22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Áður en ég fer út í að svara þeim þremur hv. þm., sem svarað hafa minni ræðu, ætla ég aðeins að minnast á tvær brtt. frá meiri hl. fjhn. á þskj. 404, sem eru um að setja „allt að“ framan við þær tölur, sem felast í 5. gr. frv., um framlög til ýmsra vega af því fé, sem kemur inn vegna hækkunar benzínskattsins. Þetta eru meinlausar till., getur maður sagt, og sjálfsagt gagnslausar, því vafalaust kemur þetta fé inn. Vil ég í því sambandi taka fram, að ég tel, og vona, að það sé einnig skilningur hv. fjhn., að þetta „allt að“ þyki ekki það, að lagt sé á vald ríkisstj. að veita minna til einstakra vega en þarna er tiltekið, þó að féð komi inn því frá mínu sjónarmiði þarf ekki að efast um, hvernig slík heimild yrði notuð. Það mætti skilja till. þannig, að stj. væri með henni gefið undir fótinn með að setja ekki alla þá upphæð, sem inn kemur, í þessa vegi, og vil ég, að það komi fram, að slíkt sé ekki meiningin. Hinsvegar ætti að vera ákvæði um það, að ef skatturinn hrekkur ekki, þá skuli það, sem á vantar, skiptast jafnt niður á þá vegi, sem þarna eru taldir, þannig að ef t. d. vantaði 20–30 þús. kr., þá geti stj. ekki dregið það allt frá þeim vegum, sem hún af einhverjum ástæðum kann að telja óverðuga til þess að fá þetta fé.

Hæstv. fjmrh. sagði, að með því formi, sem ég var að deila nokkuð á, væri aðeins fylgt þeirri venju, sem verið hefði um framlengingar slíkra skatt, þ. e. a. s. vitnað aðeins til eldri ákvæðanna. Nei, þessari reglu er einmitt ekki fylgt á sama hátt og áður hefir verið gert. Þegar skattar hafa verið framlengdir hingað til, hefir það að vísu aðeins verið gert með tilvitnun, en hver 1. fyrir sig hafa verið framlengd í heilu lagi. Það hefði mátt bera fram eitt frv. um að framlengja þau þrenn 1., sem hér er um að ræða. En 1 þessu frv. eru þau slitin öll í sundur, þannig að einstakar gr. þeirra koma undir mismunandi gr. þess frv., sem hér liggur fyrir. Hvað þetta snertir er fylgt annari venju en verið hefir, bersýnilega í því skyni að láta menn út í frá ekki verða meira en svo vara við, hvað það er, sem verið er að framlengja. Hæstv. ráðh. er að reyna að fela upphæðirnar, sem með þessu er verið að leggja á gjaldendur. Hann hefir upphaflega talið tormerki á að gefa út l. um alla þessa tekjuauka í einum bálki, og af sömu ástæðum mun framlengingunni vera hagað svona. Ég býst við, að hæstv. ríkisstj. mundi óa við því að gefa út ein skattalög, sem fælu í sér þó ekki væri nema þessar allra síðustu skattahækkanir frá síðasta þingi, með þeim upphæðum, sem nú er komið fram, að þessar álögur nema. Það hefði þó verið hreinlegast. En það er e. t. v. gott, að hæstv. stj. skuli vera farin að sjá, að svo langt er komið, að hún verður að reyna að fela þetta sem mest.

Hæstv. ráðh. sagði, að nú væri sérstaklega óheppilegur tími til þess að koma framtíðarskipulagi á skattamálin. Já, ætli það sé ekki hér um bil alltaf svo? Það hefir alltaf verið svo og mun alltaf verða svo, að framtíðin er meira og minna hulin. Hann taldi líklegt, að það mætti síðar draga verulega úr þessum gjöldum, og vonandi væri, að ekki þyrfti lengi að halda sköttunum í þessari háspennu. Ég vil þá spyrja hann, hvaða liðir hann býst sérstaklega við að verði lækkaðir. Ég fæ ekki betur séð en hingað til hafi útgjöldin farið stöðugt hækkandi. Ég er hræddur um að þó maður óski hæstv. ráðh. langra lífdaga, þá muni hann aldrei lifa það, að undir hans stjórn lækki útgjöld ríkissjóðs svo, að hægt verði að létta sköttum af fólkinu.

