07.03.1936
Efri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Jónas Jónsson:

Þær hafa komið eitthvað illa við hv. 1. þm. Reykv. þessar umr. Hv. þm. hefir líklega komizt heldur ónotalega að raun um, að hann muni nú annaðhvort verða að vera með þessum föðurlandssvikurum eða á móti þeim. Ef hann er á móti þeim, snoppungar hann sína fyrri fortíð, en ef hann er með þeim, þá sýnir hann að vísu mikla fastheldni við fyrri skoðanir, en kynni jafnframt að tapa einhverju af atkv. heiðarlegra sálna í flokki sínum, sem ekki vilja þannig frammistöðu þm. síns. Það, sem ég fer fram á í þessu máli, er það, að fullkomnu eftirliti verði komið upp með sendingu skeyta til skipa, að allir dulmálslyklar verði afhentir á símastöðinni og hvert skeyti verði athugað nákvæmlega. Það er þetta, sem ég hefi barizt fyrir síðustu 5 árin og hamrað hefir verið niður af hv. þm. og hans flokksmönnum. Þau eru því á ábyrgð hans og flokks hans, þau svik, sem hafa, viðgengizt í stórum stíl nú á undanförnum árum og búið er að sanna, að fjöldi manns er við riðinn. Af þeim rannsóknum hefir komið í ljós, að það eru nær eingöngu menn úr flokki hv. 1. þm. Reykv., sem eru við þessi mál riðnir, enda er það ekkert óeðlilegt, þar sem forkólfar flokksins hafa á undanförnum árum komið þeirri skoðun inn hjá sínu fólki, að þetta athæfi væri ekki glæpsamlegt, heldur jafnvel þvert á móti. Nú þegar upp eru komin þessi svik, standa svo þessir menn ráðþrota. Þetta hefir komið á þá eins og reiðarslag. Enda er það engin furða, þó að það sé ekkert tilhlökkunarefni fyrir hv. þm. að eiga eftir að taka þátt í umr. um þetta mál nú. Vitanlegt er, að það er hægt að fara illa með hv. þm., ef honum er ekki sýnd sérstök miskunn. Það er hægt að lesa fyrir hv. þm. gömlu ræðurnar samhliða vitnisburðum glæpamannanna. Hvernig á honum verður tekið, það fer eftir honum sjálfum, en ef hann reynir að reisa haus í þessu máli, þá er ég hræddur um, að hann fari mjög illa út úr því.