18.03.1936
Efri deild: 27. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Eins og hv. frsm. minntist á, þá var mikið af þessum brtt. við frv. sent frá dómsmrn., og það kemur til af því, að ég bað þann loftskeytamann, sem les yfir skeytin, síðan bráðabirgðalögin voru gefin út og landssímastjóra að athuga frv. og segja til um það, hvaða breyt. þeir kynnu að álíta heppilegt að gera á frv. Þessar brtt. voru síðan útbúnar í samræmi við þeirra reynslu og eru ekki stórvægilegar. Ég álít þess vegna sjálfsagt, þar sem efni frv. er að mestu leyti það sama og í upphafi, að taka þá reynslu til greina, eins og alltaf, þegar lög eru framkvæmd.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, hvort leyfilegt hafi verið, áður en bráðabirgðalögin voru gefin út, að rannsaka skeyti, þá skal ég ekki blanda mér frekar í þá deilu heldur en ég gerði við 1. umr., en þá benti ég á það, að landssímastjóri áleit það óheimilt að skoða skeyti án þess að ný lög væru gefin út, sem heimiluðu það. Og ég sé ekki heldur betur en að þeir, sem halda því fram, að hægt hafi verið að skoða skeytin án þess að ný lög væru gefin út. séu komnir í alger rökþrot um þetta atriði.

Hvað viðvíkur refsiákvæðunum, þá verð ég að segja það, að ég álít þau ekki of ströng. Ég vil álíta, að 3–15 þús. kr. sekt eða fangelsi allt að 2 ára ef sakir eru miklar eða brotið ítrekað, sé ekki of þung refsing fyrir slíkt afbrot sem þetta. Við vitum það, að refsingar verður að miða við það, hvað svívirðilegt afbrotið er í almenningsálitinu og hvað skaðlegt það er. Og ég held, að meðan við höfum refsingar í lögum fyrir ýmisleg afbrot, sem skipta fleiri árum, þá sé ekki of mikið 2 ára fangelsi fyrir slíkt afbrot sem hér er um að ræða, sem í augum almennings er tvímælalaust einhver svívirðilegasti glæpur.

Það má benda á, að samkv. 1. um botnvörpuveiðar frá 1920 liggur einnig fangelsi við brotum gegn þeim. En jafnframt ber þess að gæta, að þó það sé vitanlega stórt afbrot af togaraskipstjórum að veiða í landhelgi, þá er hitt þó áreiðanlega talið ennþá svívirðilegra, að halda svona njósnum uppi í landi til þess að gera þeim það mögulegt, og er því ekkert við það að athuga, þó að í þessu tilfelli sé brotin sú meginregla að láta aðstoð varða minni refsingu heldur en brotið sjálft.