28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

64. mál, ólöglegar fiskveiðar

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Mér skildist, að hv. 3. þm. Reykv. væri að finna að því, að stj. hefði getið út tilkynningu í útvarpið og tekið þar sérstaklega fram, að fyrirspurnin um hlustun í síma hefði komið fram undir 3. umr. þessa máls, og að stj. hefði blandað þessum tveimur málum saman, þ. e. a. s. dregið þetta mál inn í fyrirspurnina og aðfinnslur þær, sem fram hafa komið út af símamálinu. Það er þó vitað mál, að fyrirspurnin um þá hlustun, sem lögreglustjóri hefir látið gera eftir úrskurði. kom einmitt fram undir 3. umr. þessa máls, eins og tekið var fram í tilkynningunni.

Það dylst sennilega ekki mörgum, a. m. k. kom það greinilega fram hjá hv. 5. þm. Reykv., sem spurði um þetta, að þessi tvö mál standa í órjúfandi sambandi. Ádeilur þær, sem komið hafa á stj. fyrir það, að lögreglustjórinn í Rvík hefir kveðið upp úrskurði um að rannsaka mál á tiltekinn hátt, mundu vitanlega aldrei hafa komið fram, ef ekki væri talsvert ríkjandi gremja yfir, að þetta afbrot hefir orðið uppvíst, en það eru eingöngu þau mál, sem stj. á að svara fyrir, eins og ég veit, að hv. þm. er nú orðið ljóst.

Mér virðist, að hv. 3. þm. Reykv. hafi líka gleymt því, að þegar var verið að ræða þetta mál hér, þá kom fram sú skoðun hjá hv. 5. þm. Reykv., að skoðun á loftskeytum, sem eru eins og hann komst að orði, símtöl á milli heimila á sjónum og í landi, væri í raun og veru hliðstæð hlustun í síma. Þessi ummæli, sem voru sögð í aðfinnslutón, mega til sanns vegar færast, því að loftskeytin eru einkamálefni, sem fara á milli þessara fjölmennu heimila á sjónum og þeirra mörgu heimila, sem þeir, sem á skipunum eru, hafa samband við í landi. Og þó að ekki kæmu fram frekari aðfinnslur út af þessari loftskeytaskoðun heldur en raun hefir á orðið, þá er það vitanlega eingöngu fyrir það, að þessi skoðun á loftskeytum sýnir, að bak við loftskeytaleyndina hefir vaxið upp einhver ógeðslegasti hópur afbrotamanna, sem þekkzt hefir í þessu landi, og það er ástæðan til þess, að enginn leyfir sér að finna að því, að flett var ofan af þeim. Almenningsálitið er þar of mikið á móti, til að menn þori það. En þá er reynt að finna eitthvað annað upp til þess að reyna að þyrla upp ryki og þá tekið það ráð að deila á lögreglustjóra og gerðir hans, sem eru óviðkomandi ríkisvaldinu, eins og margsinnis hefir verið bent á.

Því er haldið fram af þessum hv. þm., að næg heimild hafi verið til að skoða þessi skeyti og þess vegna hafi ekki þurft að setja ný lög. Hann segir jafnframt, að ég hafi álitið þessa heimild svo víðtæka, að mér hafi óað við henni. Ég hefi bent á, að sú dagskrá, sem tveir þm. Sjálfstfl. hafa borið fram hér á þingi, er rökstudd með því, að þessi heimild sé mjög víðtæk, og bréf fyrrv. landssímastjóra, sem hann skrifaði dómsmálaráðuneytinu 1931, rökstyður það á sama hátt. Ég hefi sagt það áður og get sagt það enn, að ég álít, að samkvæmt l. nr. 82 frá 1917 og reglugerðinni nr. 32 frá 1918 þurfi, þrátt fyrir þennan rökstuðning, sem sjálfstæðismenn hafa haldið fram, rökstuddur grunur að liggja fyrir misnotkun skeytanna, til þess að heimilt sé að láta rannsaka þau. Og það var einmitt vegna þess, að látin var fara fram ýtarleg rannsókn, sem ég hefi lýst hér áður og þarf ekki að endurtaka, ýtarleg rannsókn, sem leiddi sterkar líkur að því, að loftskeytin væru misnotuð. og það var það, að þegar varðskipin fóru úr höfn, eins og t. d. „Ægir“, þegar hann hafði kannske verið hér lengi vegna viðgerðar, þá sýndi það sig, að loftskeytin voru send í tugatali til togara. Og eftir að við höfðum safnað ýtarlegum skýrslum um það, hvernig loftskeytin voru send út um leið og skipin lögðu úr höfn, þá taldi ég mér heimilt að láta stöðva þessi skeyti og spyrjast fyrir um það, til hvers þessi skeyti væru send, þegar varðskipin hreyfðu sig úr höfn.

