23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Guðbrandur Ísberg:

Ég mun ekki ræða einstakar gr. frv. að þessu sinni. Ég get þegar lýst yfir því, að í heild tel ég frv. vera til stórbóta. Það eitt er þegar mikils virði að fá fjölda lagaákvæða samræmd í ein lög. Þá tel ég líka, að umsögn málaflutningsmannafélagsins um frv. sé mikils virði. En mér eru það hinsvegar vonbrigði, að umsögn lagadeildar skuli ekki liggja fyrir, því að ég veit, að þar hefði verið tryggt, að jafnt tillit hefði verið tekið til dómara og málaflutningsmanna. En mér finnst sem í sumum greinum frv. sé gengið nokkuð nærri dómurunum. Frv. eykur þannig mjög störf dómara, einkum í kauptúnum. Þótt það sé annað mál. verður að hafa það í huga, að gera dómurum kleift að framkvæma þessi störf. Ég held, að með núverandi skrifstofufé verði það erfitt eða ómögulegt, sérstaklega fyrir bæjarfógeta, að leysa þessi auknu störf af hendi. Þetta verður þing og stj. að athuga, um leið og þessi lög koma til framkvæmda.

Ég vil að lokum spyrja hv. frsm., hvort ekki sé bráðlega von á umsögn lagadeildar, a. m. k. svo snemma, að hún geti legið fyrir Ed.