Það komu mjög saman ræður hæstv. ráðh. og hv. frsm. Báðir vildu halda því fram út af því, sem ég talaði um, hvað það væri óheppilegt að framlengja þannig skatta og tolla frá ári til árs, að á þessu hefði ekki verið byrjað í tíð núv. stj., eða yfirleitt undir stjórn þeirra flokka, sem nú fara með völd, heldur mætti rekja þetta til íhaldsstjórnar. Það er í sjálfu sér gleðilegt, að þegar þessir hv. þm. geta komið einhverju undir stjórn Íhaldsflokksins, þá á það þar með að vera gott og blessað. Ég get ekki annað en þakkað þetta traust til þeirrar stj., að það virðist ekki þurfa annað en vitna til, að þetta og þetta hafi átt sér stað í stjórnartíð Íhaldsflokksins, þá þurfi ekkert um það að deila. En það er ekki rétt, að þetta hafi byrjað í stjórnartíð íhaldsins; það var byrjað áður, og verður líklega alltaf eitthvað til af því, að sett séu á bráðabirgðagjöld til að mæta einhverjum útgjöldum, sem menn vonast eftir, að síðar sé hægt að koma öðruvísi fyrir. Ég man ekki betur en útflutningsgjaldið væri sett á sem bráðabirgðagjald; ég man ekki, hvaða ár, en það er miklu eldra en frá þeim tíma, er Íhaldsflokkurinn tók við völdum, ef ég man rétt. Ég er ekki að finna að því, þó þingið grípi til svona ráða í einstökum tilfellum. Náttúrlega er heppilegast, að það sé þá hægt að standa við að létta þessu af aftur, en það vill nú oft ganga svo, að það er erfiðara að draga saman seglin. Þó byrjaði íhaldsstj,. á sínum stutta valdatíma á því að færa niður þessi gjöld. Því er ómögulegt að neita, að þegar íhaldsstj. tók við, var að því leyti sérkennilegt ástand, að stj., sem verið höfðu við völd á undan henni, höfðu hrúgað upp ákaflega miklu af skuldum, og það lausaskuldum, sem brýn nauðsyn bar til að greiða upp. Var þess vegna eðlilegt, að settur væri á bráðabirgðaskattur, eins og t. d. verðtollurinn, til þess að borga niður þessar skuldir, og hann var notaður til þess, en ekki teknir upp nýjir gjaldaliðir, eins og nú er alltaf gert, þegar bætt er á nýjum álögum. Þegar búið var að borga niður skuldirnar, svo að vaxtabyrðin hafi minnkað um ½ millj., þá var þessi skattur lækkaður. Það er engin ástæða til annars en ætla, að ef þessi flokkur hefði verið áfram við völd, þá hefði hann komið fjárhag ríkisins í það horf, að hægt hefði verið að fella niður að fullu þessa bráðabirgðaskatta. En þetta sýndi reynslan aldrei, því flokkurinn fór frá völdum 1927, og fyrsta verk hinnar nýju stj. var að setja allt upp í hámark aftur. Ég held því, að hæstv. ráðh. og hv. frsm. ættu sízt vegna sinna flokka að brýna íhaldsstj. á þessu. En það, sem ég er hér að deila á, er vitaskuld það, að svo og svo mikill hl. af öllum tekjum ríkissjóðs er nú tekinn með endalausum bráðabirgðaframlengingum. Hér er ekki um að ræða einn bráðabirgðaskatt, heldur er þetta orðin svo óendanleg benda, að mér er óhætt að segja, að hæstv. stj. þorir ekki að gefa út ein skattalög í staðinn fyrir allar þessar framlengingar, af því þjóðinni mundi ofbjóða, ef hún sæi þetta allt fram sett undir einn formi. Það er þægilegra að setja þetta fram í þessari flækju, svo almenningur sjái ekki eins greinilega, hvað um er að ræða, og lofa um leið óbeinlínis, að þetta skuli fara að hverfa, með því að framlengja það aðeins til eins árs í senn.

Þetta er óhæfileg stefna, og ef hæstv. ráðh. ekki gerir bragarbót og tekst að koma skattamálunum upp úr því dæmalausa feni, sem hann öllum öðrum fremur hefir komið þeim í, þá mun sagan telja hann með þeim mönnum, sem orðið hafa þjóðinni til óhappa.

