmd alveg grunlaus af almenningi. Mér þótti það heldur óþægileg byrjun, að einn af reyndari mönnum flokksins skyldi reyna að tefja fyrir málinu, þó að það væri fyrir formleg atriði, en út yfir tekur með hv. 1. þm. Reykv., því að eftir hans ræðu er ómögulegt að hugsa sér annað en að hann haldi áfram að vera móti því, að löggjöf sé sett um þetta efni, sem hindri slík föðurlandssvik, sem nú eru lýðum ljós. Og þetta verður ekki aðeins til þess að kasta skugga á þann flokk, sem tekur upp andstöðu, heldur landið allt. En þó að það verði nú ekki nema hv. 1. þm. Reykv., sem lendir í þessari villu, þá vil ég jafnvel vonast eftir af vissu orðalagi hjá honum, að hann sé að undirbúa að geta verið með málinu og bjargazt sómasamlega úr villu sinni, sem væri mjög ánægjulegt fyrir hann og alla hans aðstandendur.

Nokkrir reyna nú að bjarga sér og sinni fortíð með því að halda fram, að það þyrfti engin l. um þetta, það væri hægt fyrir hvaða landsstj. sem væri að vaða inn í skeytasafn stöðvanna og skoða hvað sem vera vill. Ég ætla þá að benda hv. þm. á það, að núv. loftskeytastöðvarstj., Friðbjörn Aðalsteinsson, hefir sagt bæði fyrr og síðar, að hann léti heldur reka sig frá starfi en að hann hleypti nokkrum manni í að skoða skeytin, hvort sem það er ríkisstj. eða aðrir, nema fyrir lægi hreinn úrskurður dómara, að þetta skyldi gert. Og ég get bætt því við, að þegar það kemur fyrir — sem er ekki svo sjaldan — að dómari þarf að styðjast við vitnisburð úr símstöðinni, þá lætur síminn aldrei skeyti nema eftir úrskurði, eftir því sem yfirmenn símans hafa talið. Þetta kemur algerlega heim við það, sem hæstv. forsrh. sagði nú. Ég ætla aðeins að benda hv. l. þm. Reykv. á það, að ef hans skoðun væri rétt um þetta, þá væri ógnarlega mikill hægur fyrir hvaða ríkisstj. sem er, ef hana vanhagaði um að fá að vita eitthvað, að fara þá bara í loftskeytastöðina og fá að sjá skeytin. Ef ég t. d., þegar ég var í ríkisstj., hefði haft grun um, að hv. 1. þm. Reykv. væri að senda pólitísk skeyti fyrir sinn flokk út á land, þá hefði ég átt að hafa leyfi til að fara niður í símstöð og segja: „Nú hefi ég grun um, að þessi dósent hafi sent skeyti, sem stj. kemur illa“ — og heimta öll skeyti um þetta send upp í stjórnarráð til að yfirfara þau þar. Ég álít að vísu, að þetta hefði verið ákaflega gott fyrir föðurlandið viðvíkjandi ýmsum skeytum, sem hv. þm. og hans flokksmenn kunna að hafa sent, en það er bar ekki löglegt. Og flest skeyti eru þannig, að það væri með öllu óviðeigandi, að farið væri í þau frekar en bréf. Því er það, að sú skoðun, sem hv. þm. heldur fram, til þess að reyna að fóðra sín fyrri frumhlaup og yfirsjónir í þessu máli, er alveg vonlaus. Í fyrsta lagi eru lögin á móti og í öðru lagi er skoðun þess embættismanns, sem hefir með þetta að gera. Þetta væri alveg ómögulegt, ef hægt væri fyrir stjórnarvöld á hverjum tíma að fara á símstöðina og rannsaka skeyti; þá væri alveg eins hægt að fara á bréfapósthúsið og heimta bréf opnuð. Ég held, að ég neyðist til, um leið og ég lýk þessum orðum, að láta í ljós hryggð mína yfir því, að hv. 1. þm. Reykv. skuli ennþá vera á móti þessu máli, eftir að svo augljóst er orðið, hversu þarft það er, að jafnvel Morgunblaðið, sem gefst þó ekki upp að verja glæpamál fyrir sína menn fyrr en það er nauðsynlegt, hefir látið af andstöðu sinni. Mér finnst maður geti verið hissa á því, að maður, sem ekki er aðeins dósent, heldur prófessor í guðfræði, skuli ganga lengra í þessu máli heldur en þetta málgagn hans.