21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Eins og frsm. meiri hl. vék að og fram kemur í nál. beggja hl. landbn., hefir hún ekki getað orðið samferða um meðferð þessa máls. Sá ágreiningur nær þó ekki til þess, að n. er öll sammála um, að það sé nauðsynlegt, að garðræktin sé aukin í þessu landi, og okkur er fullkomlega ljóst öllum, að til þess eru miklir möguleikar. Ekki heldur tekur ágreiningurinn til þess, að það sé ekki nauðsynlegt, að þekking á þessu sviði fari vaxandi og kennsla um þá hluti frá því, sem nú er. En okkar ágreiningur byggist á því, að við teljum ekki nauðsyn bera til þess að stofna nýjan skóla í þessu skyni, fyrst og fremst af því, að samkvæmt l. er ætlazt til, að búnaðarskólarnir annist þessa kennslu, og það eru fullkomnir möguleikar til að auka þá starfsemi frá því, sem nú er, svo að það ætti að vera nægileg garðyrkjufræðsla fyrir landsmenn. Til þess þarf ef til vill að breyta reglugerðum þessara skóla, og að einhverju leyti l. sjálfum. En það ætlumst við til. að ríkisstjórnin annist fyrir næsta þing í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Þá er að minnast á hitt atriðið, sem hv. frsm. meiri hl. vék að um að það þyrfti að vera tvennskonar fræðsla, annarsvegar almenn fræðsla, sem allir, sem stunduðu garðyrkju í landinu, þyrftu að njóta, og hinsvegar fullkomin garðyrkjufræðsla, sem mundi taka 3–4 ár og væri fyrst og fremst miðuð við það, að menn gætu stundað garðyrkju sem starf og gætu tekið að sér að stjórna garðyrkjubúum á hitasvæðunum og í gróðurhúsum eða yfirleitt við þau fullkomnustu og beztu skilyrði, sem hægt er að fá hérlendis. Til þess að koma því í kring, að menn geti fengið þá fræðslu, teljum við ekki heldur nauðsyn bera til að stofna nýjan skóla. Við teljum yfir höfuð, að þetta mál sé of lítið undirbúið að því leyti, að ekki liggja fyrir neinar áætlanir um það, hvað mikinn kostnað mundi af þessu leiða, og hvað þyrfti að bæta við af húsum til þess að koma þessum skóla á fót, og ekki heldur um það, hvað mikla starfskrafta þyrfti að fá þarna til kennslu og stj. Þetta er það, sem er undirstöðuatriði og leikur mjög í lausu lofti. En það er af þessum sökum, sem ég hefi þegar tekið fram og þarf ekki að fjölyrða mikið nánar um að sinni, að við hv. þm. Borgf. og ég leggjum til, að þetta frv. verði afgr. með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hér liggur fyrir á þskj. 353.