25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Ólafur Thors:

Það er nú komið á daginn, sem við sjálfstæðismenn spáðum, þegar þetta mál var lagt fyrir síðasta þing, að þessir nýju skattar mundu ekki aðeins verða til eins árs, eins og þá var haldið fram, þó hæstv. ráðh. vilji nú leggja höfuðáherzluna á, að hann hafi þegar í upphafi gert þjóðinni aðvart um, að þetta ætti að gilda lengur. Ég minnist þess vel, að í ræðum sínum gerði hann yfirleitt ráð fyrir, að ekki væri vert að gera því skóna, að þetta þyrfti að gilda lengi; það væri aðeins um það að ræða, hvort menn vildu sætta sig við þetta til eins árs. Það ér nú komið í daginn, að þessar álögur á að framlengja, enda mátti alltaf búast við, að svo yrði. En afstaða okkar sjálfstæðismanna til málsins verður sú sama og áður var, að við verðum á móti ýmsum af þessum sköttum, m. a. vegna þess, að það er ekki nokkur von til, að atvinnurekstur þjóðarinnar geti risið undir svona þungum álögum. Þetta eru ekki skattalög. Margt af þessu er öllu heldur eignarnám. Í mörgum tilfellum er nú svo komið, að þegar ákvæði þessara l. koma saman við útsvarsreglurnar, t. d. hér í Reykjavík, þá er tekið meira en allur hagnaðurinn af atvinnurekstri manna.

Þessu máli verða sjálfsagt gerð skil af okkar hendi sjálfstæðismanna við 2. umr., en ég vil nota þessa umr. til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort hans tilgangur er, að 3. gr. þessara 1. lögfesti, að tekjuskattinn megi innheimta einnig með 10% álaginu, sem heimilað var 1935. Ég hefi ekki borið orðalag gr. saman við l., en eftir því. sem ég bezt man ákvæði l., sem vitnað er til, orkar þetta tvímælis, og óska ég að vita, hvort þetta er tilgangur hæstv. ráðh.

Að öðru leyti vil ég svo aðeins út af þeim margendurteknu fullyrðingum hæstv. fjmrh., að viðskiptagjaldið svokallaða bitni ekkert á framleiðendum eða atvinnurekstri landsins, upplýsa hann um það, sem ég veit ekki, hvort honum er ljóst — því maður hikar við að trúa því, að fjmrh. þjóðarinnar hafi hvað eftir annað í frammi staðhæfingar, sem honum er sjálfum ljóst, að hafa við engin rök að styðjast — að eftir þeirri reynslu, sem nú er komin á þetta hjá þeim, sem eiga að borga þessi gjöld, þá er þetta á miklum misskilningi byggt. Ég get sagt það að því er þunn atvinnurekstur snertir, sem ég þekki persónulega mest til, togaraútgerðina, að á hana leggst þessi löggjöf mjög þungt, og svo mun vera um allflestan atvinnurekstur í landinu. Verði þetta vefengt, er ég fús að leggja skýrslu um það fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, ef hún þá gefur sér tína til að athuga það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að setja fram frekari aths. við þessa umr., en vísa að öðru leyti til þeirrar afstöðu, sem sjálfstæðismenn hafa haft til þessara mála á undanförnum þingum.