25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

Thor Thors:

Ég verð að viðurkenna, að ræða sú, sem hæstv. forsrh. flutti áðan, er einhver sú skemmtilegasta, sem flutt hefir verið hér í d. Hún brá svo skýru ljósi yfir eiginleika hans og gáfnafar í heild.

Mér þykir leitt, að ráðh. skuli vera flúinn úr d., því að ég vildi upplýsa hann um, hvað hér væri verið að ræða um í raun og veru, því að það virðist algerlega hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá honum. Eins og kunnugt er, þá leggur allshn. til, að frv. það, sem hér á að vera til umr., verði samþ. En við hv. 8. landsk. tökum það fram, eins og segir í nál., að við litum svo á, að sömu ráðstafanir og í frv. felast hefði verið hægt að gera með reglugerð, byggðri á lögum nr. 82 14. nóv. 1917. Af því nú að hæstv. ráðh. virðist ekki skilja, á hvaða lagabókstaf þessi ummæli okkar séu byggð, þá vil ég vísa honum á, hvar lagaákvæði um þetta er að finna. Það er þá fyrst, að í lögum nr. 82 frá 1917, 3. gr., segir svo: „Þráðlausar firðviðskiptastöðvar á íslenzkum skipum, hvort heldur er innan eða utan íslenzkrar landhelgi, og ekki eru eign landssjóðs, má aðeins setja á stofn og starfrækja að áður fengnu leyfi ráðuneytisins.“

Og í 4. gr. sömu laga segir svo:

„Innan íslenzkrar landhelgi og á Íslandi má aðeins að fengnu leyfi ráðuneytisins og með þeim skilyrðum, sem leyfið ákveður, setja upp og nota stöðvar eða annan útbúnað til þráðlausra firðviðskipta.“

Í reglugerð frá 17. maí 1918, um rekstur loftskeytastöðva á Íslandi, er svo ákveðið í 2. gr.: „Enginn má setja upp eða reka loftskeytastöð á Íslandi eða innan íslenzkrar landhelgi eða á skipum, sem skrásett eru á Íslandi, nema að þar til fengnu leyfi ráðuneytisins, er gefur út leyfisbréf fyrir stöðina. Leyfisbréf þetta eða, staðfest afrit af því skal ávallt geymt á þeirri stöð, sem það er gefið út fyrir. Sé skilyrðum þeim, er leyfisbréfið tiltekur, ekki fullnægt, má afturkalla leyfið og taka áhöld stöðvarinnar niður.“

Þarna er beinlínis tekið upp ákvæði úr lögunum. Þá segir og í 19. gr. þessarar reglugerðar: „Ráðuneytið getur bannað öll loftskeytaviðskipti innan íslenzkrar landhelgi, bæði frá íslenzkum og erlendum skipum, og gert þær ráðstafanir, er nauðsynlegar þykja, til þess að banninu verði hlýtt.

Einnig getur ráðuneytið látið hafa eftirlit með öllum loftskeytum, látið stöðva þau skeyti, sem að þess áliti geta verið skaðleg velferð landsins.“

Hvað sýna nú þessi lagafyrirmæli og þessi reglugerðarákvæði, sem ég hefi lesið? Þau sýna það fyrst og fremst, að ráðh. hefir alla tíð getað sett skilyrði fyrir því, hvort starfrækja mætti loftskeytastöðvar í íslenzkum skipum, og ef hann hefði haft grun um, að slíkar stöðvar væru misnotaðar, þá gat hann bannað þær. Þessi löggjöf sýnir það þannig skýrt og ákveðið, að sá réttur, sem stj. hyggst að ná með frv. þessu, hefir verið í höndum hennar alla tíð frá því, er hún tók við völdum. Vegna hins sífellda ruglings hæstv. ráðh. á þessum hlutum, þá vil ég upplýsa hann um það, að hér er aðeins átt við loftskeyti. Það er því alveg út í hött hjá honum, þegar hann fer að halda því fram, að þetta nái einnig til skeyta almennt. Út af þessu vil ég því spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé satt, sem fullyrt hefir verið, að stj. hafi látið skoða almenn verzlunarskeyti og haft sérstakan snuðrara til þess. Ég skora á hæstv. ráðh. að svara þessu. Eins fráleitt og það er, að stj. hafi heimild til þess að láta skoða almenn verzlunarskeyti, eins fráleitt er það, að hún hafi rétt til þess að láta hlera á símtöl manna.

