06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki verða margorður. Hv. 1. landsk. hefir í raun og veru sagt það flest, sem þarf að segja.

Eins og frv. ber með sér, þá er gerður greinarmunur á því, hvort flutningur máls fer fram utan Reykjavíkur eða í Reykjavík, og er það vegna þess, að tekið er tillit til þess, að enn er skortur á löglærðum mönnum utan Reykjavíkur. og þar er þeim mönnum því leyft að flytja mál, sem ekki eru löglærðir.

Ég er á móti þessari brtt., sem borin hefir verið fram um þetta, og hún er í rauninni hvorki fugl né fiskur og aðeins til þess að tryggja einum manni hér í Reykjavík, að hann geti fengið að flytja mál, og hv. þm. Borgf. vill ekki takmarka till. við þennan eina mann, en hann takmarkar hana við þá, sem hafa stundað málflutning áður en lögin öðlast gildi. Mér finnst, að ef þessir hv. þm., vilja í alvöru taka upp hanzkann fyrir þessa ólærðu menn, þá eigi þeir að bera sömu umhyggju fyrir þeim, sem síðar vildu taka upp þessa starfsemi.

Ég sé ekki, hvað sá er betur staddur, sem byrjar t. d. 20. des. 1936, heldur en sá, sem vildi byrja 5. jan. 1937. — Svo er annað atriði, sem sést í till. hv. þm. Mýr., en ekki í till. hv. þm. Borgf., og það er, hvað meint sé með því, að maðurinn hafi stundað lögfræðistörf. Ef till. er orðuð eins og hv. þm. Borgf. óskar, þá hljóðar hún þannig: „eða hafi stundað málaflutningsstörf, áður en lög þessi öðluðust gildi.“ Hvað þarf þá til þess, að telja megi, að bann hafi stundað lögfræðistörf? Þarf hann að hafa haft opna skrifstofu? Hvað á hann að hafa flutt mörg mál? Þarf hann aðeins að hafa flutt mál fyrir sjálfan sig, eða á hann að hafa flutt mál fyrir aðra? Ég veit satt að segja ekkert, við hvað er átt.

Í till. eins og hún er frá hv. þm. Mýr., þá er þetta að því leyti skilgreint, að þess er krafizt, að maðurinn hafi haft opna málflutningsskrifstofu svo svo lengi. Og það er náttúrlega sök sér. Ef þetta er óbundið og miðað er við gildistöku l., þá gætu menn til þess að tryggja sér þennan rétt auglýst fyrir áramótin, að þeir ætluðu að taka að sér málflutning, og ef þeir fengju svo eitt mál til flutnings, þá gætu þeir slegið því föstu, að þeir hefðu stundað málflutning, áður en l. gengu í gildi. En sannleikurinn er sá, að hér er ekki verið að taka rétt af neinum mönnum. Ég held, að það sé yfirleitt ekki á færi ólöglærðra manna að stunda málflutning hér í Reykjavík og hafa upp úr því nokkrar tekjur. Það getur náttúrlega verið, að þeir fái einstaka mál. En ef eitthvað liggur við, þá dettur mönnum ekki í hug að fara til ólöglærðra manna. Það má vera, að ólöglærður maður geti skýrt lögin jafnvel, en það þarf þó ekki að vera, og það er auðvitað minni trygging fyrir því, að svo sé.

