07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1937

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins með fáum orðum fylgja úr hlaði brtt. þeim, sem ég hefi flutt við fjárlögin að þessu sinni, og er þá fyrst að minnast brtt. við 14. gr., þar sem ég fer fram á lítilfjörlegan styrk til iðnaðarmannafélagsins á Akranesi til skólahalds þar. Eins og sjá má á fjárlfrv., þá er þar tekinn upp styrkur til iðnaðarfélaga í öllum kaupstöðum landsins til þess að halda uppi skóla fyrir iðnaðarmenn. En nú er það svo með Akraneskauptún, að það slagar hátt upp í suma kaupstaðina með fólksfjölda, og þar mun jafnvel vera fleira fólk en í tveimur kaupstöðunum a. m. k. Með lögum, sem sett voru á síðasta þingi, var hert mjög á kröfum um aukna þekkingu iðnaðarmanna, til þess að gera þá hlutgengari í starfi sínu, en nú liggur það mjög í hendi iðnaðarmannafélaganna að sjá um möguleikana fyrir þessari auknu þekkingu, og því er það, að sú venja hefir verið upp tekin að styrkja þau til skólahalds.

Nú er það svo, að iðnaðarmannafélagið á Akranesi hefir haldið uppi skóla undanfarin ár fyrir iðnnema þar og verður nú að færa starfsemi sína út í samræmi við kröfur síðasta Alþingis um aukna menntun iðnaðarmanna. Ég fæ því ekki annað séð en að öll sanngirni mæli með því, að iðnaðarmannafélagið á Akranesi fái þennan styrk, þar sem líka að á Akranesi eru fleiri íbúar en í sumum kaupstöðunum, sem þegar hafa fengið þennan styrk.

Þá á ég enn brtt. við 14. gr. þess efnis, að fjárveitingin til stofnkostnaðar héraðsskóla verði hækkuð úr 15 þús. kr. upp í 21 þús. og að hækkunin gangi til Reykholtsskóla. Ástæðan fyrir því, að ég ber till. þessa fram, er sú, að aðsóknin að Reykholtsskóla hefir verið svo mikil undanfarið, að teknir hafa verið 20–30 fleiri nemendur en rúm hefir verið fyrir í skólahúsinu. Fyrir þetta fólk hefir verið fengið leigt í húsi, sem prestinum er ætlað til íbúðar en nú mun ekki vera hægt að fá þetta húsrúm áfram. Er því ekki annað fyrir hendi en að auka húsrúm skólans eða takmarka aðsóknina að honum um 20–30 manns. Hér er því farin sú leið að leita til Alþingis um helming kostnaðar þess að fá húsrúm yfir þetta fólk, en kostnaðurinn mun allur vera áætlaður 12 þús., og er þessi krafa byggð á lögunum um héraðsskóla, að ríkissjóður greiði ½ stofnkostnaðar þeirra. Þó að fé þetta fengist ekki greitt fyrr en á næsta ári, myndu verða einhver ráð með að bæta úr húsnæðisvandræðunum fyrir næsta skólaár, svo fremi sem það verður tekið upp í fjárlögin nú.

Þá á ég smábrtt. við l6.gr., um að veittur verði 2 þús. kr. til ræktunarvegar á Akranesi. — Eins og kunnugt er, þá hefir að undanförnu verið veitt nokkurt fé til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, og nú liggur fyrir fjárveiting til ræktunarvegar í Flatey. Auk þessa hefir verið veitt fé úr ríkissjóði til hliðstæðra vega, eins og veganna á áveitusvæðinu í Flóanum. Hér er því ekki um neitt nýmæli að ræða. Síðan Akraneskauptún keypti af ríkissjóði prestssetursjörðina Garða, hefir mikið verið unnið þar að ræktun og undirbúningi að ræktun. Landið hefir verið ræst fram og nokkuð lagt af vegum, en ennþá vantar mikið af vegum um þetta land, svo að hægt sé að leigja það út. En sú regla hefir verið höfð, að hreppsfélagið hefir lagt vegina og gert hina stærri skurði, og leigt landið svo út á erfðafestu. Alls er hreppsfélagið búið að leggja í þessa vegi um 8 þús. króna; það er því ekki nema lítill deili af öllum vegagerðarkostnaðinum á þessu svæði sem hér er farið fram á að fá greiddan úr ríkissjóði. vænti ég því að hv. Alþingi sjái að þessi litla fjárveiting, sem hér er farið fram á að fá, sé í fullu samræmi við þann stuðning, sem Alþingi hefir áður veitt til ræktunarvega og til veganna á áveitusvæðinu, og líti því með velvilja og skilningi á þessa till. mína.

