06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Jón Pálmason:

Í till. þeirri, sem þeir flytja hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Árn. á þskj. 533, stendur, að þessi undanþága gildi aðeins fyrir þá, sem hafa flutt mál áður og haft opna málflutningsskrifstofu a. m. k. í 10 ár. Ég geri ráð fyrir, að flm. þessarar till. þekki menn, sem þannig er ástatt um, úr því að þeir miða við þetta takmark. En hvers vegna skyldu vera til menn hér í bænum, sem hafa haft opna málflutningsskrifstofu svo lengi? Skyldi það ekki vera fyrir það, að þeir gefa almenningi betri kjör með flutning þeirra mála, sem ekki þarf mjög mikla lögfræðilega þekkingu til þess að flytja? Ég get ekki hugsað mér aðrar ástæður, sem þar liggja til. Ég get ekki skilið, að það þurfi svo sérstaklega mikla málflutningsþekkingu til þess að innheimta skuld, sem er tvímælalaus. Það hafa sagt mér ýmsir menn, bæði hér í Reykjavík og víðar, sem fást við verzlun og annað, að það sé svo dýrt að innheimta smáskuldir með málssókn, að það borgi sig í mörgum tilfellum alls ekki, vegna þess að þó að skuldin innheimtist að fullu, þá fari hún svo að segja öll í málskostnað. Ég verð þess vegna að segja það, að þar sem það er fjöldi mála, sem eru þannig vaxin, að það eru einfaldar innheimtur, þá sé það hart að útiloka með löggjöf, að það megi ekki aðrir fást við það en þeir, sem hafa lögfræðilega þekkingu og eru útskrifaðir lögfræðingar.

Ég finn þess vegna ekki, að nokkuð af því, sem hv. 1. landsk. og hv. 8. landsk. hafa sagt í þessu sambandi, sé þannig vaxið, að það sé eðlilegt að fella þessa till. Þar sem það eru líkur til þess, að það sé almenningi miklu kostnaðarminna að leita til manna, sem gefa sig í það að innheimta slíkar skuldir, þá sé ég ekki, að það sé nein ástæða til þess að gera það dýrara en þörf er á, og ef til vill þess vegna vinna að því með löggjöf, að menn vilji heldur vinna það til að sleplpa skuldakröfum en innheimta þær með málssókn, vegna þess hvað málflutningurinn er dýr.

Ég mun þess vegna greiða atkv. með þessari till., og ég fæ ekki séð, að það séu annað en eigin hagsmunir málflutningsmannastéttarinnar, sem gera það að verkum, að þessir hv. þm. eru á móti þessari till.