En hvernig er þetta annarsstaðar? Annarstaðar er þetta líka takmarkað við málflutningsmannastéttina, og það af ýmsum ástæðum. Það er ekki það, að það sé verið að tryggja þessari stétt einhver forréttindi. Það er verið að vernda frá því, að allskonar menn taki að sér mál, þótt þeir séu alls ekki hæfir til þess, og hafi fé út úr almenningi með því móti. Það er ekki einsdæmi hér í Rvík, að menn gefi sig við slíkum störfum til þess að féfletta fólk, sem ekki er fyllilega ljóst, hvort viðkomandi maður er fær til starfsins eða ekki, og heldur jafnvel að viðkomandi maður sé lögfræðingur, af því að hann auglýsir, að hann hafi þau störf með höndum. Hvernig er það t. d. með hæstarétt? Þar er þetta takmarkað, ekki við málflutningsmannastéttina yfirleitt, heldur aðeins við ákveðinn hóp úr þeirri stétt. Menn geta flutt sín eigin mál í hæstarétti, en ekki tekið að sér mál fyrir aðra. En hver er í raun og veru munurinn á því að flytja mál fyrir undirrétti hér í Reykjavík og fyrir hæstarétti? Það er stigmunur ef til vill. En ég hygg, að þeir, sem þekkja inn í málflutning, álíti, að það sé síður en svo minna komið undir málflutningi í undirrétti en í hæstarétti, vegna þess að allar kröfur og línur eru dregnar í undirréttinum. Fyrir hæstarétt getur mál í raun og veru aldrei komið í annari mynd en það var í í undirréttinum. Það er eins í þessu og öllu öðru, að það er mest undir því komið, að undirstaðan sé rétt fundin. Ef hún er skökk, þá hrynur allt saman. Það er þess vegnu síður en svo, að það sé minni vandi að leggja mál rétt frá byrjun og leggja þau þá rétt fyrir dóm. Það er ekki einsdæmi, að mál tapast í hæstarétti vegna þess, að málið var vitlaust höfðað. Það er ekki einsdæmi, og almenningur eða ólöglærðir menn geta auðvitað ekki haft jafnmikla þekkingu á því að byggja mál upp á réttan hátt. Ef það er talið nauðsynlegt, að í hæstarétti starfi sérstaklega færir menn, þá er ég sannfærður um og veit það af eigin reynslu, að það er síður en svo, að það sé minna undir því komið, að mál séu réttilega lögð fyrir dóm í upphafi. Ólöglærðir menn geta ekki alltaf lagt það niður fyrir sér, hvort einhver gögn eru nægileg til þess að teljast lögfull sönnun eða einungis líkur.

Nú er líka eitt atriði í þessu frv., sem gerir þetta enn nauðsynlegra, og það er, að mál eiga að flytjast munnlega, en ekki skriflega. Það er auðveldara að flytja mál í undirrétti skriflega heldur en munnlega, eða ég geri a. m. k. ráð fyrir því. En það er mikill sparnaður í því að flytja þau munnlega, og málin verða engu síður vel upplýst, ef þau eru flutt munnlega. Það hvílir miklu meira starf á málflutningsmanninum til þess að fá málin réttilega upplýst, ef þau eru flutt munnlega. Hann verður áður en málflutningurinn fer fram, að vera búinn að afla sér allra gagna í málinu, sem hann ætlar að styðja sig við. Þegar málin eru flutt skriflega, þá er reynslan sú, að það verður að toga fram í þessu réttarhaldi þetta skjal, og svo kemur hinn með annað skjal og það er hægt að draga málð mánuðum saman með því að vera að skiptast á skjölum. En eftir þessum nýju l. er skylt að koma með öll gögn á borðið strax.

Svo er eitt atriði í þessu nýja frv., um yfirheyrslur aðilja sjálfra og vitnaleiðslur, sem ég hygg, að sé sá þáttur í málflutningnum, sem er vandasamastur, og það svo, að það er óhætt að segja að það sé ekki nema einstaka lögfræðingar, sem í raun og veru eru færir um að standa vel fyrir vitnaleiðslu. Í stað þess að dómari einn spurði vitnið áður, þá hefir málflutningsmaður rétt til þess að spyrja vitnið sjálfur, svo að það er ljóst, að með þessu nýja frv. er miklu meira lagt á málflutningsmanninn en áður. Dómari á svo strax að málflutningi loknum að kveða upp sinn dóm. Það er ekki eins og áður, þegar lesin voru skjöl svo svo lengi og það leið langur tími, þangað til kveðinn var upp dómur. Nú á að kveða upp dóminn strax að munnlegum málflutningi loknum.

Ég er því sannfærður um, að þó að þessi till. sé borin fram í þeim góða tilgangi að útiloka engan frá atvinnu, þá er mín skoðun sú, að málflutningsmannastéttin sjálf biði engan fjárhagslegan hnekki við það, þó fleirum sé leyft að flytja mál því að reynslan sýnir, að það eru svo fá, og það eingöngu lítilfjörleg mál, sem fara utan við málflutningsmannastéttina í Reykjavík. Hún fær í raun og veru öll mál, sem fyrir rétt eru lögð, þó kannske einhver mál séu undanskilin, sem ekki skipta neinu máli.

Því hefir verið haldið fram, að það sé vegna hagsmuna málflutningsmannastéttarinnar, sem ég og hv. l. landsk. erum á móti till. Við viljum, að frv. sé sjálfu sér samkvæmt að þessu leyti, og það verði gengið þannig frá því, að sem mest öryggi sé fyrir því, að mál séu rétt dæmd, en það fæst frekar, ef sú leið er farin, sem frv. segir til um, og því legg ég á móti till.