Í raun og veru á ég svo ekki fleiri brtt. við fjárlfrv. að þessu sinni, en ég vil víkja nokkrum orðum að brtt., sem hv. 2. þm. Árn. o. fl. flytja við 17. gr., þar sem farið er fram á, að styrkurinn til Stórstúku Íslands verði hækkaður um 6 þús. kr., úr 15 þús. upp í 21 þús., og að af þessari hækkun renni 3500 kr. til sambands bindindisfélaga í skólum landsins. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hvílík nauðsyn það er, að vel sé unnið að bindindismálunum eftir bið mikla drykkjuskaparböl, sem lagzt hefir á þjóðina eftir að bannlögin voru afnumin. Það vita allir, hversu mjög að drykkjuskaparóreglan spillir heimilisfriði manna og liggur sem mara á þjóðfélaginu. Þar sem því að bindindisstarfsemin er sá eini félagsskapur í landinu, sem hefir það á stefnuskrá sinni að vinna á móti þessu mikla þjóðarböli, þá verður þess að vænta, að Alþingi sjái sóma sinn í því að veita þessari starfsemi allan þann styrk, sem verða má. Mun ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, því að ég geri ráð fyrir, að hv. fyrsti flm. geri fulla grein fyrir till.

Þá vildi ég minna á brtt. við 22. gr. frá hv. 5. landsk., þar sem farið er fram á, að verja megi allt að l0 þús. kr. til að undirbúa stofnun drykkjumannahælis. Það er náið samband á milli þessarar till. og till. þeirrar, sem ég var að minnast á. Þörfin fyrir því, að hafizt sé handa um það að koma upp hæli fyrir þá aumingja menn, sem orðið hafa drykkjuskapnum að bráð, er mikil. Og það er þung skylda, sem hvílir á því þjóðfélagi, sem notar vínin sér til framdráttar og byggir aðaltekjuvonir sínar á því, að mikið sé af þeim drukkið, að sjá jafnframt fyrir þeim fórnarlömbum, sem falla í valinn. Ég vil því mæla með því, að Alþingi taki í þessu efni sem öðru afleiðingunum af sínum fyrri gerðum og sjái fyrir þeim borgurum, sem hin sterku vín hafa lagt að velli.

Þá vil ég minnast á eina brtt. frá meiri hl. fjvn., en hún er klausa sú, sem setja á inn við styrkinn til Búnaðarfélags Íslands, þar sem félagið á að afsala sér öllum afskiptum af því, hvaða starfsmenn það hefir í þjónustu sinni, í hendur landbúnaðarráðh. Þetta er í fullu áframhaldi af þeirri löggjöf, sem nú er verið að keyra í gegnum þingið. Með þessu á verkið að vera fullkomnað, það þjóðþrifaverk að gera búnaðarfélagið að undirlægju undir pólitíska stjórn. Það mun nú að vísu svo, að hv. meiri hl. fjvn., sem flutt hefir brtt. þessa, hefir nú séð sig um hönd og tekið hana aftur, en þetta sýnir eigi að síður, hver stefna stjórnarflokkanna er í þessum málum hér á Alþingi, að þeir vilja gera þennan félagsskap alveg óstarfhæfan. Það er sú stefna, sem hv. 2. þm. N.-M. hefir verið að berjast fyrir og hæla sér yfir, að láta alla starfsemi Búnaðarfél. Ísl. fara fram í skrifstofuholu í sambandi við stjórnarráðið og láta stjórna því af pólitískri klíku, og bola frá stjórn þess frjálslyndum bændum, sem líklegir eru til að stjórna því landi og lýð til hagsældar.