22.04.1936
Efri deild: 54. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 4. landsk. og hv. 1. þm. Eyf. hafa að mestu tekið af mér það ómak að svara hv. 1. þm. Reykv. Hann hélt því fram í fyrstu, að ég hefði lofað því hátíðlegu, að þessir skattar yrðu ekki framlengdar. En í síðari ræðu sinni fór hann þó ekki lengra en það, að hann sagði, að ráða hefði mátt af framkomu okkar, að okkur hefði hvarflað í hug, að þeir yrði ekki framlengdir. Ég get eftir atvikum látið mér þau ummæli hans lynda. Ég hélt því alltaf fram, að líklegt væri, að framlengja yrði þá fyrir 1937, ef engin sérstök höpp kæmu fyrir. Þar sem þetta fororð var haft, er því síður en svo hægt að tala um neinar blekkingar af stj. hálfu í þessu máli.

Hv. þm. kvaðst hafa verið andvígur bílstjóraverkfallinu, af því að fjarstæða væri að ætlast til þess, að Alþingi breytti ákvörðunum sínum. En á síðasta þingi, þegar benzínskatturinn var til umr. og þessi hv. þm. vissi, að allmargir bílstjórar voru á pöllunum, þrástagaðist hann á því í ræðum sínum, að sér fyndist eðlilegt, að bílstjórar gripu til óvenjulegra ráða út af því máli. En nú lítur út fyrir, að hv. þm. hafi bætt ráð sitt og fengið iðrun, og get ég verið ánægður með það afturhvarf hans.