17.04.1936
Neðri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Garðar Þorsteinsson:

Ég kann illa við, þegar hv. frsm. n. kemur inn í þessa hv. d. með vísvitandi ósannindi. Ég get skírskotað til hæstv. forseta, hv. þm. Snæf. og hv. 1. landsk., ef hann er hér, um það, hvort það sé ekki rétt, að um það hafi beinlínis verið talað í n. að fá landssímastjóra til þess að koma á fund hjá n. Ég skil ekki þetta ofurkapp hjá hv. 2. þm. Reykv. Mér hefir aldrei dottið í hug að tefja fyrir framgangi þessa máls, og hv. frsm. n. getur ekki kennt neinum einstökum nm. um það, að þetta mál hefir ekki verið athugað síðan á síðasta fundi n., því að hann hefir ekki boðað til neins fundar í n. síðan, og ég leyfi mér að fara fram á það, að hæstv. forseti sjái um það, að hv. þdm. gefist kostur á því að athuga þetta mál á þann hátt, sem talað var um á fundi n., því að það má segja, að skörin fari að færast upp í bekkinn, ef ekki er hægt að reiða sig á slíkt samkomulag um að fá upplýsingar um mál. Það voru ýms atriði í þessu máli, sem þurfti að afla upplýsinga um, t. d. vantaði skýringu á hugtakinu „strandastöð“, og einnig vildum við fá skýringu á því, hvort 3. málsgr. 2. gr. næði bæði til 1. og 2. málsgr. 2. gr. og líka til 1. gr. Við vildum líka fá skýringu á því, hvort það væri í raun og veru meiningin. að þau minni fiskiskip, sem töluðu saman innbyrðis, þyrftu að skrifa niður á þar til gerð eyðublöð öll þau samtöl, sem færu fram á milli þeirra. Ég veit, að hæstv. forseti man, að um þetta var talað, því að okkur var það ekki vel ljóst. Ég bar fram þá ósk, að frestað væri að afgr. málið frá n. í það skipti og landssímastjóri yrði fenginn þá þegar á fund n. en það varð að samkomulagi, eins og ég veit, að allir hv. nm. muna, að láta málið ganga til 3. umr., en fá landssímastjóra á nefndarfund áður en málið yrði afgr. úr hv. d.