07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru engin tök á því að minnast á nema lítið af þeim till., sem hér liggja fyrir.

Ég skal byrja á að svara fyrirspurn hv. þm. V.-Sk. um, hvort Dauge Kock sé ráðinn til þess að hafa með höndum rannsóknir fyrir ríkisstj., eða hvort hann beint eða óbeint njóti styrks frí ríkinu eða þeim stofnunum, sem það stendur að. Þessu get ég svarað neitandi. Hann hefir engan styrk úr ríkissjóði eða frá stofnunum, sem eru undir umsjón ríkisstj.

Þá skal ég drepa á tvær till. á þskj. 519. Sú fyrri, frá þeim hv. 10. landsk. og hv. þm. Húnv., var tekin aftur við 2. umr. og er um það að heimila ríkisstj. að verja allt að 100 þús. krónum til að styrkja bændur á mesta harðindasvæðinu norðaustanlands til greiðslu á fóðurbæti veturinn 1935–1936. Ég hefi nú athugað málið frekar, og hefir ríkisstj. komizt að þeirri niðurstöðu að mæla gegn því, að till. verði samþ. — Það hefir komið fram í umr. á Alþingi, að ríkisstj. hefir hlaupið undir bagga um útvegun fóðurbætis handa þeim, sem hefir skort hann, en ekki getað aflað hans af eigin rammleik, og þar sem stj. á sínum tíma leitar að sjálfsögðu aukafjárveitingar fyrir því tapi, sem leiða kann af þessum óumflýjanlegu ráðstöfunum á árinu 1926, telur ríkisstj. ekki ástæðu til að veita sérstaka heimild til slíkra útgjalda á árinn 1937.

Hin till., sem ég vildi minnast á og einnig er nokkuð stórt mál, er frá þeim hv. þm. N.-Ísf., hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., og hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta.

„(Ríkisstj. er heimilt) að ábyrgjast Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda eða þeim banka, sem veitir því lán, skaðlausu greiðslu á söluandvirði þess saltfiskjar, sem S. Í. F. hefir selt og kann að selja á þessu ári og hinu næsta til þeirra landa, sem ekki leyfa frjálsa greiðslu og yfirfærslu á sterlingspundum á andvirði fiskjarins við móttöku.“

Það mun öllum þingheimi kunnugt, hverjum erfiðleikum það hefir verið bundið að fá greiðslur fyrir þann fisk, sem seldur hefir verið til Spánar og Ítalíu. Þetta sama hefir komið fram gagnvart öðrum viðskiptamönnum þessara landa, t. d. Dönum og Norðmönnum. Það, sem hv. flm. þessarar till. munu hafa haft í huga, er, að í þessum löndum hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja menn gegn tjóni af drætti á yfirfærslum. En það er mikill munur á þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið í þessum löndum, og því., sem farið er fram á hér. Í þessum löndum nær ábyrgðin aðeins til yfirfærslunnar eftir að búið er að greiða andvirði fiskjarins inn í banka í hlutaðeigandi landi. En hér er farið fram á, að ábyrgðin taki ekki aðeins til yfirfærslunnar, heldur einnig til þess, að kaupandinn geti greitt, m. ö. o. að andvirðið komi undir öllum kringumstæðum inn. Ég vil benda hv. þm. á, að hér er verið að fara út á hálan ís, með því að fara fram á, að ríkið taki ábyrgð á því, að þeir, sem kaupa fiskinn, geti borgað hann í mynt síns eigin lands, að það eigi að koma fram á ríkissjóði, ef fiskur er seldur svo fátækum, að hann getur ekki borgað. Ég skal einnig taka fram, að ég sé ekki betur en að ríkissjóður eigi að bera ábyrgð á þeim skemmdum, sem koma fram í fiskinum eftir að hann er tekinn til sölumeðferðar. Nú vita allir, að það kona fram kvartanir frá öllum löndum um meiri og minni skemmdir í fiskinum. Það nær þess vegna engri átt að ríkissjóður taki ábyrgð á því, þótt eitt verzlunarfyrirtæki verði fyrir halla á vörusölu, og það hvort heldur sem hallinn verður fyrir handvömm eða óviðráðanlegar ástæður. Ég hefi ekki orðið var við, að nokkursstaðar hafi verið samþ. till. í líkingu við þessa. Þær till., sem samþ. hafa verið, svo mér sé kunnugt um, taka ábyrgð á 75–90% af andvirðinu, eftir að það hefir verið greitt inn í banka af þeim, sem keyptu fiskinn. Þar er því ekki tekin ábyrgð á neinu nema yfirfærslunni og gengisfalli, sem verða kann á mynt þess lands, sem andvirðið er borgað í. Yfirleitt er allur frágangur till. þannig, að ekki getur komið til mála að samþ. hana. Hinsvegar vill ríkisstj. mæla með, að tekin sé ábyrgð á allt að 75% af andvirði þess fiskjar, sem seldur er í Ítalíu. Þó kemur ábyrgðin ekki til greina fyrr en búið er að greiða andvirðið inn á „clearing“-reikning Landsbankans.

Um viðskiptin við Spán er það að segja, að þó dráttur verði þar á greiðslum, eru þær þó alltaf að smákoma og hafa gengið framar vonum til þessa tíma. Stj. hefir því ekki séð ástæðu til að taka ábyrgð yfirfærslum þaðan. Þetta er nokkuð annað að því, er Ítalíu snertir, þar hefir stj. orðið að ganga inn á vöruskipti, og er því hætt við, að viðskiptin gangi stirðlega vegna þess, hve erfitt er að fá þar hentugar vörur fyrir okkur. Af því leiðir meiri áhættu af gengisfalli ef lengi þarf að bíða eftir andvirði fyrir fiskinn. Þess vegna hefir stj. fallizt á að veita þessa ábyrgð að því er Ítalíu snertir, en ekki önnur lönd að svo stöddu.

Þó vitanlega megi segja, að nauðsynlegt sé að sinna málum útvegsmanna, verður að fara gætilega að því að skella jafnstórkostlegri ábyrgð á ríkissjóðinn eins og að taka ábyrgð á öllu fiskverðinu. Allsstaðar þar sem til þekkist, er farið gætilega í þeim efnum, og hvergi svo komið málum, að ábyrgð á sölu einstakra verzlunarfyrirtækja sé tekin á ríkissjóð. Það sjá allir, að ef þeir, sem fyrirtækjunum stjórna ekki hafa hita í haldi um að búa tryggilega um söluna, er hætta á, að tilfinningin fyrir því að hún fari vel úr hendi, sljóvgist fremur en ef þeir bera eðlilega ábyrgð.