07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1937

*Magnús Torfason:

Áður en ég kemst að efninu, vil ég biðja hv. þingstóla að leggja vel eyrun að máli mínu. — Ég á hér eina till. þess efnis, að til ófriðunar sels í Ölfusá sé veitt allt að 1000 krónum. Ég skal geta þess, að á nýafstöðnum sýslufundi í Árnessýslu var veittur jafnmikill styrkur til ófriðunar sel, í Ölfusá á þessu ári, en þetta tekur fleiri ár en eitt, og þess vegna kemur þetta svo út, að þetta tillag verður aðeins 1/3 enda stendur í till.: „gegn að minnsta kosti jafnmiklu tillagi annarsstaðar að.“ — Ég skal geta þess, að það er talsvert af sel í ánni, og þar eru látur, sem laxveiðaeigendur verða að borga bætur fyrir á sínum tíma með árgjöldum.

Eftir því, sem mér er sagt af kunnugum mönnum, sem unnið hafa að eyðingu sels í Hvítá í Borgarfirði, þá kostar það talsvert fé og enn meiri fyrirhöfn. Ég býst við að hv. þm. viti það að bæði Ölfusá og Hvítá eru miklar laxveiðiár, en hitt mun þeim ekki jafnkunnugt, að upp til fjalla eru mjög fagrar ár til laxveiða á stöng, og af sumum er sagt, að Stóra-Laxá í Árnessýslu muni vera bezta stangarveiðiáin hér á landi, og þar með í þessari álfu. Umsóknir frá útlendingum um að fá leigðar veiðiár eru alltaf að verða fleiri og fleiri og hafa aldrei verið jafnmargar eins og í þetta sinn, og hugsunin með þessari till. er sú, að gera þessar fallegu ár að eftirsóttum laxveiðiám og ekki aðeins þar með að hjálpa þeim bændum, sem þar búa, heldur líka að ýta undir það að ferðamannastraumurinn fari vaxandi.

Ég ætla svo ekki að þeyta með lengri ræðu um þessa litlu till. en vænti, að hv. þm. taki henni vel.