Lykillinn, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist hér á og talað hefir verið um í skröksögu í “Vísi“, hann komst ekki í hendur dómsmálaráðuneytisins fyrr en um leið og skilað var skýrslunum um þetta atriði. Annar þeirra manna, sem skipaður var til að framkvæma þessa athugun, Guðjón Tómasson, — um leið og hann sendi athuganirnar um hvernig loftskeytin hefðu verið send, þegar varðskipin fóru úr höfn, þá sendi hann þennan lykil, sem hann taldi, að gæti vel verið lausn á þessu safni, sem hann hafði aflað, og gerði líkur fyrir, að loftskeytin hefðu verið misnotuð. Á þennan hátt hefir þessi rannsókn fengizt, þannig að lykillinn kemur ekki til stjórnarráðsins fyrr en þessir menn, Guðjón Tómasson og Guðmundur Pétursson, eru búnir að skoða talsvert mikið af skeytunum og komast fyrir, að þau eru send á sama tíma og hin. Þau voru vitanlega lokuð fyrir þeim, og jafnframt sendu þeir þennan lykil. En það voru nokkur af varðskipunum, sem framkvæmdu undirbúningsrannsóknina, án þess að við vissum um þennan lykil, sem svo oft hefir verið talað um í þessu sambandi. Síðan voru kveðnir upp úrskurðir hjá lögreglustjóra um víðtækari skoðun en þá hafði fram farið á þessum sérstöku skeytum. Svona er rannsóknin fram komin. Og einmitt vegna þess að ég tel tvímælalaust, að það hafi ekki verið heimilt að láta skoða þessi skeyti, nema fyrst væri aflað sannana eða sterkar líkur leiddar að því, að loftskeytin væru misnotuð, einmitt vegna þess var þörf að setja bráðabirgðalög og þörf að setja l. um stöðugt eftirlit með loftskeytum til þess að koma í veg fyrir misnotkun, því að samkv. gömlu l. er hægt að senda út þessi skeyti án þess að heimilt sé, eða a. m. k. mjög vafasamt, hvort er heimilt að setja á stöðugt eftirlit. Það er munurinn á þessum tvennum ákvæðum. Samkv. þeim ákvæðum, sem nú á að setja í lög, á að hafa ýtarlegt eftirlit með loftskeytum, en samkv. þeim ákvæðum, sem áður voru fyrir hendi, mátti skoða skeytin, ef grunur lá fyrir, að þau væru misnotuð, eftir að þau höfðu verið misnotuð. Öll ákvæðin, sem eru í þeim l. og í reglugerðinni, eru um það, að banna megi að senda loftskeyti aðeins undir vissum skilyrðum. Sá grundvöllur er því ekki nærri því eins öruggur og sá, sem lagður er með þessum lögum.

Ég vil í þessu sambandi spyrja um tvennt. Ef þessi ákvæði, sem felast í þeim l. sem hér á að setja, eru óþörf og það er rétt, sem andstæðingarnir hafa haldið fram alltaf síðan 1928, — hvers vegna greiða þeir þá atkv. með þessu frv. nú? Hvers vegna greiða þeir nú atkv. með að setja nýja löggjöf um þetta efni, þegar þeir hafa alltaf á fyrri þingum barizt á móti að setja slík l. og afgr. málið með dagskrá, sem var rökstudd með tilvísun til reglugerðarinnar nr. 32 frá 1918 og l. nr. 82 frá 1917, og sagt, að heimild um þetta væri fyrir hendi og því þyrfti engin ný l. að setja? Ef rétt var að gera þetta þá, hvers vegna er þá ekki eins rétt að gera það nú með sömu rökum og undanfarin ár? Hvers vegna eru þeir snúnir í þessu máli? Ef heimildirnar voru nægilegar á undanförnum árum, — hvers vegna eru þær það ekki eins nú?

