07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1937

*Pétur Magnússon:

Ég á 3 brtt. á þskj. 547, sem ég vil leyfa mér að gera grein fyrir með fáum orðum.

1. brtt. mín er við I4. gr., XXVI, nýr liður, að til íþróttaskólans á Sauðhúsvelli undir Eyjafjöllum verði veittur 1000 kr. byggingarstyrkur. Þessu er þannig farið, að undir Eyjafjöllum hefir starfað ungmennafélag, sem heitir Trausti, nú í 13 ár. 1927 kom það sér upp húsi á Sauðhúsvelli undir Eyjafjöllum, 10x11 áln. að stærð, og síðan 1930 hefir það starfrækt og kostað 3 íþróttanámskeið og á hverju ári hefir verið kennd þar glíma, sund og leikfimi. En það hefir komið í ljós, sem við var að búast, að þetta hús er ófullnægjandi fyrir þá starfsemi, sem félagið hugsar sér að reka þarna og vill það því ráðast í að bæta nokkuð við þetta hús, sem er þarna. En þetta eru, eins og gefur að skilja. efnalitlir menn, og þeir treysta sér naumast til að reisa þessa viðbótarbyggingu, nema þeir geti fengið styrk einhversstaðar að. Ef þeir geta komið húsinu upp ætla þeir sér að reka þar áfram íþróttaskóla, og auk þess er í ráði að hafa þar vefnaðarnámskeið og ef til vill kennslu í fleiri iðngreinum. Innan félagsins hefir verið mjög mikill áhugi fyrir þessu, og er óhætt að fullyrða, að þessi starfsemi hefir borið talsverðan árangur, og hann mjög heppilegan. Ég hefi fyrir framan mig ummæli sambandsstjóra ungamennafélaganna, sem mælir mjög eindregið með því, að félaginn verði veittur einhver styrkur til þessarar starfsemi. Hann segir svo í erindi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Allmörg ár hefir ungmennafélagið Trausti undir Eyjafjöllum haldið uppi mjög merkilegri kennslustarfsemi í íþróttum. Hefir félagið árlega haft námskeið, venjulega þrjú, í almennum íþróttum og sundi við mikla þátttöku og mjög góðan árangur, eftir því, sem séð verður. Er félagið eitt þeirra ungmennafélaga landsins, sem allra mest gera að íþróttafræðslu fyrir æskulýðinn. Enda hefir félag þetta á að skipa áhugasömum dugnaðarmönnum og hefir innan sinna vébanda góða kennslukraft í íþróttum og fleira.

Ég er ekki í vafa um, að það mundi hafa stórmikla þýðingu fyrir hina fjölmennu Eyjafjallasveit, ef félaginu gæti tekizt að bæta aðstöðu sína til kennslu með því að koma upp heimavistarhúsnæði við samkomu- og íþróttahús sitt.“

Þetta eru ummæli sambandsstjóra ungmennafélaganna. Þegar tekið er tillit til þess, að fátækt félag hefir alveg fyrir eiginn reikning kostað þarna íþróttanámskeið í allmörg ár, og mörg á ári, þá virðist eftir því, sem ríkissjóður hefir hagað sér gagnvart öðrum félagsskap, þar sem líkt hefir staðið á, ekki ósanngjarnt, að félaginu yrði veittur þessi litli styrkir, sem farið er fram á í brtt. Ég geri ráð fyrir, að treysta megi því, að ef þessi styrkur yrði veittur, mundi þessi viðbótarbygging komast upp, því að það á að koma henni upp að mestu leyti með frjálsum framlögum. Nú eru í félaginu 65 ungir menn og konur, og allar líkur benda til þess, að því fé, sem til þessa gengi, væri vel varið.