Bæði hæstv. ráðh. og hv. frsm. sögðu, að því hefði alls ekki verið lofað í fyrra, að þessar álögur skyldu aðeins vera til eins árs. Er það þá bara kjaftæði og vísvitandi blekking, þegar verið er að segja í l., að þau séu til eins árs? Ég hefi nú alltaf haldið, að öll löggjöf væri þannig, að eitthvert loforð fælist í því, sem þar er sagt; að ef skattur er ákveðinn í 1. til eins árs, þá fælist í því loforð eða a. m. k. sterk von um, að hann þyrfti ekki að vera nema til eins árs. En nú standa þeir upp, hæstv. ráðh. og hv. frsm., og segja með köldu blóði, að þeim hafi aldrei dottið í hug, að þessir tekjuaukar yrðu ekki nema til eins árs. Hæstv. ráðh. hefði þá átt að taka drengilega þessari vitneskju sinni um það, að ekki yrði hægt að létta þessum álögum af, og vera ekki að blekkja landslýðinn svona. Honum var svo sem bent á þetta í fyrra, hvað heimskulegt væri að halda, að þær yrðu ekki nema til eins árs. Það þarf ekki annað en líta á formálann fyrir einn af þeim frv., sem hér á að framlengja. Þar er sagt, að tekjurnar eigi að nota til þess að greiða sérstök framlög til atvinnuveganna, verklegra framkvæmda, nýbýlamyndunar og alþýðutrygginga. Hverju af þessum útgjöldum hafa menn von um, að hægt verði að létta af eftir eitt ár? Þetta var bara blekking, eins og þegar var bent á. Það er náttúrlega ágætt að standa upp og kross sig eitt árið og koma svo fram næsta ár og segja: Mér datt þetta aldrei í hug. — Ég bendi á þetta sem vott þess, hvað hægt er að reiða sig á þessa herra.

Hv. frsm. fór ofurlítið út í það, sem ég sagði um, hvað stjórnarflokkarnir hafa staðið mikið á móti því, að létt væri nokkrum gjöldum af framleiðslunni, og kom í því sambandi með þau gömlu rök, að það þýddi ekki að létta gjöldum af fólkinu, nema hægt væri að létta útgjöldum af ríkissjóði um leið. Ég vil fyrst benda hv. frsm. á það, að á síðasta þingi fór því svo fjarri, að stjórnarflokkarnir vildu létta nokkru af fólkinu, að þeir þvert á móti stofnuðu til stórkostlegra nýrra gjalda. Það fyrsta, sem manni finnst hægt að heimta af flokki, sem þykist mikill sparnaðarflokkur, er það, að hann noti ekki erfiðleikatímana til þess að auka gjöldin. Það er enginn maður kominn til að segja, að t. d. alþýðutryggingarnar með öllu, sem þeim fylgir, sé mál, sem endilega þurfti að komast fram einmitt á árinu 1935. Og svo er um fleira. Annars skal ég ekki fara mikið út í það, sem svo ákaflega oft er búið að tala um hér, eins og t. d. það, að við stjórnarandstæðingar gerum engar till. um lækkun á fjárlögunum, heldur þvert á móti berum við fram fjölda hækkunartill. Ég held, að allur landslýður hljóti að vera farinn að kunna utan að rökin, sem þessu eru til andsvara. Lækkunartill. minni hl. fjvn. voru allar felldar á síðasta þingi, og við sjálfstæðismenn svívirtir frammi fyrir alþjóð fyrir að bera slíkar till. fram. Í öðru lagi, þegar stjórnarflokkarnir voru ráðnir í að skipta á milli sín og sinna kjördæma stórfé til ýmsra framkvæmda, þá báru okkar menn fram sínar útgjaldatill., ekki til þess að sýna, að þeir vildu auka útgjöldin í heild, heldur til þess að sýna, hvernig þeir teldu, að ætti að verja fénu, sem eyða átti á annað borð. Þegar t. d. stjórnarflokkarnir ákveða að leggja stórfé til einhvers vegar, er ekki nema eðlilegt, að við bendum á þá vegi, sem við teljum eins mikla eða meiri nauðsyn á að veita fé til. Það er ákaflega eftirtektarvert, að á fjárlfrv. í fyrra voru t. d. vegir í Suður-Múlasýslu hækkaðir langmest frá till. vegamálastjóra. Þingið reyndi að vísu að leiðrétta þetta gerræði hæstv. stj. nokkuð, en ekki til fulls. Þó sjálfstæðismenn beri fram útgjaldatill., er ekki meiningin að hækka útgjöldin í heild, heldur að breyt til um, hvernig fénu er varið. (Fjmrh.: Hvers vegna bera þeir þá ekki fram lækkunartill. jafnframt?). Þeir báru fram till. um 600 þús. kr. lækkun í fyrra. Það átti að vera prófsteinn á stjórnarliðið. Ef þeirri till. hefði verið tekið vel, mátti fimmfalda eða tífalda þá upphæð. En þegar fyrsta tilraunin mætir ákveðnum fjandskap frá hv. meiri hl., hvaða ástæða er þá til fyrir minni hl. að halda áfram að gera slíkar till.? Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðh. og hans flokk að slá sjálfan sig þannig á munninn og heimta lækkunartill. frá andstæðingunum. Þeir bara sýna óheilindi sín með því að fella þær og prédika í blöðunum, hvílíkt ógurlegt gerræði það sé, að vilja lækka framlög til svo þarflegra hluta. Síðan standa þeir upp á þingi og segja, að stjórnarandstæðingar geri engar till. til lækkunar.

