22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Jón Baldvinsson:

Af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, heyrði ég, að samnm. mínn, hv. 1. þm. Reykv., mundi hafa farið út í benzínverkfallið í vetur. Ég skal nú upplýsa þetta mál nokkuð, því að ég er sennilega kunnngri því heldur en nokkur hv. dm. Það voru hér fjögur félög um benzínsöluna, þar af þrír stórir hringar, sem höfðu samband hver við annan og höfðu sameiginlegt verð. En hið rússneska félag hafði flutt inu nokkuð af benzíni undanfarið, og það er ákaflega sennilegt, að það hafi verið í samkomulagi við hina hringana um verðið, þó að það væri einum eyri lægra heldur en hjá þeim. Það mun hafa sýnt sig hjá þessu félagi, að það var ekki vænlegt að keppa við stóru félögin með eyris mun á benzínverðinu, a. m. k. með þeirri aðstöðu, sem það félag hafði með því að verða að flytja inn í tunnum. Félagsmenn voru því orðnir hálfuppgefnir á benzínsölunni, en þeir höfðu verið að tala við gjaldeyrisnefndina um innflutning, og það mun ekki hafa staðið á neinum innflutningi til þeirra, en þeir munu ekki hafa treyst sér til þess að halda uppi samkeppninni með þessum verðmun. En þegar hinsvegar kom fram á þingi síðastl. haust of það vitnaðist, að í vændum væri skattur á benzíni, sem ætti að nema allt að 4 aurum, þá fóru þessir menn að hugsa um að fara nú að flytja inn benzín, með því að þá væri meiri von til, að þeir gætu selt, því að þeir gætu líklega haft meiri verðmun heldur en áður. Þeir töluðu m. a. við mig um þessa hluti, og þeir töldu, að ef skatturinn kæmist á, og þar sem hin félögin höfðu gefið í skyn, að þau mundu hækka verðið, þá mundu þeir geta selt með lægra verði, og taldi ég því sjálfsagt, að þeir fengju innflutningsleyfi, eins og þeir mundu hafa fengið áður, ef þeir hefðu talið sér það hagkvæmt. Í raun og veru var þetta því ekkert í sambandi við bílstjóraverkfallið, heldur eingöngu í sambandi við það, að skatturinn er settur á og hinir olíuhringarnir hækka verðið. Það skapaði möguleikana fyrir hið pólsk-rússneska félag til þess að geta flutt inn benzín, svo að bílstjóraverkfallið kom þessu ekki nokkurn skapaðan hlut við, nema að því leyti, sem bílstjórarnir notuðu sér það, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, sem átyllu til þess að aflétta verkfallinn. Þannig var þessu háttað, að hækkunin hjá olíufélögunnm skapaði þessu pólskrússneska félagi möguleika til þess að geta flutt inn benzín og selt það ódýrara.

Það var löngu byrjað að tala um þessa möguleika áður en bílstjórarnir tóku sína ákvörðun um að gera verkfall. Hitt er vitanlegt, að það hefir hraðað því, að „Nafta“ gæti fengið nokkurnveginn vissa sölu og viðskiptamenn, með því að hafa benzínið ódýrara, að hin olíufélögin voru búin að lýsa yfir, að verðið mundi hækka, og bílstjórarnir voru í þessum ham, sem skiljanlegt var frá þeirra sjónarmiði, þó óvenjulegt sé að gera verkfall um langan tíma vegna löggjafar frá Alþingi. Því má segja, að það hafi ekkert staðið í sambandi við bílstjóraverkfallið, þó veitt væri innflutningsleyfi fyrir pólsk-rússneskt benzín. Mér datt aldrei í hug sem nm. í innflutningsnefnd að minnast á það við ríkisstj., hvort slíkt leyfi ætti að veita. Ég var ákveðinn í því og sagði hverjum, sem um það spurði, að ég mundi verða með því að leyfa innflutning á ódýrara benzíni, ef nokkur hefði tök á að flytja það inn. Það má vel vera, að formaður gjaldeyrisnefndar hafi sagt ríkisstj. frá því, að þessi beiðni kom fram, en það var ekki hið allra minnsta talað um það við mig af ríkisstj. að veita slíkt innflutningsleyfi, og ég veit, að sama er að segja um tvo aðra af nm.

Viðvíkjandi þeirri framlengingu, sem hér er rætt um, á þeim tekjustofnum, sem teknir voru upp í fyrra, tekjuskattinum, benzínskattinum og aðflutningsgjaldinu, skal ég játa það, að það flaug í huga minn í fyrra og ég bjóst hálfpartinn við því, að hægt mundi verða að létta einhverju af þessum gjöldum af þegar á næsta ári. En það vita allir hv. þm., eins og yfirleitt allir landsmenn, að undanfarið hefir verið óvenjulegt erfiðleikaástand, og menn vita, að það er ekki aðeins, að ekkert hafi batnað á þessu ári, heldur hefir ástandið farið stórum versnandi. Það veldur því, að ríkissjóður má ekki við því að fella niður neitt af þeim framkvæmdum, sem hugsaðar hafa verið til þess að bæta upp það tap, sem fólkið verður fyrir vegna þess, hvernig atvinnureksturinn gengur. Þetta óvenjulega ástand ár eftir ár skapar þannig þörfina fyrir þær tekjur, sem hér er um að ræða. Við höfðum satt að segja margir alþýðuflokksmenn gert okkur í hugarlund, að það mætti létta þessum gjöldum af, því maður vonar ávallt, að ekki verði alltaf svo slæmt árferði og nú. En ég tel réttara, að ríkissjóður hafi fé til þess að mæta örðugleikunum og bæta úr atvinnuskortinum, jafnvel þó ég játi, að til þess þurfi að ganga nærri mönnum. Það ræður úrslitum um það, að ég tel réttara að framlengja þessar álögur að svo komnu, meðan það ástand helzt, sem nú er og því miður lítur út fyrir, að verði eitthvað áfram, og meðan annað fyrir- komulag er ekki fundið til þess að ná tekjum í ríkissjóð, sem ég get að vísu hugsað mér, en ekki er til neins að gera till. um, eins og þingið er nú skipað.