04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég gæti tekið aftur till. mína á þskj. 446 og vil gera það hér með í von um það, að brtt. mín á þskj. 478 nái fram að ganga. Þetta er það, sem ég vil ná, að bæjarfógetar séu ekki undir öllum kringumstæðum skyldir til þess að hafa bæjarþing vikulega, heldur megi það vera hálfsmánaðarlega, ef embættisannir þeirra tálma því, að þeir geti með sæmilegu móti haldið það vikulega. Það er vitanlegt, að bæjarfógetar hafa svo mikið starf með höndum, að þeir blátt áfram komast ekki til þess að halda bæjarþing vikulega. Allir vita, að þeir þurfa oftsinnis að ferðast út um hérað, og fellur þá berjarþing að sjálfsögðu niður. Og það er ekki nauðsynlegt í kaupstöðum utan Rvíkur að hafa bæjarþing oftar en hálfsmánaðarlega. Auðvitað má flýta einkamálum með því að hafa bæjarþing vikulega. En það má telja nægilegt sem aðalreglu að hafa bæjarþing vikulega, með nefndri undantekningu, ef embættisannir hamla. Vitanlega vilja embættismenn koma málum sem fyrst frá, en ein vika getur engum orðið bagaleg í meðferð einkamála.