Þá hefi ég einnig lyft mér að bera fram brtt. við 16. gr. 4., um að fjárveitingin til sandgræðslu verði hækkuð úr 27000 kr. upp í 33000, og þessum 6000 kr. verði varið til sandgræðslu á Hólabæjum í Vestur-Landeyjum. Svo stendur þarna á, að þegar Þverárfarvegirnir gömlu þornuðu upp eftir fyrirhleðsluna þar eystra, hófst talsvert sandfok, sem hefir farið vaxandi ár frá ári. Sérstaklega fór það síðasta vetur að verða ákaflega áberandi í þeim norðanstormum, sem blésu þá lengst af. Má heita fyrirsjáanlegt, að ef ekkert verður að gert, þá vofi þarna bráð hætta yfir allmörgum blómlegum býlum, sérstaklega 4 jörðum, hinum svonefndu Hólabæjum, sem eru blómlegar jarðir, en þarna hagar svo til, að það land, sem sandurinn fýkur á nú og er í mestri hættu, eru tún og engjar. Má þess vegna búast við, að ekki liði á löngu, þangað til svo gæfi farið, að þessar jarðir legðust í eyði. Undanfarin ár hefir verið stefnt að því að koma upp nýjum býlum, og það hefir einmitt verið rætt um að skipta einni af þessum jörðum í tvennt og stofna nýbýli, og það er í ráði ennþá, ef landspell verða ekki þarna því meiri. Og þá býst ég við, að ekki þyki skynsamlegt að láta afskiptalaust, að þessi blómlegu býli fari í auðn vegna sandfoks. Víða á landinu er verið að reyna að græða upp örfoka svæði, sem orðin eru gróðurlaus, en það sýnist ekki síður vera ástæða til að varna því, að blómlegar byggðir fari í auðn vegna sandfoks, en að græða upp land, sem orðið er lítils virði. Það mundi sjáanlega ekki líða langur tími þangað til hefjast yrði handa með sandgræðslu á þessu svæði, en það er augljóst, að því lengur sem það er látið dragast, því kostnaðarsamara verður það. Ég hefi oftar en einn sinni átt tal um þetta við sandgræðslustjórann, Gunnlaug Kristmundsson, sem leggur mjög eindregið til að hefjast nú þegar handa til að hefta sandfok á þessum stað og fá nú fé veitt til þess á fjárl. Ég ætla, að hann hafi átt tal um það við hv. fjvn., og mun hv. frsm. hennar kannast við, að sandgræðslustjóri er þessu eindregið meðmæltur. Ég skal geta þess, að sandgræðslustjóri segir, að það sé kannske ekki útilokað, að hægt væri að hefjast handa, ef veittar væru 5000kr., en taldi þó, að það væri ekki fullnægjandi, og ekki mundi duga minna en 6000 kr. frá ríkinu til þess, að hægt væri að gera það, sem nauðsynlegt er, þegar í stað.

Ég vil mælast til þess, að hv. þm., sem heyra að vísu ekki orð mín, vildu athuga þetta mál alvarlega, og vil ég í lengstu lög vona, að fjvn. leggist ekki á móti þessari till., þó að hún hafi ekki treyst sér til að bera till. þess efnis fram. Ég held að það sé mjög léleg hagsýni að draga þetta á langinn. Ég held, að það sé miklu skynsamlegra að leggja þetta fé fram strax en að láta það bíða og neyðast svo til að verja síðar miklu meira té í þessu skyni, því að að því kemur, ef ekkert verður gert nú að það verður að verja meira fé til að varna því, að þessar 4 glæsilegu jarðir fari í auðn.

Þriðja brtt., sem ég hefi flutt, er við 18. gr. og er þess efnis, að við eftirlaun Björgvins Vigfússonar sýslumann, verði bætt 1500 kr., en til vara 1000 kr. Björgvin sýslumaður er sem kunnugt er orðinn gamall embættismaður, svo gamall, að hann er einn þeirra manna, sem láta verða af embætti vegna laganna um hámarksaldur embættismanna, enda þótt bæði líkams- og sálarkraftar hans séu enn í bezta lagi, svo að hann gæti þeirra hluta vegna gegnt embætti sínu um nokkurt skeið ennþá. Eftirlaun Björgvins, sem honum ber að lögum, eru 2300 kr. — Þegar rætt var á þinginu 1935 um lögin um hámarksaldur embættismanna, féllu orð hjá hæstv. forsrh. á þá leið, að ekki myndi verða komizt hjá því, að ríkið styrkti eitthvað suma þá embættismenn, sem vegna þessara laga yrðu að láta af embætti, að minnsta kosti þangað til lífeyrissjóður embættismanna gæti séð fyrir þeim að fullu. Vegna þessara ummæla hæstv. ráðh. vænti ég, að hann líti með velvilja á þessa till. mína, því að það er nú svo með Björgvin sýslumann, að hann er fátækur maður, og 2300 kr. myndu því ekki duga honum til framfærslu, og það jafnvel þó að hann settist að fyrir austan.

Eins og kunnugt er, þá hefir raunin orðið sú, að margir þeirra embættismanna, sem hafa orðið að láta af embætti sökum aldurshámarkslaganna, hafa fengið að halda fullum launum, en hér er ekki farið fram á það, heldur aðeins að eftirlaun þessa embættismanns verði hækkuð um 1000–1500 kr., og er sú krafa byggð á því, að Björgvin treystir sér ekki til að lifa á minna en 300 kr. á mánuði. Það skal fjarri mér að fara að gefa mannlýsingu á Björgvin sýslumanni, en þess má þó geta, að hann hefir alla tíð unnað héraði sínu, og munu allir, sem til þekkja, á einu máli um það, að hann hafi unnið því mikið gagn. Það væri því kaldranalegur viðskilnaður við slíkan embættismann, ef honum væri eftir sinn langa og trúa þjónnstutíma í þágu hins opinbera kastað út á gaddinn með svo lítinn lífeyri, að hann gæti ekki lifað af honum. En til þess vona ég að ekki þurfi að koma, því að ég vænti þess, að hv. þm. líti á þessa till. mína með velvilja eins og ég vonaað einnig verði gert hvað aðrar brtt. mínar snertir því að ég þykist ekki hafa sýnt þá frekju í fjárbeiðnum hér á Alþingi, að ég geti ekki vænzt góðra undirtekta undir þessar till. mínar.