Þá sagði hæstv. ráðh., að frv. þetta veri svipað frv. því, sem lagt var fyrir þingið 1928 Og nefnt hefir verið ömmufrumvarpið. Þessi skoðun hefir komið fram í blöðum Framsfl. og sömuleiðis verið haldið allmjög á lofti af læriföður hæstv. forsrh., þm. S.-Þ. En sannleikurinn er sá, að frv. þetta er mjög óskylt, því að ömmufrv. frá 1928 beindist eingöngu gegn íslenzkum veiðiskipum, og ákvæðum þess var ekki ætlað að ná til skeytasendinga til erlendra skipa. Það skipti engu máli að dómi þeirra manna, sem það frv. fluttu, þó að allskonar skeytasendingar færu fram á milli erlendra togara og lands. Og skal ég þessu til sönnunar lesa upp nokkur atriði úr þessu fræga frv. 2. gr. frv. hljóðar svo:

„Hver útgerðarmaður eða forstjóri útgerðarfélags á Íslandi, sem hefir skip með loftskeytatækjum við veiðar hér við land, skal skyldur að láta dómsmálaráðuneytinu í té lykil að hverju því dulmáli, sem notað kann að vera í skeytasendingum milli útgerðarinnar og veiðiskipa hér við land eða milli íslenzkra veiðiskipa innbyrðis.“

Hér er eingöngu átt við íslenzka menn. Þá segir svo í 3. gr.:

„Hver loftskeytastöð á Íslandi og hvert íslenzkt veiðiskip, sem hefir loftskeytatæki, skulu hafa frá dómsmálaráðuneytinu sérstök eyðublöð til skeytasendinga vegna veiðiskipa.“ Og ennfremur segir svo:

Hvert loftskeyti, til eða frá íslenzkum veiðiskipum, skal frumritað á slíkt eyðublað.“

Þá segir svo í 5. gr.:

.„Nú sannast, eða leikur mjög sterkur grunur á, að útgerðarmaður hér á landi eða skipstjóri á veiðiskipi hafi misnotað loftskeyti í þeim tilgangi að fremja eða dylja landhelgisbrot o. s. frv.“

Hér er eingöngu átt við útgerðarmenn hér á landi og íslenzka skipstjóra, hvergi minnzt á erlenda skipstjóra. Grg. frv. segir og alveg hið sama. Hún byrjar svo:

„Frá því íslenzk botnvörpuskip tóku að stunda veiðar hér við land hefir það verið alkunnugt, að sum þeirra hafa veitt mikið í landhelgi. Og eftir að loftskeytastöðvar voru reistar og botnvörpungar fengu loftskeytatæki, hefir sterkur grunur leikið á því, að einstök útgerðarfyrirtæki stjórnuðu landhelgisbrotum úr landi.“

Svo er róginum haldið áfram um fjöldamörg ár í blöðum Framsfl. og alltaf eingöngu talað um íslenzka menn. Ég vil því vekja athygli á því, að þó að frv. þetta hefði náð fram að ganga, þá hefðu njósnir fyrir erlend veiðiskip ekki fallið undir ákvæði þess.

Það liggur nú beint við að spyrja, hvers vegna hv. þm. S.-Þ. hafi ekki, á meðan hann var ráðh., sett ákveðin skilyrði fyrir því, að skip mættu nota loftskeytastöðvar, og hvers vegna hann hafi ekki látið stöðva skeyti, sem honum þóttu grunsamleg. Svarið liggur beint við. Hann gerði það ekki, af því að hann vildi alltaf geta notað þetta, í pólitískum tilgangi og haft þessi mál til þess að reyna að svívirða andstæðinga sína með.

Eitt var það í ræðu hæstv. forsrh., að hann sagði, að rignt hefði niður grunsamlegum skeytum. En því notaði hann þá ekki þann rétt, sem hann hefir jafnan haft til þess að stöðva slík skeyti?

Afstaða okkar sjálfstæðismanna er hrein í þessu máli. Við höfum bent ráðh. á þann rétt, sem hann hefir haft í þessu máli alla tíð frá því, að hann tók við völdum. Að við erum með þessu frv. nú, er sakir þess, að við treystum honum ekki til þess að nota þennan rétt, nema hann fái ákveðna nýja áminningu um það frá Alþingi. Ég mun alls ekki undir þessum umr. fara að svara öllum þeim firrum, sem ráðh. leyfði sér að fara með í ræðu sinni áðan. Það bíður síns tíma. Enda lít ég svo á, að misbeiting stjórnarvaldanna með notkun símans eigi ekkert skylt við mál það, sem hér á að vera til umr. nú.