08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

40. mál, brúargerðir

*Gísli Guðmundsson:

Ég stend ásamt öðrum nm. samgmn. að þeim brtt., sem hv. frsm. hefir gert grein fyrir, en auk þess hefi ég sérstaklega flutt brtt. á þskj. 2151, sem n. í heild gat ekki fallizt á að taka upp í sínar till., þar sem hún tók aðeins upp þær af till. einstakra þm., sem vegamálastjóri hafði mælt með, og auk þess nokkrar brýr, sem einstakir þm. höfðu ekki gert till. um, en vegamálastjóri taldi rétt, að teknar væru upp, ef breyt. á brúalögunum væru samþ. ná annað borð.

Þessi till., sem ég hefi leyft mér að bera fram. er um brú yfir Sandá neðan þjóðvegar í Öxarfirði, og í umsögn sinni hefir vegamálastjóri látið þau orð falla, að hann teldi mikla þörf á að byggja þessa brú, þó hann hinsvegar — sökum þess að hér á ekki stór byggð hlut að máli —- treysti sér ekki að mæla með því, að hún væri tekin upp. Ég vil þó þrátt fyrir það, að vegamálastjóri treystir sér ekki til að mæla með þessari till. minni, sem ef til vill stafar að einhverju leyti af ókunnugleika norður þar, og þar af leiðandi n. í heild ekki heldur, fara þess á leit, að hv. d. líti með velvilja á þá þörf, sem þarna er fyrir hendi, og taki til yfirvegunar að samþ. till. mína. Það hagar þannig til í Öxarfirði, að þar eru nokkur byggð býli í svokölluðum Sandi. Úr Jökulsá á Fjöllum rennur lítil kvísl, sem Sandá heitir, ofan við þessa bæi og í aðra á, sem Brunná heitir og fellur til sjávar austan Sandsbæjanna. Þessi litla byggð er þannig afskorin frá aðalbyggðinni á alla vegu af vatnsföllum. Yfir sjálfa Jökulsá er yfirleitt ekki fært á þessum stað, nema á ferju, en um Sandá og Brunná er það að segja, að langan tíma ársins geta þær verið þannig, að þær séu alls ekki færar t. d. fyrir sauðfé. Þannig hefir það verið svo þrásinnis á síðustu árum, að þegar vöxtur hefir verið í Jökulsá á Fjöllum, þá hefir verið svo mikið vatn í Sandá og Brunná fram eftir öllu sumri, að bændurnir á Sandsbæjunum hafa ekki með neinu móti getað komið fénu frá sér á afrétt. Þeir hafa verið fjármargir, og hefir það horft til stórvandræða að geta ekki komið fénu úr heimahögum, því landrýmið þarna svarar ekki til fjárfjöldans. Í hitteðfyrra réðust bændurnir seinast í það, þegar komið var langt fram á sumar, að koma fénu yfir Sandá og Brunná upp til afrétta. Höfðu þeir sumparwt til þess ferjur, en sumpart var féð rekið í árnar. Tókst að vísu að koma meginhlutanum yfir, en það fórst margt fé við þetta, þannig að bændurnir urðu fyrir tilfinnanlegum skaða af því, auk þess tjóns, sem það olli þeim, að hafa féð svo lengi í heimahögum. Vegna þessara vandræða hins afskorna hl. sveitarinnar vildi ég leyfa mér að bera fram till. um að taka brú á Sandá eða Brunná upp í brúalögin. Það væri hentugra fyrir byggðina að fá brú á Brunná með tilliti til þjóðvegarins, en hinsvegar telur vegamálastjóri, að ódýrara yrði að brúa Sandá, og menn mundu sætta sig við, að brúin væri byggð á þeim stað.

Ég þykist nú hafa gert grein fyrir, að það liggja til þess fullar ástæður, að þessi till. er fram komin, og ég hygg, að hv. Alþingi hafi oft litið á þörf einstakra byggða, þó litlar séu, sem ekki hefir verið brýnni eða auðsærri en þörf þessara manna á því að fá yfirunninn þennan farartálma.