07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

1. mál, fjárlög 1937

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki nú fremur en áður borið fram margar brtt. við fjárlögin. Þó hefi ég leyft mér að bera hér fram brtt. á þskj. 519 um það, að veittar verði kr. 2000.00 til bryggjugerðar á Stafnesi. Mér hefir borizt um þetta beiðni frá nokkrum útvegsmönnum, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa hana hér upp. Erindið hljóðar svo:

„Við undirritaðir förum þess hér með á leit við hið háa Alþingi, að það veiti okkur kr. 400.00 — fjögur þúsund krónur — styrk til þess að fullgera bryggju á Stafnesi. Til skýringar viljum við taka fram eftirfarandi:

Þar sem fyrirsjáanlegt er, að við getum ekki haldið úti bátum okkar, eða fengið menn til þess að róa þeim með því fyrirkomulagi að bera aflann upp á bakinn 120 til 140 metra vegalengd, þá höfum við ráðizt í að koma okkur upp bryggju. Við erum búnir að leggja ca. kr. 3000.00 — þrjú þúsund krónur — í verkið, en það er áætlað kr. 8000.00 — átta þúsund krónur — og vantar okkur því tilfinnanlega fé til þess að halda verkinu áfram. Þess vegna vonumst við til, að hið háa Alþingi bregðist nú vel við og veiti okkur hið umbeðna fé, svo hægt sé að halda verkinu áfram.“

Undir þetta hafa ritað sex útvegsbændur, sem aðallega eiga þarna hlut að máli. Ég hefi borið fram áður rök fyrir því, að öll sanngirni mæli með því, að þessir menn séu styrktir af ríkissjóði. Ég býst við, að allir, sem einhver kynni hafa af aðstöðunni, þar sem bera þarf afla og allar vörur á bakinn 120–l40 m., viðurkenni baráttu þessara manna, og vænti ég, að hv. þm. telji vel sæmilegt af ríkisvaldinu að leggja fram nokkurt fé til þess að létta hina örðugu baráttu þessara manna. Hér er ekki farið fram á nema helming þeirrar upphæðar, sem um var beðið, og vænti ég því, að hv. Alþingi taki vel þessari málaleitun.

Að öðru leyti á ég hér ekki nema tvær brtt., um 1200 kr. til hvors íþróttaskólans, á Álafossi og íþróttaskóla Jóns Þorsteinssonar. Ég skal ekki tala langt mál, en þessu til stuðnings má benda á, að Alþingi hefir áður veitt viðurkenningu fyrir því, að þessir skólar væru styrks verðugir. Það, sem ég fer fram á, er ekki nema lítill hluti þess, sem veitt var á síðustu fjárlögum, og þó fjárhagurinn sé þröngur, virðist ekki sanngjarnt, að þeir séu skornir alveg niður, þegar ýmsir styrkir til einstakra manna eru hækkaðir. — Ég vil svo ekki, eins og fáskipað er í þinginu, vera með frekari málalengingar, en vænti, að hv. þm. sýni fulla sanngirni, þar sem svo mjög er stillt í hóf.

Þá vildi ég sérstaklega mæla með XXI. brtt. á þskj. 319, frá hv. þm. V.-Ísf., um aukið framlag til barnaskólahúsa utan kaupstaða. Ég veit, að á þessu muni vera mikil þörf almennt, en þó byggjast mín meðmæli fyrst og fremst á því, að sá er alltaf eldurinn heitastur, er á sjálfum brennur, því í mínu kjördæmi eru þrír skólar, sem brýn þörf er að endurbyggja. Einn er skólinn í Höfnum, sem brann í vetur; annaðhvort verður kennsla þar að falla niður eða endurreisa skólann. Í Sandgerði er kennt í húsi, sem ekki er sæmileg svínastía, hvað þá skólastofa fyrir börn. Hefir fræðslumálastjóri látið þau orð falla, að hann mundi mæla með styrk þangað, ef þessi hækkun fæst. Þriðji skólinn er í Kjósinni, og hefir fræðslumálastjóri einnig tjáð mér, að hann mundi mæla með styrk þangað, ef brtt. hans gengur fram.

Ég vil taka það fram, að þótt ég mæli með þessari fjárveitingu út frá eiginhagsmunum minna kjósenda, þá er mér kunnugt um, að þörfin er á fleiri stöðum jafnmikil. Og ef ríkisstj. sér sér fært að halda uppi yfir 16 millj. kr. fjárlögum, er óhætt að segja, að mörg útgjöld eru þar óþarfari en þessi liður. Sé það í raun og sannleika meining Alþingis, að æskilegt sé að mennta fólkið, verður það líka að sætta sig við að inna af hendi nauðsynlega hjálp fyrir barnafræðsluna í landinu.