Svo er annað, sem er athyglisvert og einkennilegt, sérstaklega þegar sjálfstæðismenn þykjast vera að deila á stj. fyrir, að hún hefði ekki komið þessum brotum upp nógu fljótt, ekki gert það fyrstu dagana eftir að hún tók við. En við töldum heimildina til að opna skeytin miklu vafasamari en andstæðingarnir gerðu. Og þá má spyrja annarar spurningar: Hvers vegna sat Magnús Guðmundsson sem dómsmrh. í tvö ár, maður úr flokki, sem taldi heimildina jafnvafalausa, — hvers vegna sat hann sem dómsmrh. í tvö ár án þess að nota þessa vafalausu heimild? Hvers vegna var Ólafur Thors, sem þykist hafa svo mikinn áhuga fyrir landhelgismálum, — hvers vegna sat hann sem dómsmrh. einn mánuð eða ½ mánuð án þess að nota þessa heimild. sem hann taldi svo skýlausa, að hann samþ. rökstudda dagskrá um, að til væri ótakmörkuð heimild til slíkrar rannsóknar? Hvers vegna gleymdi hann að nota þá heimild? (GÞ: Hvers vegna gleymdi Jónas því í 4 ár?). Ég vil minna þennan hv. þm. á það, sem ég sagði í upphafi máls míns og hann hlýtur að hafa heyrt, ef hann hefir ekki sofið, að við töldum þessa heimild ekki jafnvafalausa og þessir hv. sjálfstæðismenn, sem samþ. rökstudda dagskrá, þar sem þeir lýstu því yfir, að þessi heimild væri vafalaus. En fyrst hún var vafalaus, — hvers vegna notuðu þeir hana ekki? Nei, vitanlega vildu þeir ekki, að bráðabirgðalögin væru sett eða þetta frv. samþ., ef þeir væru ekki búnir að sjá, að heimildin, sem til hefir verið, er ekki nægilega vafalaus og sterk til þess, að henni væri treystandi. Og svo neyðast þeir til vegna almenningsálitsins að samþ. ákvæði, sem fyrirbyggja þetta. Og ástæðan til þess, að þessir tveir ráðh. hafa ekki látið skoða þessi skeyti, liggur svo í augum uppi og er svo mikið í vitund hvers hv. þm. í þessari d. og hvers mannsbarns á þessu landi, að það þarf ekki að svara þessari spurningu.

Það er ekki rétt, að stj. hafi farið fram á neinar þakkir fyrir, að hún hefir upplýst þetta mál, en hún hefir samt sem áður fengið þakkir víðsvegar af landinu og þar á meðal einróma þakkir úr kjördæmum stjórnarandstæðinga. En við lítum svo á, að stj. eigi engar þakkir skilið fyrir þetta, því að hún hefir aðeins gert það, sem henni var skylt, að leita þeirra sannana, sem gerðu mögulegt og leyfilegt að láta skoða skeytin. Og þegar næg gögn voru fengin, þá datt mér ekki annað í hug en að nota þessa heimild, sem sjálfstæðismenn voru sífellt að vitna til. Hv. þm. S.-Þ., sem var ráðh. á undan mér, taldi þá heimild aftur á móti vafasama. En þó að stj. eigi engar þakkir skilið fyrir sínar aðgerðir, þá eiga þeir menn, sem töldu heimildina skýlausa, en notuðu hana aldrei, skilið ævarandi skömm og óþökk alþjóðar fyrir að hafa ekki notað þá heimild, eftir að hafa lýst því yfir, að þeir teldu sig hafa greiðan aðgang að því að skoða þessi skeyti.

Ég held, að þetta skeytamál og njósnir viðvíkjandi því, sé svo upplýst mál, að óþarfi sé að eyða að því miklu fleiri orðum en gert hefir verið utan veggja Alþingis, bæði á fundum og í blöðum. En eitt er víst, að þegar verið er að dæma um þessa heimild í l. frá 1917 og teygja orðalag bæði reglugerðarinnar og l., — svo mikið er víst, að þeir menn, sem framið hafa þau afbrot, sem nú eru komin upp, þeir hafa haft á tilfinningunni samkv. þeim umr., sem fram hafa farið um þessi mál, að lögbrotin væru þeim sæmilega örugg, því að annars hefðu þeir aldrei árætt að fremja þau. Það er sá mikli ávinningur, að nú vita allir, að loftskeytamennirnir eru ekki lengur öruggir um að fremja þessi afbrot, vegna þess að lítið er eftir þeim. Því fylgja andstæðingarnir þessu máli nú, sem þeir hafa vísað frá þrisvar sinnum áður.