21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Sigurður Einarsson:

Ég skal ekki blanda mér mikið inn í þessar umr. Ég vil aðeins benda á það, sem hv. frsm. minni hl. hefir í rauninni viðurkennt, að sökum legu sinnar og staðhátta eru búnaðarskólarnir ekki eins vel settir til þessara hluta og sá skóli mundi verða, sem reistur yrði að Reykjum í Ölfusi og ég og hv. meiri hl. landbn. viljum og mælum með, því búnaðarskólana skortir stærsta skilyrðið jarðhitann. þrátt fyrir það, þó hv. frsm. minni hl. og hv. þm. Borgf. séu sammála um þessa brtt., þá hefir ekki heyrzt ennþá, að þeir færðu nein rök að því, að rekstur skóla yrði þar ódýrari. Þó að þar sé e. t. v. nægilegt húsnæði, þá vantar þar ýmsa hluti aðra, svo sem eins og áhöld ýmiskonar og jarðhita, sem er þar enginn; m. a. fæ ég ekki séð annað en þurfa muni aukna starfskrafta til kennslu.

Þá vil ég mótmæla því, að vísu með mildum og hógværum orðum, sem hv. þm. Borgf. hafði við orð, að kostnaðarhliðin væri fyrir okkur aukaatriði og við fyrirlitum að taka það atriði til greina. Þetta er fjarstæða, sem ekki nær neinni átt. Þó að hv. þm. Borgf. sé nýtur, aðgætinn og glöggur við samningu fjárlaga, þá getur hann ekki búizt við, að tekin sé upp á fjárl. fjárveiting til þeirra hluta, sem ekki er farið að ræða enn, og því síður sýnt, hvort muni ná fram að ganga, en það var allt of snemmt að gera ráð fyrir lögum í þessu efni, þegar gengið var frá fjárl. til 2. umr.

Ég verð að segja það, að rök þessa hv. samnm. míns í fjvn. fyrir því, að rekstur garðyrkjuskóla yrði ódýrari í sambandi við búnaðarskólana, voru ekki traust né haldgóð og geta því ekki orðið tekin gild. Hefir verið sýnt fram á það, að á Reykjum í Ölfusi er margt til taks, sem nota þarf í sambandi við slíkan skóla. Ég verð því að segja það, að hv. minni hl. hefir ekki bent á leið, sem er haldbetri en sú, sem ég og hv. meiri hl. landbn. hefir gert till. um.