04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

92. mál, forgangsréttur til embætta

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það er óþarfi að halda hér langa ræðu. Þetta mál hefir fengið afgreiðslu í menntmn. og var samþ. þar ágreiningslaust. — Tildrögin til þessa frv. eru þau, að stúdentar við háskólann skrifuðu háskólaráðinu bréf og fóru fram á það, að kandídötum og meisturum frá heimspekideild háskólans væri veittur forgangsréttur til kennslu í íslenzkri tungu, bókmenntasögu og sögu við alla skóla ríkisins. — Það virðist ekki nema eðlilegt, að þessir menn leggi þetta til. Því að til hvers væru þeir að leggja mikið í kostnað og leggja áherzlu á að mennta sig, ef þeir hefðu svo ekki neina von um það, að þeir gætu að námi loknu látið ljós sitt skína öðrum til gagns? Við lifum á þeim tímum, að það má segja, að varla sé það svið til í þjóðfélaginu, sem ekki er á einhvern hátt bundið sérréttindum. Þá finnst mér það mjög eðlilegt, að þeir menn, sem hér er um að ræða, fái líka sérréttindi.

Ég get bætt því við, að menntmn. lagði það einhuga til, að þetta mál væri samþ. óbreytt eins og það kom frá hv. Nd.