07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla ekki að svara þessari gusu hv. þm. S.-Þ., en ég vil benda honum á, að honum mundi ganga erfiðlega að standa við margt úr ræðu sinni, ef þinghelgin skýldi honum ekki. Ég tók það fram í byrjun, að af því að ég veit ekki, hvernig frv. á að verða, þá ætla ég alls ekki að tala um innihald þess. Hæstv. forsrh. spurði, hvort ég teldi, að konungsvaldinu væri misboðið með þessari aðferð. Nei, ég álít það alls ekki. Ég er því vel kunnugur, hvernig er um konungsvaldið, það er ekki það, sem ég hugsa um, heldur að það séu ekki að ástæðulausu brotnar venjur, sem búið er að halda í langan aldur. Það er búið, eins og ég tók fram, í yfir 30 ár að slá því föstu, að ákvæði 23. gr. stjskr. skuli skilja á ákveðinn hátt. Ég viðurkenni, að þessa gr. má skilja á tvennan hátt, en með 30 ára praksis er búið að skera úr því, hvernig gr. skuli skilin, og það er alveg ástæðulaust að vera að breyta út af því. Það er þetta, sem ég hefi verið að ræða um, en ekkert annað. Ég get ekki skoðað það annað en leti hjá hæstv. ráðh. að vilja ekki leggja það á sig að síma til konungs um þetta. Við vitum báðir, að þetta er ekkert annað en form, og heldur ekkert annað en form, þegar stjskr. segir, að konungur geti út þessi l. við vitum allir, að það er ráðh., sem gerir það. Ég lít svo á, að það sé sami aðili, sem gefi l. út og eigi að leggja þau fyrir þingið.