22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hæstv. fjmrh. hefir að mestu tekið af mér ómakið, svo að það er ekki nema fátt eitt, sem ég sé ástæðu til að minnast á.

Hvað formshlið þessara mála snertir, þá get ég að nokkru leyti verið sammála hv. 1. þm. Reykv. Ég lít svo á, að það sé hin mesta nauðsyn, svo fljótt sem kostur er á, að koma tollalöggjöfinni í fast horf, þannig að ekki þurfi þessar stöðugu framlengingar á hverju einasta þingi. En eins og hæstv-. fjmrh. minntist á, þá hafa síðan þetta fargan byrjaði, oft verið heppilegri tímar til þess heldur en nú, þar sem öll viðskipti og þar af leiðandi fjármálin eru á hverfanda hveli. En um leið og ætla má, að þau mál séu komin í nokkurn veginn fasta rás, tel ég, að þjóðin verði að hefjast handa í þeim efnum. Annars er það, eins og hæstv. fjmrh. drap lítillega á, að það er svo langt frá því, að núv. stjórnarflokkar hafi byrjað á þessu. Það var gamla íhaldsstjórnin frá 1924–1927, sem byrjaði á því að fá tollalöggjöf samþ. fyrir ákveðinn tíma, og framlengja svo frá ári til árs. (MJ: var það aldrei gert áður?). Það kann kannske að hafa verið eitthvað lítilsháttar, en það er víst, að sú stj. lagði drjúgan skerf til þessara vinnubragða.

Af því að ég var töluvert riðinn við þetta mál í fyrra, þar sem ég var að forminu til annar af flm. aðalmálsins, sem innifelst í þessu frv., þá vil ég fyrir mitt leyti alveg mótmæla því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að um loforð hafi verið að ræða af okkar hendi um það, að þetta ætti að gilda aðeins til eins árs. Það kann að vera, að bent hafi verið á það, að l. væru aðeins til eins árs, og að lagt yrði undir úrskurð þingsins, hvort ætti að framlengja þau eða ekki. En ég hygg, að það hafi komið greinilega fram, að ekki hafi verið búizt við því, að l. yrðu afnumin, nema því aðeins, að séð yrði fyrir einhverjum öðrum tekjum í staðinn, eða þá að einhverjum gjöldum yrði létt að ríkissjóði.

Það er að nokkru leyti rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. minntist á, að hátekjuskattur og tekjuskattur yfirleitt er að nokkru leyti tekinn frá sveitar- og bæjarfélögum, — að því leyti, að slík gjöld minnka gjaldþol þegnanna til sveita og bæja. Hið sama má að nokkru leyti segja um öll gjöld til ríkisins. Sú álagning á vörur, sem fram kemur af tollum, verður náttúrlega til þess að draga úr gjaldþoli þegnanna til sveita og bæja. Annars má segja það, að sveitar- og bæjarfélögin eiga nú að fá helminginn af þessum hátekjuskatti, svo ekki er um verulega háar upphæðir að ræða, sem af honum kemur til ríkissjóðs.

Þá sagði hv. þm. það, að stj. og hennar flokkar hefðu staðið eins og veggur fyrir því, að gjöldum væri af létt. Náttúrlega hefir hæstv. ríkisstj. haft á móti því, að tekjustofnar væru afnumdir, meðan ekki er sýnt, að ríkið megi missa þá. En hvað er að aflétta gjöldum? Ég hélt, að undirstaðan undir því, að það væri hægt, væri fyrst og fremst að draga úr þeim útgjöldum, sem á ríkinu hvíla. Og ég hefi ekki orðið var við það, að hv. 1. þm. Reykv. eða hans flokksmenn yfirleitt hafi barizt mikið fyrir því að létta gjöldum af ríkissjóði. Við afgreiðslu síðustu og næstsíðustu fjárl. var það einmitt hans flokkur, sem flutti allverulegar hækkunartill. Að vísu flutti fulltrúi þess flokka nokkrar lækkunartill., en þær voru ekki miklar samanborið við þær hækkunartill., sem fram höfðu komið frá hans flokksmönnum. En það er ekki til neins að afnema einhverja tekjustofna ríkissjóðs, en hafa útgjöldin jafnhá eftir sem áður. Nei, mér finnst — ekki beinlínis út af ræðu hv. 1. þm. Reykv., heldur yfirleitt út af skrafi sjálfstæðismanna, bæði í blöðum og á þingmálafundum, um skattpíningu stjórnarflokkanna og eyðslu þeirra —, að það ættu að koma fram raunverulegar till. frá þessum flokki um að létta gjöldum af ríkissjóði, svo að um munaði. Og þá mætti e. t. v. á eftir bera fram till. um að láta einhverja tekjustofna ríkissjóðs falla niður.