Ég vil svo aðeins, áður en ég sezt, minnast á það, sem bæði hæstv. ráðh. og hv. 4. landsk. sögðu viðvíkjandi bílstjóraverkfallinu og benzínskattinum. Þó þeir hefðu lesið upp af sömu bók, hefðu þeir ekki getað verið betur sammála um það efni. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri svo fjarri því, að verkfallið hefði áorkað nokkru um benzínlækkunina, og hv. 4. landsk. sagði, að hún stæði ekki í nokkru sambandi við verkfallið. Ég skil svo sem vel, sérstaklega um hv. 4. landsk., að það komi við sáran blett, þegar minnzt er á þetta, svo miklum örðugleikum var það bundið fyrir hann, þennan gamla verkfallsforingja, sem alltaf hefir staðið fremstur í flokki við að espa menn til verkfalla, að standa nú gegn þeim mönnum, sem voru að fara eftir leiðbeiningum hans. Því stóð hann nú upp, þó hæstv. fjmrh. væri áður búinn að taka fram allt sem hann hafði að segja um þetta.

Hæstv. ráðh. sagði, að krafan um verðlækkun hefði ekki komið fram fyrr en langt var liðið á verkfallið. (Fjmrh.: Beiðnin um innflutningsleyfið, sagði ég). Ég skal ekki leggja dóm á, hvað skynsamleg sú krafa var, sem bílstjórarnir gerðu í upphafi. Persónulega fel ég óskynsamlegt að gera verkfall út af lögum, sem samþ. hafa verið af Alþingi, til þess að hindra framkvæmd þeirra eða fá þau afnumin. Það er langt undir virðingu þingsins, hvað mikla vitleysu sem það hefði gert, að láta hóp manna neyða sig til að falla frá samþykktum lögum eða stjórnarframkvæmd. Því var ekki nema eðlilegt, að þegar leið á verkfallið, færu bæði bílstjórarnir og ríkisstj. að leita eftir nýrri leið til þess að leysa málið. Bílstjórunum var ekkert í nöp við þessi 1. af öðru en því, að þau hækkuðu benzínverðið, og vonin um að fá benzínið lækkað aftur, með því að koma skattinum yfir á benzíufélögin, var því eðlilegt tilefni til þess að reyna að fá verkfallinu létt af.

Hæstv. ráðh. sagði sem sagt, að beiðnin um innflutning á „Nafta“-benzíninu hefði ekki komið fram fyrr en langt var liðið á verkfallið, og hv. 4. landsk. sagði, að þetta félag hefði alltaf fengið innflutningsleyfi eftir því, sem það hefði þurft á að halda. Mér kemur þetta undarlega fyrir sjónir, því ég man ekki betur en löngu áður en bílstjóraverkfallið kom til, og löngu áður en benzínskattshækkunin var á döfinni, þá væri verið að skrifa í blöðin, tala við einstaka þm. og senda þinginu erindi um það, að benzínverð hér væri óhæfilega hátt, og ef bara fengist innflutningsleyfi fyrir pólsk-rússnesku benzíni, væri hægt að selja það hér miklu ódýrara. Mér er óskiljanlegt, hvernig hv. þm. getur borið á móti þessu.

