07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1937

*Jakob Möller:

Ég á hér tvær brtt., aðra á þskj. 576,l um 1200 kr. til Eggerts Guðmundssonar málara. Ég mæltist til þess, að fjvn. tæki styrkbeiðni þessa til greina, en með tilvísun til breytingar á lögum um menningarsjóð vildi hún ekki taka þetta upp enda þótt á fjárlögunum séu styrkir, sem svipað er ástatt um og þennan. Þá vildi ég í annan stað vekja athygli á því, að maður þessi hefir aldrei fundið náð fyrir augum menntamálaráðs. Ég hygg ekki, að það verði heldur á næstunni, og ég ber yfirleitt ekkert traust til menntamálaráðs í þessu efni. Ég er viss um, að þar ræður hlutdrægni að því, er snertir einstaka listamenn, og sumir þeirra eiga við þau örlög að stríða, að það er sýnilegt, að þeir finna aldrei skilning eða vilja hjá menntamálaráði til þess að styrkja þá til starfa sinna. Ég veit, að hv. þm. er þetta eins vel kunnugt eins og mér, að fenginni reynslu. En hinsvegar hefir það komið í ljós, að meiri hl. hins háa Alþingis hefir stundum gert þann ágreining við þessa forsjón listamanna að veita einstökum listamönnum styrk á fjárlögum, þótt menntamálaráðið hafi synjað þeim um styrk, og þar sem síðasta þing brást svo vel við að veita þessum manni styrk, þá vænti ég að það verði nú á sama hátt við þessari beiðni.

Hin brtt. mín er á þskj. 547,XIV og er um það að veita Guðmundi Arnasyni lítilsháttar styrk til þakhellugerðar. Ég veit, að hv. þm. er það ljóst, að mikil nauðsyn er að koma á slíkri framleiðslu í landinu, því það mundi hafa áhrif á innflutninginn og draga úr þörf fyrir erlendum gjaldeyri, og það er nú talið mjög nauðsynlegt, eins og ástandið er í landinu. Það hafa verið hér sýnishorn af þakhellum, sem þessi maður segist geta framleitt, og eftir þeim dómum, sem um þau hafa fallið frá þeim mönnum, sem skyn bera á, sýnist, að þessar þakhellur geti orðið að góðum notum. Ég geri tvær till. í þessu skyni. Aðaltill. 1000 kr., og til vara 600 kr. og vona ég, að hv. þm. geti fallizt á lægri upphæðina, ef þeir geta ekki fallizt á þá hærri. — Annars er ekki hægt að sjá það í verki, að hið háa Alþingi kinoki sér mjög við auknum útgjöldum. Eftir því sem nú horfir við um afgreiðslu fjárlaganna, er það ekki vafamál, að útgjöldin verða hærri en áður, og höfum við sjálfstæðismenn áður vakið athygli á því og lýst því yfir, að sú afgreiðsla á fjárlögum sé óforsvaranleg, eins og ástandið er nú í landinu. og þótt við höfum tekið þátt í störfum fjvn., þrátt fyrir það þótt meiri hl. hennar hafi ekki viljað fallast á skoðanir okkar, þá vil ég taka það skýrt fram, að við teljum ekki, að við berum neina ábyrgð á afgreiðslu þessara fjárlaga.

Það hefir hér í vertíðarok verið borið fram frv. um að ábyrgjast tveggja millj. kr. lán fyrir landsbankann, og sýnir það í raun og veru, hvílíkt vandræðaástand nú er. Og þetta ástand er öllum viðkomandi, og það er meira heldur en nokkurntíma það, sem þessi ábyrgðarheimild bendir til. Ég hygg, að það sé öllum ljóst, að litlar líkur eru til að þetta geti bjargað afkomu þjóðarbúsins á næsta ári, og það er sýnilegt, að afgreiðsla fjárlaganna verður til þess að auka erfiðleika, sem þó er verið að reyna að bæta úr með ýmiskonar skottulækningum. Ef þingið vildi í raun og veru koma í veg fyrir aðsteðjandi öngþveiti í rekstri þjóðarbúsins, þá hefði að sjálfsögðu átt að haga afgreiðslu fjárlaganna eftir því. Það er augljóst, að því hærri sem útgjöldin eru á fjárlögum, því meiri verður þörfin fyrir erlendan gjaldeyri og því erfiðara með öll viðskipti út á við og þá samninga, sem þjóðin þarf að standa við. Það er hinsvegar augljóst, að hv. meiri hl. lítur öðruvísi á þetta. Hann telur hyggilegt að bjarga ástandinu með því að ausa út sem mestu fé og seilast sem dýpst í vasa landsmanna. Gott það sé að framkvæma eignarnám og stuðli að því, að atvinna landsmanna verði rekin með halla, þá lítur ríkisstjórnin svo á, að það sé bezt, að hún hafi sem mest fé handa á milli og geti varið sem mestu til óþarfa. Slík fjármálastjórn hlýtur að hefna sín fyrr eða síðar, og er á ábyrgð þeirra flokka, sem halda þessari stefnu, þrátt fyrir öll þau teikn og stórmerki, sem þeir hljóta að sjá í þessu efni.