25.04.1936
Neðri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

110. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð í tilefni af orðum hv. þm. G.-K. Hann segir, að aðflutningsgjaldið nýja, sem framlengja á með þessu frv., bitni mjög á atvinnurekstri landsmanna þar á meðal togaraútgerðinni. Ég hefi hvað eftir annað bent á, að við samningu laganna um þetta gjald var reynt að sneiða hjá þessu með því að undanskilja þær vörur, sem notaðar eru beint við framleiðsluna. Það er æskilegt, að hv. þm. gefi þær upplýsingar, sem hann talaði um, til hlutaðeigandi nefndar.

Þá spurði hv. þm. að því, hvurt 10% viðaukinn, sem gert er ráð fyrir, að megi leggja á tekjuskattinn í ár, sé framlengdur með þessum l., eða heimildin til að leggja hann á. Þessi viðauki er ekki notaður þetta ár vegna þess, að í stuð hans kemur skattstiginn, sem er innifalinn í l. um bráðabirgðatekjuöflun. Þetta frv. framlengir bæði heimildina til að nota skattstiga bráðabirgðatekjuöflunarlaganna og 10% viðaukann, þannig að gert er ráð fyrir, að það megi velja, um þetta tvennt, eins og hægt var að velja um það á árinu 1936.

Þá sagði hv. þm., að það væri nú komið á daginn, sem stjórnarandstæðingar hefðu spáð, að þessi l. yrðu í gildi lengur en eitt ár, þó ég hefði lagt áherzlu á í fyrra, að þetta væri aðeins til eins árs. Ég held, að hv. þm. misminni þetta. Ef hann athugar ræður mínar frá í fyrra, getur hann séð, að ég lagði einmitt áherzlu á, að þó þetta væri bráðabirgðatekjuöflun, þá mætti búast við, að hún yrði framlengd eitthvað, nema verulega breyttist ástandið, eins og ég sagði áðan. Mér var ljóst, að þær greiðslur, sem átti að inna af hendi með þessum tekjum, væru til frambúðar, og því væri ekki hægt að afnema þessa skatta fyrr en búast mætti við, að aðrir tekjustofnar gæfu meira af sér heldur en árið 1936. Nú er ekki hægt að búast við því, og þess vegna er þetta frv. borið fram.