Það kemur mjög undarlega fyrir að segja, að allar þessar beiðnir hafi verið gripnar úr lausu lofti. Nei, sannleikurinn var sá, að þetta var allt eins og veggur fyrir. Og menn kenndu því mjög um, að maður, sem stóð ákaflega nærri stj. og er einn af helztu mönnum í stjórnarflokkunum, er einmitt forstjóri fyrir öðru aðalolíusölufirmanu, sem selur hér benzín og olíu. Almenningur lagði það svo út, að þessi mótstaða gegn þessum almennu beiðnum væri nokkurskonar verndarhönd fyrir benzínsalana, eða a. m. k. óhæfilega lin föðurhönd yfir atvinnuvegum þjóðarinnar.

Ég vil nú segja, að það er ákaflega óviðkunnanlegt fyrir 4. landsk., að það er fyrst þegar bílstjórarnir eru búnir að þjarma svo að honum, að hann er orðinn dauðþreyttur í fótunum af því að ganga, þá er eins og allt losni úr læðingi, þá fæst innflutningsleyfið, þá gat „Nafta“ lækkað verðið á benzíninu, þá koma tankar, þá kemur allt. Þá fer benzínstíflan úr og bíllinn í gang. Þetta er ákaflega einkennilegt. Og ég er hræddur um, að hæstv. fjmrh. og hv. 4. landsk. verði að taka mikið á mælsku sinni og halda langar og snjallar ræður, ef þeir eiga að fá fólkið til að trúa því, að þetta standi ekki í neinu sambandi hvað við annað. Ég held, að það megi segja um næstum hvaða verkfall sem er, að þegar því lýkur og hækkun fæst á kaupi eða annað, sem verkfallið er stofnað til að ná, þá geti þeir, sem staðið hafa á móti kröfum verkfallsmanna, staðið upp og sagt: „Já, við vorum nú einmitt að hugsa um að bæta kjör þeirra og hækka“ — eða eitthvað þess háttar.

Það þýðir ekkert að bera á móti því, að þá fyrst er verkfallið var hafið, var farið að reyna að fá benzín fyrir lægra verð. Nei. Ég held, að menn ættu að líta á efndir hæstv. stj. í mjólkurmálinu o. fl., áður en þeir fara að trúa því, að þegar verkfallið var hafið, þá hafi stj. verið í þann veginn að lækka benzínverðið sem svaraði því, sem verkfallið kom til leiðar. Hvað sem að öðru leyti má um bifreiðarstjóraverkfallið segja, þá varð það til þess að knýja hæstv. stj. að hefjast handa um að veita þeim aðilja, sem vildi selja benzín hér fyrir lægra verð en hér gerðist,. aðstöðu til að gera það, hvað mörg ár sem hæstv. ríkisstj. kann að hafa verið búin að hugsa um að gera þetta.

Ég skil vel, að hv. 4. landsk. hafi verið ákaflega sárt um að reita þessa menn til reiði, sem að verkfallinu stóðu, því að hann gat misst eitthvað af atkvæðum við það við næstu kosningar.

Hv. 4. landsk. sagði svona almennt um málið, að ekki væri hægt að missa tekjur af þessum tekjustofnum ríkissjóðs, af því að ástandið væri svo ískyggilegt. En það er ekki nein von til þess, að ástandið batni á meðan núv. stj. er við völd. Ég get sagt hv. þm. það fyrir satt, að á meðan þessi stj. fer með völd, verður það alltaf jafnískyggilegt. Ef hv. stjórnarflokkar því vilja spara þjóðinni að þurfa að gjalda þessa skatta framvegis, þá skulu þeir leggja niður völdin sem allra fyrst. Því að á meðan alltaf er verið að leggja þyngri og þyngri álögur á atvinnuvegina, þá komast þeir aldrei úr þeirri kreppu, sem þeir eru nú í. Og á meðan stj. skipar máttarvöld eins og fiskimálan., sem standa í gegn framleiðendum um sölu afurða þeirra, þá er heldur engin von um, að atvinnuvegirnir komist út úr þessari kreppu.

Því að það sé leiðinlegt að hryggja hæstv. ráðh. með því, þá verð ég að segja það, að ég er ákaflega hræddur um, að hann veði að sitja í annari aðstöðu hér á Alþingi en hann gerir nú til þess að sjá upp renna þann gleðidag að hægt verði að létta eitthvað álögum af þjóðinni.