26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Magnús Torfason:

Hv. frsm. þurfti ekki að taka það fram, að ég myndi geta sætt mig við þetta frv., því að ég lýsti því sjálfur yfir og þóttist fara heldur lofsamlegum orðum um það, þótt ég gerði við það einstakar aths.

Ég þarf litlu að svara, en þó vil ég taka það fram, að mér er ekki kunnugt um það, að dómsmrh. hafi til sveita nokkurntíma notað þá heimild, sem hann kann að hafa til þess að ákveða, hvar sýslumaður eigi að sitja, blátt áfram af því að hann hefir ekki getað það. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að við sýslumannaskipti í sveitum verður breyting á bústöðum þeirra. Í Skaftafellssýslu sat sýslumaður að vísu lengi á sömu jörðinni, sem var þjóðjörð, en það stafaði blátt áfram af því, að sýslumaðurinn gat hvergi annarsstaðar fengið jarðnæði, og gengur það líka oft illa t. d. í Árnessýslu. Sýslumaðurinn þar sat á Eyrarbakka í nokkur ár, þangað til hann gat fengið sæmilegt jarðnæði annarsstaðar. Að því er sjálfan mig snertir, þá sit ég á þeim stað í Árnessýslu, sem bezt er til þess fallinn að vera sýslumannssetur, en þangað varð ég að flækjast, af því að ég fékk hvergi inni annarsstaðar og hafði ekki ráð á að byggja sýslumannssetur fyrir 40–50 þús. kr. og eiga svo ekki von á að geta selt það fyrir meira en 10–12 þús. seinna. Sjálfur hefi ég keypt mér hús það, sem ég bý nú í, og þó ég fengi það með vægu verði, þá hefi ég enga von um að geta selt það fyrir sama verð og ég keypti það. Þetta á sjálfsagt að vera uppbót á launakjör sýslumannanna.

Ég fæ nú ekki séð, að bankastjórar hafi yfirleitt þá æfingu í lögfræðingsstörfum, að þeir séu neitt sérstaklega vel fallnir til þess að gegna dómarastörfum. Og hefi ég orð mjög greindra manna fyrir því.

Að því er snertir málskostnað og flutning málflutningsmanna á einföldum málum, þá tók ég það sérstaklega fram, að mér fyndist viðeigandi, að stofnanir og einstakir menn gætu látið þjóna sína reka slík störf fyrir sig, og mér er t. d. kunnugt um það, að landsbankinn hefir gert þetta, og veit ég ekki til þess, að það hafi komið neitt að sök. Hinsvegar hefir búnaðarbankinn ekki gert þetta: þessi banki hefir leitað til málaflutningsmanna með mál, og verður hann að borga fyrir þetta fleiri hundruð króna, og jafnvel á annað þúsund krónur, og hafa málin stundum verið svo vitlaust upp tekin, að bankanum hefir ekki dottið í hug að reyna að hlíta dómnum. Þetta er mín reynsla í þessu efni, og Jón Repp sagði, að reynslan væri ólygnust. Annars er til málsháttur, sem segir, að ef menn fara í mál, þá hafi sá, sem vinnur málið, skyrtu á sér á eftir, en hinn sé skyrtulaus, og þessi gamli málsháttur virðist benda til þess, að það sé ekki svo mikill þjóðarhagur í því að pína fólk til þess að nota málflutningsmenn meira en þörf krefur.

Að því er snertir það atriði að ákveða, hver eigi að standa fyrir mati og stjórna því, þá vil ég benda á það, að í löggjöfinni er til fast ákvæði um það. Ég sé ekki, að það kosti neitt að setja þetta atriði inn í frv., fyrst málinu verður frestað á annað borð. Ég skal taka það fram. að ég mun ekki bera fram brtt. við frv. að öðru leyti. Ég er einn míns liðs hér í d., og það er enginn hægðarleikur fyrir einn mann að afla sér nægilegs liðskostar til þess að koma fram sínum till., og þess vegna hefi ég alltaf haft það lag að benda á það, sem mér hefir þótt ábótavant, og sem betur fer hefir því oftast verið vel tekið og einhverjir úr stærstu flokkum þingsins hafa þá tekið málið að sér og komið því fram.