21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. flm. þessa frv., hv. 9. landsk., sagði í sambandi við þá dagskrártill., sem við hv. þm. Borgf. flytjum. Það kom fram hjá þessum hv. þm., eins og vænta mátti, að það væri sjálfsagt, að ríkið tæki lán til þess að koma þessu máli fram. Hvað mikið þetta lán þarf að vera, hefir ekkert verið upplýst um, hvorki af flm. eða frsm. meiri hl. n. En það er aðeins staðhæfing, sem ekki er að neinu leyti útskýrð, sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að það væri líklegt, að þessi starfsemi gæti staðið undir sér sjálf og að garðræktin gæti borgað kostnaðinn við skólahaldið. Þetta er atriði, sem er í raun og veru meginatriði, þegar um er að ræða, hvaða leið á að fara í þessu máli. Hvað það snertir, sem hv. 9. landsk. vék að búnaðarskólunum, að þar sé svo vond aðstaða í þessum efnum, að ekki sé hægt að fá þar fullnægjandi þekkingu í garðrækt, þá er það að því leyti rétt, að búnaðarskólarnir eru ekki á jarðhitastöðum og því ekki fullnægjandi fyrir þá þörf, sem er fyrir aukna þekkingu um rekstur garðyrkju á þeim stöðum. En það er svo almennt í þessu landi, að ekki er þeim skilyrðum til að dreifa, að það verður fyrst og fremst að miða kennsluna við þá almennu þörf, sem fyrir hendi er. Og þeirri almennu þörf er fullkomlega hægt að fullnægja á þeim stöðum, sem búnaðarskólarnir standa nú. Hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu, að þau garðyrkjubú, sem þegar eru hér starfandi, geti tekið að sér frá fræðslu, sem mest þörf er fyrir til þess að annast garðyrkju, þar sem jarðhiti er fyrir hendi. Þetta er atriði, sent mér finnst menn eigi og hljóti að gera sér grein fyrir, þegar þeir velja um, hvort þessi aukna fræðsla á að fara fram í búnaðarskólunum eða að stofnaður verði nýr skóli. Það var ekki fleira, sem fram kom í ræðu hv. frsm., sem ég þarf að taka til athugunar að sinni.