06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

12. mál, meðferð einkamála í héraði

*Pétur Ottesen:

Það mátti svo sem búast við því, að þeir hv. 1. landsk. og hv. 8. landsk. mundu nota málfærsluhæfleika sína, sem þeir byggja starf sitt á, til þess að snúa því í villu fyrir mér, sem ég sagði um það, að þetta frv. bæri einkenni sérhagsmuna hjá þeim. Þeir snúa því svo rækilega við, að í stað þess að þeir berjist fyrir sérhagsmunum, þá séu þeir orðnir fullir sjálfsafneitunar gagnvart öllum almenningi. Þeir segja, að samkv. þessu frv. sé lagður svo mikill þungi á þeirra bak, að það lítur út fyrir, að þeir séu blátt áfram orðnir nokkurskonar píslarvottar, eftir að þetta frv. hefir náð samþykki Alþingis og verið fært inn í lögbók ríkisins.

Ég ætla í raun og veru ekki að fara að bæta neinu við það, sem ég sagði út af þessu frv., né draga nokkuð úr því, sem ég sagði um það, að það beri með sér fullkomin merki sérhagsmuna þeirra í þessu efni. Þeir vilja sem mest sitja einir að þessu og útiloka alla aðra frá því að vera þátttakendur í þessu starfi. Þótt ekki þurfi nema að innheimta vesala verzlunarskuld, þá eiga þeir einir að geta setið að því, sem hafa tekið lögfræðipróf, þótt það sé ekki meiri þekkingarraun en það að geta lesið rétt úr þeim tölum, sem skuldin hljóðar upp á.

Hv. 1. landsk. fór að gera samanburð á því, að ef læknar, sem hann vildi kalla skottulækna, og ljósmæður, sem hann kallaði skottuljósmæður –mð öðrum orðum þá kennir hann þetta fólk við alþekkta afturgöngu í þessu landi — fengju leyfi til þess að stunda lækningar eða ljósmóðurstörf. Það væri auðvitað varhugavert að ganga inn á slíkt. En þetta snertir ekkert það, sem ég sagði í þessu efni. Ég benti á það ósamræmi í þessu frv. að heimila ólöglæðum mönnum meðferð mála utan Reykjavíkur, en banna þeim það í Reykjavík. Hv. þm. skaut því að þessu sinni alveg yfir markið með þeirri samlíkingu, sem hann var með að því er þetta snerti.

Hv. 8. landsk. fann það helzt til foráttu þessari brtt., sem hér liggur fyrir, að honum fannst hún ganga of skammt. Þegar hann er að berjast fyrir því hér, að þessir menn séu útilokaðir, þá byggir hann málflutning sinn á móti till. á því, að það séu of fáir, sem komist undir þetta samkv. till. Þarna er málflutningsmönnunum og þeirra málflutningi rétt lýst, þegar þeir þykjast vera að berjast fyrir hagsmunum almennings í landinu. Þetta er aðeins eitt sýnishorn af þeirra málflutningi, og skal ég ekki fara frekar út í það.

Að því leyti sem hv. 8. landsk. talaði um það, að ekki væru sett takmörk fyrir því samkv. minni brtt. ef hún næði samþ., hvað þessir menn hefðu lengi fengizt við málflutningsstörf áður, eða hvort þeir hefðu haft opna málflutningsskrifstofu, eða hvað mörg mál þeir hefðu flutt, þá vil ég spyrja, hvað sagt sé um þetta viðvíkjandi ólöglærðum mönnum, sem leyfð er þátttaka í þessu utan Reykjavíkur. Það er ekkert sagt um þetta. Það er þess vegna sama máli að gegna um þátttöku ólöglærðra manna í Reykjavík samkv. minni brtt. eins og frv. gerir ráð fyrir um þátttöku þessara manna utan Reykjavíkur. Ef hv. þm. telur þetta galla á minni brtt., hvers vegna hefir hann þá ekki sett undir þennan leka að því er snertir þáttttöku ólöglærðra manna utan Reykjavíkur? En það hefir hann alls ekki gert.

Að öðru leyti skal ég svo ekki fara langt út í þetta. Það er náttúrlega alltaf svo, að þegar einhver flokkur eða stétt manna er að skara eld að sinni köku, þá hjúpa þeir sig í skikkju þekkingarinnar, og úr því vígi berjast þeir alltaf. Það ber auðvitað að viðurkenna þekkingu lögfræðinga eins og þekkingu á öllum öðrum sviðum, En þetta má aðeins ekki fara út í það að vilja útiloka alla aðra menn frá því að nota sína þekkingu í þessu efni. Með slíku er verið að ganga á rétt annara.