18.03.1936
Efri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Þó að ég standi hér upp, þá hafði ég ekki búið mig undir að hafa framsögu í þessu máli, en mér finnst mér skylt sem form. n. að segja nokkur orð, þar sem hv. frsm., hv. 2. þm. S.-M, hefir ekki haft ástæðu til þess að mæta á fundinum. Eins og kunnugt er, þá er þetta mál flutt af allshn. fyrir tilmæli hæstv. dómsmrh., og var því svo vísað aftur til n. á fundi 7. þ. m. Fyrir n. lágu þá allýtarlegar og verulegar breytingar, þó ekki efnisbreyt., sem eiginlega var til ætlazt, að n. flytti strax, en eins og kunnugt er, þá flutti hún bráðabirgðalögin eins og þau voru, og hefir nú n. tekið þessar brtt. upp og gerir þær að sínum till. við frv. Þessar brtt., sem hér ræðir um, eru í öllum aðalatriðum gerðar af landssímastjóra, sem eftir beiðni hæstv. dómsmrh. hefir fengið frv. til athugunar og umsagnar. Í öllum aðalatriðum var n. sammála þessum brtt. eins og þær lágu fyrir henni, en einn nm., hv. 1. þm. Skagf., hefir dálitla sérstöðu í málinu, þar sem hann lítur svo á, að sömu ráðstafanir og í frv. felast hefði verið hægt að gera með reglugerð, og svo telur hann sektarákvæðin óþarflega hörð og vitnar þar til hliðstæðra laga, eins og landhelgislaganna. En meiri hl. n. taldi ekki rétt að gert neina breytingu frá þeim till., sem þegar eru gerðar í því efni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta, nema frekara tilefni gefist.